Hvað þarf til að spila?

Það þarf nokkuð stórt grassvæði, góðan frisbí-disk (og kannski annan til vara) og 14 manns (það eru sjö í  hvoru liði).

Það eru til ýmsar reglur um stærð ultimate frisbee-valla en það sem er mikilvægast er að hafa miðju á vellinum og tvö endamörk.

Ef það er verið að spila opinberan leik í heimsmeistarakeppni, af einhverjum ástæðum, þá er opinber völlur 64 metrar á lengd og hvort endamark 24 metrar á lengd. Völlurinn er 37 metrar að breidd og svo eru tvö svokölluð „brick marks“ (sem er hægt að þýða sem múrpunkta) á miðju vallarins, 20 metrum frá hvoru endamarki.

Sagan:

Árið 1968 fór Joel nokkur Silver (sem er núna þekktur fyrir að framleiða kvikmyndir eins og Lethal Weapon, Die Hard og The Matrix) fyrir framan skólastjórn Columbia High School í New Jersey og stakk upp á því að skólinn myndi stofna frisbí lið. Næsta sumar fóru hann og nokkrir samnemendur hans að iðka það sem hann kallaði „the ultimate frisbee experience“ eða hina fullkomnu frisbí upplifun. Það er talið að Silver hafi lært leikinn í sumarbúðum hjá manni að nafni Jared Kass sem var sumarbúðarleiðbeinandi.

Hvernig á ég að spila?

Við byrjun leiks stillir varnarliðið sér upp í endamarki sínu. Sóknarliðið stillir sér upp á múrpunktinum sín megin (eða nokkrum skrefum frá endamarki sínu). Varnarliðið sendir svo frisbí-diskinn til sóknarliðsins sem þarf að grípa hann. Ef diskurinn fer út af í þessu byrjunarkasti má sóknarliðið annaðhvort spila honum þaðan sem hann fer út af eða spila honum frá múrpunktinum.

Sá leikmaður sem grípur frisbí-diskinn má ekki hreyfa sig áfram, afturábak eða til hliðar. Aftur á móti má snúa sér í hringi svo lengi sem öðrum – sama – fætinum er haldið við jörðina. Leikmaður hefur 10 sekúndur til þess að losa sig við frisbí-diskinn og þessar 10 sekúndur eru kallaðar upp af varnarliðinu. Ef sóknarmaðurinn nær ekki að losa sig við diskinn er töf og þá verður hann að sleppa disknum þar sem leikmaðurinn stóð. Það er bannað að rétta öðrum leikmanni diskinn, það verður að kasta honum.

Ef sóknarmaður kastar disknum og liðsfélagi hans missir diskinn í jörðina, varnarliðið slær diskinn í jörðina eða grípur diskinn þá breytist vörn í sókn. Ef, aftur á móti, sóknarmaður telur brotið á sér þá getur viðkomandi kallað villu og fær þá frisbí-diskinn þar sem brotið átti sér stað.

Sóknarliðið skorar með því að kasta frisbí-disknum til sóknarleikmanns sem er staðsettur í endamarki andstæðingsins. 1 stig er gefið fyrir hvert mark og eru leikir upp í 15. Þegar er skorað er gert eins og í byrjun leiks nema að liðið sem skoraði kastar disknum til liðsins sem var skorað á.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar