Hver kannast ekki við það að googla straujárn og drukkna síðar í auglýsingum tengdum straujárnum? Við hjá Áttavitanum þekkjum þetta vandamál og því skiptir löggjöfin okkur miklu máli. Á sínum tíma skrifuðum við grein um hvernig fela má stafræna slóð sína en vert er að taka fram að þeir töfrar duga einungis á því tæki sem notað er hverju sinni.

Af hverju skiptir þetta máli?

Þegar við notum internetið; Youtube, samfélagsmiðla, netvafra, öpp ofl. er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að persónuupplýsingum okkar sé safnað. Þetta eru upplýsingar um hverja þú ert að tala við, hvað þú ert að skoða og hvar þú ert staddur/stödd, miðað út frá GPS staðsetningu þinni. Flest fyrirtæki gera þetta í því skyni að upplifun notenda af vefnum verði betri. Í mörgum tilfellum eru þessar upplýsingar seldar áfram til annarra fyrirtækja, þannig geta samfélagsmiðlar sem dæmi boðið notendum sína „fría“ þjónustu.

Löggjöfinni er ætlað að setja fyrirtækjum og stofnunum sem sýsla með persónuupplýsingar notenda mun strangari skorður. Hún skilgreinir nákvæmlega hvað telst til persónuupplýsinga og nær til allra fyrirtækja í heiminum sem bjóða vörur eða þjónustu til Evrópubúa. Þetta er í raun evrópskt regluverk sem ákvarðar hvernig má vinna persónuupplýsingar notenda, hverjum má afhenda þær og hvernig eigi að varðveita þær.

Þetta eru umfangsmestu breytingar á persónuverndarlöggjöfinni í 20 ár.

Helstu breytingar

  • Fyrirtæki og stofnanir verða nú að hafa skýra heimild frá notendum um að það megi safna og nota persónuupplýsingar um þá.
  • Hafi einstaklingur ekki náð 16 ára aldri þarfnast samþykki foreldris eða umráðamanns.
  • Fyrirtæki verða að geta sýnt augljóslega fram á hvernig þau fylgja löggjöfinni.
  • Brjóti fyrirtæki lögin eða uppfylla ekki kröfurnar til fulls eru háar sektir í vændum.
  • Notendur fá aukin réttindi og geta afturkallað heimildina.
  • Notendur hafa rétt á því að fá afrit af þeim gögnum sem hefur verið safnað um þá.
  • Í einhverjum tilfellum geta notendur krafist þess að persónuupplýsingum þeirra sé eytt úr gagnasafni fyrirtækisins.

Löggjöfin kom til framkvæmda þann 25. maí 2018

Persónuvernd hefur útbúið fræðslubækling til einstaklinga sem nálgast má hér.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar