Hvernig er hægt að hjálpa ástvini sem stríðir við þunglyndi?
Fólk sem glímir við þunglyndi á það oft til að einangra sig frá umheiminum og draga verulega úr samskiptum við sína nánustu. Oftar en ekki upplifir það mikla höfnun og fordóma frá samfélaginu. Því getur hvatning og stuðningur frá þeim sem standa því næst skipt sköpum í að ná bata. Til að geta verið til staðar fyrir ástvin sem stríðir við þunglyndi, er samt nauðsynlegt að hugsa vel um sjálfan sig líka því þunglyndi einhvers sem er manni nákominn getur auðveldlega dregið úr manni þrótt.
Hvernig veit maður hvort einhver er þunglyndur?
Eins og aðrir sjúkdómar hefur þunglyndi ákveðin einkenni. Þau koma þó missterkt fram, sum eru greinileg en önnur ekki til staðar. Eftirfarandi einkenni geta bent til þunglyndis:
- Almennt áhugaleysi, s.s.varðandi vinnu, einkalíf, umheiminn og annað fólk.
- Almenn neikvæðni.
- Óútskýrð reiði, leiði, heift eða gagnrýni.
- Hjálparleysi, kvíði og depurð.
- Auknar kvartanir um líkamlega verki, s.s. í maga, höfði eða baki.
- Þreyta og kraftleysi.
- Minni samskipti við nána vini og fjölskyldu, félagsfælni eða lítill áhugi á félagslífi.
- Breytingar á svefnhegðun, ýmist meiri eða minni svefn en áður.
- Þyngdarbreytingar og breytingar á matarneyslu. Manneskjan léttist eða þyngist.
- Minnistruflanir og óregla.
- Breytingar á neyslu áfengis og lyfja.
Þunglyndi er alvarlegur sjúkdómur
Að sjálfsögðu leggst hann mis þungt á fólk en oftar en ekki má vinna bug á honum. Þunglyndi getur hrjáð fólk af báðum kynjum, á öllum aldri og í hvaða stöðu sem er. Ekki má vanmeta erfiðleikana. Sá sem er þunglyndur er sviptur drifkrafti og bjartsýni og er ófær um að sjá leiðir út úr ástandinu sjálfur. Það er því ekki hægt að ætlast til að hann „taki sig saman í andlitinu og hætti að láta svona“. Að þagga vandamálið niður kemur engum að gagni og nauðsynlegt er að horfast í augu við vandann líkt og þegar um önnur veikindi er að ræða. Þunglyndi er sjúkdómur, en ekki hegðunarvandamál sem fólk þarf að skammast sín fyrir.
Samskipti við þann þunglynda
Þegar ástvinur þjáist af þunglyndi er eðlilegt að maður upplifi margar erfiðar tilfinningar á borð við hjálparleysi, reiði, ótta, samviskubit, kvíða og depurð. Því er mikilvægt að sinna sjálfum sér vel, ekki síður en þeim sem glímir við þunglyndið. Varast skal að taka hegðun þess þunglynda persónulega: Fólk sem þjáist af þunglyndi gerir og segir gjarnan særandi hluti án þess að meina það neitt illa. Það eru veikindin sem valda þessari hegðun, meira en vilji eða skoðanir einstaklingsins. Gæta skal þess að sýna virðingu í allri framkomu og umfjöllun því oft er viðfangsefnið mjög viðkvæmt fyrir alla sem málið varða. Þótt ýmislegt sé hægt að gera til að auðvelda þeim sem þjást af þunglyndi lífið, er mikilsvert að muna að maður er ekki fær um að laga ástandið eða láta vandamálið hverfa. Maður ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á þunglyndi ástvinar síns og aðeins hann sjálfur er fær um að vinna í sínum bata.
Að takast á við þunglyndi
Oft getur verið vandasamt að velja orðin við þann sem þjáist af þunglyndi eða öðrum geðrænum kvillum. Viðkomandi er oftar en ekki ósamvinnufús, uppstökkur, neikvæður eða sýnir lítinn áhuga á að breyta ástandinu. Vissulega eru þó til aðferðir til að ræða málið og láta í ljós áhyggjur sínar, sem og að hjálpa viðkomandi að takast á við vandamálið.
Gott er að hafa eftirfarandi í huga
- Það skal ávallt sýna nærgætni. Þó er gott að vera sjálfum sér líkastur í allri framkomu, sýna stuðning og reyna að veita viðkomandi von um betri líðan.
- Varasamt skal að segja hluti á borð við að þetta sé allt bara ímyndun, að allir eigi sína slæmu daga og viðkomandi eigi bara að reyna að horfa á björtu hliðarnar.
- Mikilvægast er að sá sjúki finni að hann standi ekki einn og að hann öðlist trú um að ástandið muni batna. Honum verður að líða sem hann skipti máli og hafi einhvern sem hann getur leitað til.
- Hreyfing getur gert mikið gagn fyrir fólk sem þjáist af þunglyndi. Því getur verið gott að reyna að fá þann sem þjáist af þunglyndinu með sér í göngutúra og aðra hreyfingu.
- Þunglyndu fólki hættir stundum til að gleyma að borða. Því getur verið gott að sýna gott fordæmi með heilbrigðum matarvenjum.
- Mikilvægast af öllu er að virkja sjúklinginn í samskiptum, reyna að fá hann til að tjá sig og vera góður hlustandi. Þolinmæði getur þar skipt sköpum og vert er að muna að eitt gott samtal þýðir ekki að allt sé komið í lag.
- Að vinna sig út úr þunglyndi tekur tíma og oftar en ekki er nauðsynlegt fyrir þann veika að leita sér aðstoðar. Mikilvægt er að hvetja viðkomandi til þess að gera það og vera til staðar fyrir hann í öllu ferlinu.
Alvarlegt þunglyndi getur leitt til sjálfsvígs
Sýni viðkomandi að hann sé haldinn sjálfseyðingarhvöt eða minnkandi lífslöngun er gríðarlega mikilvægt að hann fái skjótt viðeigandi meðferð undir handleiðslu geðlæknis eða sálfræðings.
- Ef alvarleg sjálfsvígshætta er á ferðum er nauðsynlegt að bregðast hratt við. Ef um bráðatilfelli er að ræða má leita ráða í 1717 hjálparsíma Rauðakross Íslands, hjá Neyðarlínunni í síma 112 og einnig má hafa samband við geðdeild Landspítalans. Síminn á skiptiborði Landspítalans er 543-1000.
Á heimasíðu Landlæknis má nálgast frekari upplýsingar um þunglyndi, einkenni þess og meðferð.
Reynslusögur
Kamilla Borg Hjálmarsdóttir hefur unnið fræðslubækling um þunglyndi þar sem finna má frekari upplýsingar ásamt reynslusögum frá einstaklingum sem glíma við þunglyndi.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?