Geðhrifapersónuleikaröskun eða histrionic personality disorder gerir yfirleitt vart við sig við byrjun fullorðinsára og talið er að rúmlega 2% fullorðinna einstaklinga hafi röskunina. Það getur farið mikið fyrir einstaklingum sem eru með geðhrifapersónuleikaröskunStöðugir árekstrar í samskiptum við aðra geta leitt til félagslegrar einangrunar og þunglyndis en margir geta þó staðið sig vel félagslega og í vinnu þrátt fyrir röskunina.

Helstu einkenni:

  • Sækjast stöðugt eftir samþykki annarra,
  • Beita ýktri hegðun til að verða miðpunktur athyglinnar,
  • Mjög mikil viðkvæmni fyrir gagnrýni,
  • Tregða til að breyta einhverju í eigin fari,
  • Ýkt geðbrigði,
  • Framkoma sem hefur kynferðislegt yfirbragð,
  • Að kenna öðrum um eigin mistök eða aðstöðu,
  • Hvatvísi.

Orsakir

Líkt og með aðrar persónuleikaraskanir er erfitt að benda á einhvern einn orsakavald. Gen geta verið sterkari áhrifavaldur eins og þekkist með aðrar persónuleikaraskanir en uppeldisaðstæður geta einnig haft áhrif, sér í lagi ef að viðkomandi hefur lent í alvarlegum áföllum sem barn og ekki náð að vinna úr þeim. Rannsóknir hafa sýnt fram á að einstaklingar sem þjást af geðhrifapersónuleikaröskun séu einnig líklegri en aðrir til að bera einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar.

Meðferð

Eins og áður sagði geta einstaklingar í flestum tilfellum staðið vel á eigin fótum þrátt fyrir röskunina. Hún er því nokkuð dulin og oft leitar fólk sér aðstoðar vegna annarra vandamála og kemst að því að það sé með geðhrifa persónuleikaröskun. Lyf eru ekki talin heppileg nema í þeim tilfellum þar sem einstaklingurinn hefur t.d. þróað með sér þunglyndi samhliða röskuninni. Viðtalstímar með sálfræðingi hafa reynst vel og það getur hjálpað einstaklingnum að átta sig á því sjálfur hvernig líf hans hefur mótast af röskuninni og hvaða úrbætur er hægt að gera.

Athugið að í þessari grein er stiklað á stóru um geðhrifa persónuleikaröskun. Mikilvægt er að hafa í huga að enginn á að þurfa að standa einn í bataferlinu.

Fyrsta skrefið gæti verið að tala um vandamál sín við náinn vin eða fjölskyldumeðlim. Á sal.is er hægt að fá lista yfir starfandi sálfræðinga á Íslandi þó listinn sé ekki tæmandi. Ef vandamálið er áríðandi er hægt að leita til bráðaþjónustu geðsviðs Landspítalans án þess að eiga pantaðan tíma, eða hringja í 112.

Heimildir:
Geðhjálp
Histrionic personality disorder
Psychology today

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar