Hvað þarf til að spila?

Hackey-sack bolta og nóg pláss fyrir alla sem vilja spila.

Sagan

Leikurinn á að öllum líkindum rætur sínar að rekja til asískra leikja á borð við Jianzi og Capteh. Það voru hins vegar vinirnir Mike Marshall og John Stalberger sem byrjuðu að nota nafnið hackey-sack yfir þennan leik árið 1972. Marshall dó úr hjartaáfalli ’75 en Stalberger hélt áfram með hugmyndina. Þeir félagar höfðu búið til fyrirtækið „footbag“ sem er einnig hugtak yfir boltann eða pokann sem er notaður í hackey-sack. Boltinn er lítill og yfirleitt með einhvers konar grjónum innan í.

Hvernig á ég að spila?

Markmiðið með hackey-sack er að halda boltanum á lofti með fótunum en það er bannað að nota hendurnar og handleggi. Það á helst ekki að einoka boltann, frekar að gefa hann sem fyrst á næsta mann. Einnig er vel séð að bölva ekki þeim sem þú spilar með eða afsaka þig ef þú ert lélegur spilari.

Þegar verið er að gefa upp, eða byrja að halda á lofti, á að gefa á einhvern í hópnum en ekki á sjálfan sig. Það er yfirleitt ekki sniðugt að gefa sendingar með hnjánum, þær rata yfirleitt beint í jörðina en ekki á tærnar á félögum þínum.

Ef það er áfengi haft við hönd þegar verið er að spila hackey-sack er ekki mælt með því að spila þegar áfengismagn leikmanna er komið yfir 0.09. Þá fara mannalæti og vesen við að halda boltanum á lofti að yfirgnæfa skemmtanagildi leiksins. Raunar mætti hafa þessa reglu að leiðarljósi í fleiru en hackey-sack.

Til að draga þetta saman eru reglurnar í hackey-sack sem sagt fjórar:

  1. Bannað er að nota hendur og handleggi.
  2. Ekki má einoka boltann.
  3. Ekki má bölva meðspilurum.
  4. Ekki á að afsaka sig.

Góð refsing við brotum á þessum reglum er að kasta boltanum í þann sem gerist brotlegur.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar