Hvað þarf til að spila?
Kylfu og bolta. Það er til dæmis hægt að kaupa litla kylfu og tennisbolta í pakka í versluninni Tiger. Það þarf líka einhverja hluti til að nota sem hafnir. Varist að spila með of harðan bolta, það er vont að grípa hann og fá hann í sig. Augljóslega er hægt að taka fagmennskuna á þetta og fá sér hafnaboltahanska líka.
Sagan
Hafnabolti er aldagamall leikur sem á mögulega rætur sína að rekja til Englands. Fyrst er minnst á leikinn árið 1744 í breskri útgáfu. Aftur á móti er til franskt handrit sem lýsir svipuðum leik sem franskir munkar eiga að hafa spilað á 14.öld. Því er haldið fram að hafnabolti hafi þróast úr enskum leikjum á borð við „rounders“ og „old cat“ sem eru svipaðir og hafnabolti.
Hvernig á ég að spila?
Reglurnar í alvöru hafnabolta eru frekar flóknar. Þessi leikur er svipaður hafnabolta en mun einfaldari. Markmið leiksins er að slá boltann eins langt og mögulegt er. Þegar búið er að slá boltann þarf að hlaupa á allar hafnirnar fjórar, sem er stillt upp í tígul. Hafnirnar geta verið peysur, málningardósir, steinar eða hvað sem er.
Sá sem slær er á fyrstu höfninni til að byrja með og hann skorar með því að komast þangað aftur, heilan hring. Ef sá sem slær boltann kemst ekki alla leið fær sá næsti í röðinni að slá og geta þá báðir leikmennirnir komist í höfn. Liðið fær eitt stig fyrir hvern liðsmann sem kemst þannig í höfn.
Kastarinn, eða sá sem kastar boltanum til þess sem slær, stendur um það bil sjö skrefum frá þeim sem slær. Þá er einn sem slær og þrír sem bíða í sóknarliðinu. Í varnarliðinu er einn sem kastar, tveir sem standa úti á vellinum og einn sem stendur fyrir aftan þann sem slær.
Kastarinn kastar boltanum þrisvar að þeim sem slær. Ef sá sem slær hittir aldrei boltann þá er hann úr í þeirri umferð og sá næsti í röðinni slær. Ef einhver hittir boltann þá eiga bæði kastarinn og þeir sem eru á vellinum að reyna að grípa boltann. Ef þeir grípa boltann áður en hann fer í jörðina þá er sá sem sló úr leik í þeirri umferð. Ef þeir grípa boltann ekki áður en hann fer í jörðina þá þarf að kasta boltanum til leikmannsins sem stóð fyrir aftan þann sem sló boltann. Ef það tekst að gefa á þann leikmann þegar sá sem sló er ekki í neinni höfn, er hann úr leik í þeirri umferð.
Hægt er að hafa leikinn upp í eitthvað ákveðið eða hafa til dæmis fimm umferðir og það lið sem er með fleiri stig í lok fimm umferða stendur uppi sem sigurvegari.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?