Hvernig er hægt að hafa samband?

Skátar eru einstaklega samskiptafúsir og þar af leiðandi er hægt að hafa samband við þá á alls kyns máta. Þeir skilja reykmerki og morse-kóða, kunna ýmis dulmál og lesa facebook-skilaboðin sín. Það er þó vafalaust auðveldast að hafa bara samband í síma 550-9800 eða með því að senda tölvupóst á skatar@skatar.is.

Hvað gera skátar?

Hefur þú sigið ofan í koldimman helli? Eða unnið friðarverkefni með jafnöldrum þínum frá Palestínu? Klifið upp ísvegg? Eytt helginni í að spila kleppara í skála uppi á heiði? Sungið á sviði fyrir framan 3.000 áhorfendur frá öllum heiminum? Ekki allir skátar hafa gert allt þetta, en flestir skátar hafa prófað eitthvað af þessu. Ef maður þyrfti að einskorða sig við eitt orð til þess að lýsa skátastarfi væri mögulega best að smella fram orðinu „ævintýri“. Skátastarf er nefnilega uppfullt af ævintýrum og svaðilförum. Svo væri orðið „áskorun“ líka nokkuð passlegt. Í skátastarfi er maður nefnilega alltaf að setja sér markmið og reyna á sjálfan sig. Og svo má ekki gleyma orðinu „skemmtilegt“, því að ef að skátastarf er ekki skemmtilegt, þá er það varla skátastarf!

Skátahreyfingin er alþjóðleg æskulýðshreyfing sem samanstendur af ríflega 40 milljón ungum og öldnum skátum sem allir deila sömu lífsgildunum. Skátarnir hafast ýmislegt að en yfirleitt fer starfið fram með vikulegum fundum, helgarferðum og stórmótum. Innan skátastarfs er hægt að vinna alls kyns verkefni og það fer eiginlega svolítið eftir skátanum sjálfum hvað hann eða hún er að bralla. Sumir skátar stunda mikla útivist, aðrir skátar vinna samfélagsverkefni, fara til útlanda, setja upp tjaldbúð, eða hvað sem þeim dettur í hug.

Leiðarljós skátahreyfingarinnar

Markmið skátahreyfingarinnar er að þroska börn og ungt fólk til að verða sjálfstæðir, virkir, hjálpsamir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu.

Markmið skátahreyfingarinnar

Bandalag íslenskra skáta hefur það að markmiði að stuðla að því að skátar:

  • sýni sjálfum sér, öðrum og umhverfinu virðingu
  • taki tillit til skoðana og tilfinninga annarra
  • geti fylgt trú sinni og sannfæringu, en geti einnig tekið gagnrýni
  • berjist gegn ranglæti og órétti, rétti öðrum hjálparhönd og leggi sitt af mörkum til betra samfélags
  • séu viljugir til þess að axla ábyrgð og ljúki þeim verkefnum sem þeir taka að sér
  • lifi lífinu af gleði og ánægju
  • hafi hugrekki til þess að láta drauma sína rætast og nýti þau tækifæri sem skapast
  • séu skapandi og sjálfstæðir í hugsun, orði og verki
  • geri ávallt sitt besta og hræðist ekki að gera mistök
  • séu traustir vinir og félagar
  • lifi heilbrigðu lífi
  • skilji og njóti eigin menningar og annarra
  • stuðli að friði, jafnrétti og bræðralagi manna á meðal.

Hvernig er hægt að taka þátt?

Skátastarfi er skipt eftir aldri. Dreka-, fálka- og dróttskátar eru skátar á aldrinum 7-15 ára, en skátar á aldrinum 16-18 kallast rekkaskátar og skátar á aldrinum 19-22 kallast róverskátar. Það geta allir orðið skátar, hvenær sem er á lífsleiðinni og viljir þú gerast skáti er um að gera að hafa samband við Skátamiðstöðina til þess að athuga hvaða möguleikar standa þér opnir. Nú, ef þú veist í hvaða skátafélag þú vilt ganga geturðu svo skráð þig beint hér.

Hjá skátum er hægt að…

  • sitja með skemmtilegu fólki við varðeld seint um kvöld með gítarinn í fanginu og sykurpúða á priki
  • síga niður háa klettaveggi, klífa upp ísveggi með mannbrodda og ísaxir að vopni, eða kanna niðdimma hraunhella
  • undirbúa sig vel fyrir þátttöku í björgunarsveit með því að læra um útivist, skyndihjálp og rötun
  • fara til útlanda á alls kyns námskeið og stórmót, kynnast fólki með margvíslegan menningarbakgrunn og vinna við aðrar samfélagsaðstæður
  • öðlast meiri leiðtogahæfni, þekkingu á viðburða- og verkefnastjórnun og sérhæfingu í hópastarfi
  • sofa undir berum himni, baða sig í heitum lækjum og upplifa náttúruna allan ársins hring
  • gera nokkurn veginn hvað sem þér dettur í hug, svo fremi sem það samræmist skátalögunum.

Bandalag íslenskra skáta

Skátamiðstöðinni
Hraunbæ 123
110 Reykjavík
Heimasíða: www.skatarnir.is/
Á Fésbókinni: www.facebook.com/skatarnir

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar