Andfélagsleg persónuleikaröskun eða antisocial personality disorder er jafnan talin með alvarlegri persónuleikaröskunum, meðal annars vegna þess hversu illa hún getur komið niður á öðrum. Röskunin er þó misalvarleg og í versta falli eru einstaklingar með röskunina mun líklegri en aðrir til þess að misnota áfengi og vímuefni eða lenda í fangelsi.

Rannsakendum ber ekki saman um hversu algeng andfélagsleg persónuleikaröskun er en flestir eru sammála um að karlmenn séu líklegri en konur til að vera greindir með röskunina. Rannsókn á persónuleikaröskunum á höfuðborgarsvæðinu frá 2009 áætlar að um 1.5% einstaklinga séu haldin andfélagslegri persónuleikaröskun.

Andfélagsleg persónuleikaröskun einkennist af því að einstaklingurinn virðist samviskulaus, hugsar fyrst og fremst um sjálfan sig og tekur lítið tillit til annarra. Ekki er óalgengt að einstaklingurinn geti verið sjarmerandi á yfirborðinu en verði jafnframt snöggreiður, árásargjarn og óáreiðanlegur.

Helstu einkenni:

  • Að fylgja ekki lögum og reglum
  • Virða ekki réttindi annarra
  • Árásargirni og stuttur þráður
  • Óstöðugleiki í vinnu og félagslífi
  • Skortur á eftirsjá
  • Óáreiðanleiki
  • Hvatvísi
  • Svik og prettir

Orsakir

Líkt og með aðrar persónuleikaraskanir er erfitt að benda á eitthvað eitt sem orsakavald. Gen geta haft meiri áhrif en með aðrar persónuleikaraskanir. Uppeldisaðstæður eru einnig líklegur áhrifavaldur, sér í lagi ef einstaklingurinn ólst upp í ógnandi heimilisaðstæðum eða hefur orðið fyrir áföllum í æsku.

Meðferð

Meðferð getur verið erfið viðureignar, m.a vegna þess að einstaklingurinn gæti orðið tortrygginn gagnvart lækni. Gott meðferðarsamband og að meðferðin sé sérsniðin að þörfum einstaklingsins er lykilatriði í bættu lífi hans. Díalektísk atferlismeðferð (e. Dialetic behavior therapy) og skema meðferð (e. Schema therapy) hafa sýnt árangur í meðhöndlun á andfélagslegri persónuleikaröskun. Einstaklingnum gæti einnig verið ráðlagt að fara á lyf en það er mat læknis hverju sinni.

Athugið að í þessari grein er stiklað á stóru um aðsóknar persónuleikaröskun. Mikilvægt er að hafa í huga að enginn á að þurfa að standa einn í bataferlinu. Fyrsta skrefið gæti verið að tala um vandamál sín við náinn vin eða fjölskyldumeðlim. á sal.is er hægt að fá lista yfir starfandi sálfræðinga á Íslandi þó listinn sé ekki tæmandi. Ef vandamálið er áríðandi er hægt að leita til bráðaþjónustu geðsviðs Landspítalans án þess að eiga pantaðan tíma, eða hringja í 112.

Heimildir:
Læknablaðið
Antisocial personality disorder

Antisocial Personality Disorder: Treatment, Management and Prevention.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar