Uppspunnar fréttir hafa verið á milli tannanna á fólki undanfarna mánuði, enda góð ástæða til. Samfélagsmiðlar hafa stytt boðleiðir upplýsinga og aldrei fyrr hafa jafn margir haft jafnt greitt aðgengi að fjöldanum með jafn litlum tilkostnaði.

Nokkuð auðvelt er fyrir hvern sem er að skrifa hvað sem er og koma því í dreifingu og nóg er til af vefsíðum sem starfa með önnur og annarlegri markmið en að segja satt og rétt frá málefnum líðandi stundar. Auðvelt er að láta slíkar síður gabba sig þar sem þessir óprúttnu aðilar gera hvað þeir geta til að láta fölska fréttirnar líta út fyrir að vera sannar.

Þetta er grafalvarlegt mál þar sem upplognar fréttir geta valdið hræðslu í samfélaginu og þannig dregið úr lífsgæðum fólks. Falskar fréttir geta einnig ógnað öryggi þjóðfélagshópa, sérstaklega minnihlutahópa, ef þær beinast sérstaklega gegn þeim. Auk þess geta þær haft bein áhrif á hverjir komast til valda í lýðræðisríkjum en þeir frambjóðendur sem spila inn á hræðslu almennings njóta oftast góðs af ýkju- og lygasögum.

Hvernig kem ég auga á falskar fréttir?

Á ferðum þínum um veraldarvefinn er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  • Hver er uppruni fréttarinnar? Er þetta almennt viðurkenndur miðill eða er þetta fréttasíða sem starfar með ákveðin pólitísk markmið í huga?
  • Lestu meira en bara fyrirsögnina. Fyrirsagnir eru oft gerðar hneykslanlegri en tilefni er til svo fólk smelli frekar á hlekkinn.
  • Er fréttin um stórt mál sem ekki er fjallað um á öðrum miðlum? Prófaðu að fletta málinu upp og athugaðu hvað aðrir miðlar hafa að segja um það. Ef enginn annar er að fjalla um málið gæti vel verið um uppspuna að ræða.
  • Eru heimildir gefnar fyrir umfjölluninni, ef svo er skoðaðu þá heimildirnar og sjáðu hvort þær styðji raunverulega við fréttina.
  • Hver er höfundur greinarinnar? Greinar án höfundar vekja strax grunsemdir. Ef höfundar er getið, prófaðu að fletta honum upp á leitarvélum og athugaði hvort hann sé til og hvort hann sé trúverðugur.
  • Hver er dagsetning fréttarinnar? Það kemur reglulega fyrir að gamlar fréttir fara aftur í dreifingu á samfélagsmiðum sem getur valdið töluverðum ruglingi.
  • Er fréttin grín? Mikill fjöldi vefsíðna eru starfræktar sem ádeilur og almennt sprell, margar hverjar með misjöfnum árangri. Því getur verið erfitt að greina á milli gríns og alvöru.
  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar