Það er leiðinlegt að taka til. Það er ennþá leiðinlegra að taka til þegar allt er í drasli. Og þegar allt er í drasli þá sleppir maður því að taka til af því að það er svo leiðinlegt. Og þá verður allt draslið að ennþá meira drasli.

Hver kannast ekki við þennan vítahring? En hvernig myndir þú bregðast við ef ég segði þér að ég hef ráð við þessu? (Áhorfendur í sal reka upp stór augu.) Hvað ef ég segði þér, að með smá skipulagningu gætum við vísað þessu drasli út í veður og vind? (Áhorfendur trúa ekki sínum eigin eyrum; þeir eru eitt stórt spurningamerki í framan.) Hvað ef ég myndi segja þér að drasl geti heyrt sögunni til? (Áhorfendur eru farnir að hrópa; þeir hreinlega trúa þessu ekki!)

Viðhald frekar en rassíur

Besta ráðið til að forðast tímafrek og grútleiðinleg alþrif er að fyrirbyggja þau. Með því að eyða 15 mínútum á dag í létt þrif og tiltektir má auðveldlega koma í veg fyrir að íbúðin líti út eins og vígvöllur. Til dæmis: í staðinn fyrir á láta þvottinn hrannast upp, er hægt að koma upp skipulagi á hann. Á morgnanna er hent í vél áður en haldið er út. Á daginn þegar maður kemur svo heim úr skóla eða vinnu er hægt að taka úr henni. Til að hjálpa manni að halda 15 mínútna þrifa-planinu er hægt að setja daglega áminningu í símann eða hengja upp post-it miða á áberandi stað. Það er alvitað að 15 mínútur líða fljótar en 3 tímar.

Múltí-taskaðu, maður!

Tíminn er verðmætur – og sá tími sem fer í þrif og tiltekt virðist vera fólki dýrkeyptari en annar tími. Aftur á móti er hellingar af tíma á hverjum einasta degi sem fer til spillis: sá tími er oftar en ekki kallaður „bið“. Því er stórsnjallt að nýta þessar auka mínútur og múltí-taska. Til að mynda er stórsnjallt að þurrka af eldhúsborðinu og sópa upp á meðan kaffið er að sjóða. Þegar maður tannburstar sig er önnur höndin laus; er ekki upplagt að tína upp fötin af gólfinu í leiðinni. Svo er hægt að brjóta saman þvottinn á meðan maður horfir á sjónvarpið. Ef fólk kemur auga á tíma sem getur nýst í að gera fleiri en einn hlut er ídeal að grípa það tækifæri.

Þemadagar á heimilinu

Einnig er hægt að breyta öllum vikudögunum í þemadag: mánudagur getur verið þvottadagur, þriðjudagur getur verið baðherbergisdagur, miðvikudagur getur verið eldhúsdagur . . . Með þessu móti ætti draslið ekki að hrannast upp. Eins er hægt að fylgja fordæmi Henry Ford og fjöldaframleiða! Á sunnudögum eru þvottadagar og þá fær þvottavélin að þeyta frá morgni til kvölds, mánudagar eru ryksugudagar og þá er öll íbúðin ryksuguð, á þriðjudögum er þurrkað af öllu sem hægt er að þurrka af . . . og svo framvegis. Þetta tekur örfáar mínútur á dag.

Að gera leiðinlega hluti skemmtilega

Síðasta ráðið er sennilega það mikilvægasta. Það finnst flestum drepleiðinlegt að þrífa – en það er kannski hægt að gera það bærilegt. Þetta má til dæmis gera með því að láta uppáhalds tónlistina yfirgnæfa ryksuguna, reyna að slá hraðamet við klósettþrifin í hverri viku (það má verðlauna sig þegar maður vinnur!) og horfa á sjónvarpið á meðan maður gengur frá þvottinum. Þetta verður aldrei alveg skemmtilegt – meira svona vont en það venst.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar