Sífellt fleiri stunda klifur bæði innan- og utanhúss og finnast ný klifursvæði á hverju sumri. Klifursvæði má nú finna í flestum landshlutum og er því nóg í boði fyrir ævintýragjarna adrenalínfíkla.

Útiklettaklifur krefst þess að aðstæður séu góðar til klifurs. Best er að klifra í klettum þegar þurrt er í veðri og ekki skemmir fyrir ef það er hlýtt líka. Flestir klettaklifrarar fara á stjá um páskana og eru að þar til fer að kólna aftur eftir sumarmánuðina.

Hvar byrja ég?

Best er að byrja á því að æfa sig á klifurvegg áður en farið er út að klifra í klettum.

Klifurveggir eru tilbúnir veggir með gripum fyrir hendur og fætur til að klifra á. Klifurveggir eru gerðir úr krossviðarplötum eða öðru sambærilegu efni. Á plötunum eru göt með skrúfgangi til að festa gripin á. 

Hvaða búnað þarf ég?

Fyrst og fremst klifurskó og kalk en það er misjafnt hvað þarf eftir því hvaða klifur þú vilt stunda.

Klifurskór eru hannaðir til að gera manni auðvelt fyrir að haldast á veggnum eða klettinum og því þrengri sem þeir eru því meiri stjórn hefur klifrarinn á því hvar hann stígur og hvernig. Þeir eru úr sérstöku gúmmíi sem hjálpar við grip. Þegar klifrað er úti er mikilvægt að klettarnir séu þurrir því annars verður gúmmíið mjög sleipt og þannig getur skapast slysahætta.

Kalkið er notað til að halda fingrunum þurrum og þar af leiðandi færðu betra grip. Stundum er sett smá kalk á skóna líka svo kalkið er mjög mikilvægt klettaklifrurum.

Fjallakofinn og Klifurhúsið bjóða upp á gott úrval af klifurskóm.

Klifurhúsið

Margir byrja sinn feril í Klifurhúsinu og eru margar klifurleiðir í boði. Aðal fókusinn er á grjótglímu sem er fullkomin leið til að stíga sín fyrstu skref í klifri. Einnig er þar að finna lítinn línuvegg þar sem hægt er að æfa undirstöðuatriði sportklifurs.

Klifurhúsið er rekið af Klifurfélagi Reykjavíkur sem hefur þann helsta tilgang að efla klifur á Íslandi. Ýmis námskeið eru í boði ásamt því að hægt er að mæta á eigin vegum. Hægt er að leigja klifurskó á litlar 500 kr. og er auðvitað kalk á svæðinu.

Verðskrá

Sportklifur

Sportklifurleiðir á Íslandi eru vanalega um 8 til 30 metrar og eru klifrararnir tryggðir með línu. Á sportklifursvæðum er búið að koma fyrir augum í klettunum til þess að tryggja klifrarana. Fyrir þá allra hörðustu er hægt að finna margra spanna klifurleiðir út í heimi sem geta náð allt að 1.000 metrum.

Það er nauðsynlegt að stíga fyrstu skrefin í klettaklifri með vönum leiðbeinenda eða sækja námskeið í sportklifi.

Grjótglíma

Grjótglímur er hægt að stunda bæði innan- og utanhúss. Oftast er klifrað í lágum klettabeltum eða steinum sem eru um 2 til 3 metrar á hæð. Þú ert ekki bundinn af því að vera með félaga til þess að stunda grjótglímu eins og í sportklifri. Það er samt sem áður þannig að þetta er sú grein klifurs þar sem félagsskapurinn er hvað mestur. Oft myndast mikil stemning meðal klifrara þegar margir koma saman við að leysa grjótglímuþrautir.

Til þess að stunda grjótglímu þarf aðeins klifurskó og kalkpoka. Þegar farið er út í náttúruna að klifra í klettum er samt einnig æskilegt að vera með dýnu meðferðis.

Dótaklifur

Dótaklifur er mjög svipað og sportklifur fyrir utan það að klifrarinn kemur tryggingunum fyrir sjálfur. Tryggingunum oftast komið fyrir í sprungum en það er mismunandi hvaða tegund er notuð eftir því hvernig sprungan er í laginu. Til þess eru notaðir spennikambar eða ,,vinir“, hnetur, hexur og annar svipaður búnaður.

Það er nauðsynlegt að stíga sín fyrstu skref í dótaklifri með vönum leiðbeinanda. Dótaklifur getur reynst afar hættulegt ef kunnátta klifrarans við að setja inn tryggingar og önnur línuvinna er ekki viðunandi.

Er hættulegt að stunda klifur?

Klifur er ekkert hættulegra en aðrar íþróttir svo lengi sem þú hefur réttan búnað, hugarfar og kunnáttu.

Klifursvæði

Það eru til ógrynni af leiðum fyrir klifurþyrsta og hefur Klifur.is tekið saman þau helstu.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar