Hvað eru björgunarsveitir?
Björgunarsveitir (sem heita sumar hjálparsveitir) eru félög um allt land sem hafa það hlutverk að starfa að björgun, leit og gæslu í þágu almennings. Björgunarsveitir bjarga mannslífum og verðmætum. Verkefni þeirra eru ótrúlega fjölbreytt, en sem dæmi má nefna björgun úr snjóflóðum, óveðursútköll, björgun úr sjávarháska, björgun á fjöllum og jöklum, leit að týndu fólki, sjúkragæsla á útihátíðum og íþróttaviðburðum, aðstoð við fórnarlömb náttúruhamfara hérlendis sem erlendis og margt fleira. Verkefnin geta verið nokkuð mismunandi eftir landshlutum og sérhæfingu sveitanna. Allir sem starfa í björgunarsveit eru sjálfboðaliðar sem eyða miklum tíma í þjálfun.
Hverjir geta gengið í björgunarsveitir?
Allir sem eru orðnir 18 ára og telja sig líkamlega og andlega færa um að sinna björgunarstörfum geta byrjað í nýliðaþjálfun björgunarsveitanna. Einungis þeir sem hafa lokið nýliðaþjálfun geta gerst fullgildir meðlimir. Æskilegt er að hafa fyrirfram reynslu af útivist en ekki nauðsynlegt.
Fyrir þá sem eru ekki orðnir 18 ára bjóða sumar björgunarsveitir upp á unglingastarf. Lágmarksaldur til að ganga í unglingadeild er oft um 14-16 ára en er breytilegur milli sveita.
Hvar eru unglingadeildir?
Að vera í björgunarsveit er ekki eintóm vinna, heldur fær maður líka að ferðast og stunda mikið og skemmtilegt félagsstarf með sveitinni.
Hvernig fer nýliðaþjálfun fram?
Nýliðatímabilið tekur oftast 1-2 ár og hefst yfirleitt á kynningarfundi sem flestar björgunarsveitir halda snemma á haustin. Þjálfunin samanstendur alla jafna af vikulegum kvöldfundum þar sem ýmislegt er lært og æft, mörgum ferðum til þess að venja nýliðana á ferðalög við krefjandi aðstæður, fjáröflunum fyrir sveitina og nokkrum helgarnámskeiðum. Miklar kröfur eru gerðar um mætingu og ástundun. Nákvæm dagskrá nýliðatímabilsins er mismunandi eftir sveitum, en allir nýliðar þurfa að minnsta kosti að taka eftirfarandi námskeið:
- Björgunarmaður í aðgerðum
- Björgunarmaður við sjó og vötn
- Ferðamennska
- Fjallamennska 1
- Fjarskipti 1
- Fyrsta hjálp 1
- Fyrsta hjálp 2
- Leitartækni
- Rötun
- Snjóflóð 1
Þessi námskeið eru flest tekin á fyrra árinu í nýliðaþjálfuninni, en á seinna árinu hefst sérhæfing. Þá velja nýliðar sitt áhugasvið innan sveitarinnar og æfa sig sérstaklega í því. Áfram er farið í ferðir og á kvöldfundi. Nýliðaþjálfun lýkur svo á því að nýliðinn skrifar undir eið og er þá orðinn fullgildur björgunarmaður og má taka þátt í útköllum.
Hvernig byrja ég?
Fyrst skaltu komast að því
hvaða sveitir starfa á þínu svæði og kynna þér starfsemi þeirra, t.d. á kynningarfundi fyrir nýliða að hausti. Síðan skaltu velja þá sveit sem hentar þér best, skrá þig og byrja að mæta á fundi, námskeið og ferðir af metnaði. Þá þarf að borga ýmsan kostnað við þjálfunina, en hann er ekki mjög hár og oft niðurgreiddur af sveitunum. Það að ganga í björgunarsveit krefst þess að þú eigir ákveðinn útivistar- og björgunarbúnað, en örvæntu ekki þó þú eigir ekki allan búnaðinn í upphafi. Það er óþarfi að eiga allt í byrjun og með tímanum bætist hægt og rólega í búnaðarsafnið.
(c) Mynd: Berglind Ösp Eyjólfsdóttir
- Var efnið hjálplegt?
- Já Nei
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?