Áhrifaríkasta leiðin er að ganga ávallt frá þegar maður er búinn að vera að dútla eitthvað, vinna eða borða. Önnur góð leið er að yfir fylla íbúðina ekki af mublum og smáhlutum. Hlaðin íbúð gerir þrifin enn tímafrekari og maður verður latari við að þrífa.
Byrja á því að þurrka af.
Það er góð regla, því þá fellur rykið sem maður þurrkar af hillum, lömpum og öðru, niður á gólfið. Því er best að ryksuga að því loknu. Oft er gott að þurrka fyrst af með klút sem dregur í sig ryk, eins og örtrefjaklút, og síðan fara yfir með rökum klút og vel ilmandi hreinsilegi.
Til að kljást við hitabletti á viðarborðum má reyna að leggja hvítt handklæði (ekki of þykkt) yfir blettinn og strauja svo yfir með gufustraujárni. Síðan þurrka borðið strax vel. Ef borð eru ólökkuð nást glasahringir oft burt með því að nota á þá majones. Fleiri góð húsráð má finna hér.
Hvernig þrífur maður glugga og spegla?
Best er að þurrka ryk af með þurrum klút áður en speglar og annað gler er þrifið með einhvers konar hreinsilegi. Margar tegundir glugga- og speglahreinsiefna má finna í verslunum og er um að gera að prófa sig áfram og finna út hvað virkar best. Þó er til húsráð til að spara við innkaupin á gluggahreinsiefnum:
Hægt er að þrífa glugga og spegla með dagblöðum. Fyrst er pússað yfir með blautu dagblaði, og síðan farið yfir með þurru dagblaði.
Límblettum má ná af gleri með því að setja smá sítrónudropa (kökudropa) í blauta tusku og nudda vel.
Að þvo gólfin.
Best er að ryksuga, eða sópa, áður en skúrað er. Annars verður skúringarvatnið strax drulluskítugt. Bara það eitt að ryksuga léttar heilmikið á andrúmsloftinu innandyra. Ef maður skúrar svo yfir með hreinsilegi, með því ilmefni sem maður kann best að meta, verður lífið allt annað. Gæta skal þess að ryksuga vel í öll horn. Ryk safnast sérstaklega undir rúmum, bak við hurðir og þar sem snúrur, frá tölvum og sjónvarpi, liggja. Einnig er gott að skúra samkvæmt ákveðnu skipulagi, svo allur flöturinn sé þrifinn.
- Það er líka mikilvægt að nota réttar hreyfingar þegar maður ryksugar og skúrar og passa vel upp á bakið!
- Mismunandi þvottur hentar auðvitað ólíkum gólfefnum. Til dæmis þarf að ryksuga gólfteppin mjög vel, þar sem þau safna auðveldlega í sig ryki. Og auðvitað skúrar maður ekki teppalögð gólf.
- Blettum á parketi má oft ná burt með því að hella smá ediki út í vatnið, sem tuskan er vætt með, og strjúka yfir parketið með því.
Vaskar, sturtubotnar og klósett.
Þessa hluti þarf að þrífa reglulega, því þar safnast fyrir sýklar og óhreinindi. Klósettin eru þrifin með þar til gerðum efnum. Gott er að sprauta klósettskálina vel að innan með klósetthreinsilegi, og láta það standa í u.þ.b. korter. Klósettið er svo skrúbbað vel með klósettbursta.
- Skipta þarf reglulega um klósettbursta rétt eins og tannbursta. Henda og kaupa nýjan!
- Þegar sturtubotnar og baðker eru þrifin er gott að gera það til dæmis með stálull, sem finna má í hreinsideildum verslananna. Mikilvægt er samt að vara sig á því, að botnarnir geta orðið hálir fyrst á eftir og auðvelt er að renna til á þeim.
Elda- og uppþvottavélar, bakara- og örbylgjuofnar.
Þessa hluti þarf líka að þrífa, svo skítur og afgangar safnist ekki upp. Mikilvægt er að kynna sér vel hvernig þrífa skal slík tæki. Það getur verið afar mismunandi hvaða aðferð er réttast að beita. Ýmis hreinsiefni eru til fyrir vélar og ofna, og mismunandi hvað hentar best hvaða tæki.
Hægt er að þrífa ofna með því að blanda saman matarsóda og vatni, svo það verði að einskonar drullumalli, og láta það síðan liggja í ofninum. Hér má finna fleiri góð húsráð.
Matarsódinn getur einnig gagnast til að ná föstum kaffilit úr kaffibollum.
Þegar brennur við í potti eða á pönnu…
Oftast brennur við vegna þess að eldað er við of hátt hitastig. Gott er þá að láta skánina leysast upp í vatni og uppþvottalegi áður en vaskað er upp.
- Mikilvægt er að kynna sér hvernig þrífa skal hvern pott eða pönnu. Sum eldhúsáhöld þola illa uppþvottalög.
- Matarskán sem festist á eldavélarhellum má oftast ná burt með stálull. Stálullin kemur sér einnig vel þegar þrífa skal eldhúsvaskinn vel.
- Kaffilit má ná úr bollum, bæði með því að leggja þá í smá klór eða matarsóda upplausn.
Hvernig skal affrysta ísskápinn?
Sumar nýrri gerðir ísskápa þarf ekki að affrysta á gamla mátann. Yfirleitt er það þó gert þannig að ísskápurinn er tekinn úr sambandi og skúffurnar teknar úr frystinum. Klakinn er látinn bráðna, og því er mikilvægt að stilla upp handklæðum eða öðru fyrir framan hann, til að drekka í sig vatnið svo það fari ekki út um allt eldhús. Ef hægt gengur að bræða klakann er ráð að setja fat með sjóðheitu vatni inn í hann neðst. Frystihólfið er svo þurrkað að innan og ísskápurinn hreinsaður að innan. Síðan er allt sett á sinn stað og ísskápurinn settur í samband að nýju.
- Sniðugt er að affrysta þegar lítið er í frystinum og lítil hætta er á að matur skemmist. Frostpinnar og ís bráðna t.d. hratt og eru ekki frystir að nýju eftir það. Sama á við um margan mat, sem ekki er gott að endurfrysta.
- Til að ná vondri lykt úr ísskáp má láta 2-3 teskeiðar af matarsóda standa í opnu íláti inni í ísskápnum og strjúka innan úr honum með tusku sem vætt er í vatni með edikblöndu.
Oft sest fituskán ofan á eldhússkápana. Til að fyrirbyggja það er gott að setja plastfilmu ofan á eldhússkápana strax í upphafi. Þá sest fitan og rykið á plastið og auðvelt er að halda því hreinu.
Fleiri góð húsráð má finna hér.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?