Próf geta verið mjög stressandi og þér gæti liðið eins og fátt annað skipti máli þegar prófatíðin skellur á. Það er skiljanlegt að námsmönnum standi ekki á sama enda eru próf jafnan veigamikill þáttur í lokaeinkunn. Þá er eðlilegt að finna fyrir spennu, hún getur verið hvetjandi til að leggja aukalega á sig og ná árangri. Það er hins vegar munur á spennu og kvíða en kvíðinn getur haft verulega neikvæð áhrif á líðan og námsárangur. Áttavitinn hefur tekið saman nokkur atriði sem geta hjálpað þér að átta þig á því hvort þú sért með prófkvíða og hvað þú getur gert til þess að líða betur og ná árangri.
Er ég með prófkvíða?
Mikilvægt er að átta sig á því að prófkvíði getur háð öllum og segir lítið um hver þú ert sem einstaklingur. Prófkvíði getur einnig komið og farið, það er því ekki þar með sagt að þó þú finnir fyrir prófkvíða núna að hann muni fylgja þér alla ævi. Einkenni prófkvíða geta verið margþætt, bjagaðar hugsanir og möguleg líkamleg einkenni.
Hugsanir einstaklinga með prófkvíða eru jafnan þeirra versti óvinur. Þær einkennast af niðurrifshugsunum og svartsýni þar sem jákvæð atvik eru virt að vettugi en neikvæð atvik eru blásin upp úr öllu valdi. Hugsanir geta verið á þann hátt að þú sért ekki nógu klár, að aðrir séu betri en þú og að þú munir falla á prófinu. Á sama tíma viðurkennir þú ekki eigin þátt í því góða sem kemur fyrir þig. Ef þú færð góða einkunn þá var það heppni eða þú finnur einhvern sem gekk betur en þér og berð þig saman við hann. Það er merki um bjagaðan hugsunarhátt sem hjálpar engum. Að breyta því er hægara sagt en gert en langt frá því að vera ógerlegt.
Líkamleg einkenni geta verið ör hjartsláttur, óþægindi í maga, vöðvaspenna, sviti, þreyta og svefntruflanir. Tilfinningar þínar á þessum tíma geta einkennst af ótta, hjálparleysi og vonbrigðum.
Mér líður eins og ég standi mig ekki eins vel og aðrir
Það þekkja allir vininn sem er handviss um að honum hafi gengið hörmulega á prófi en fær síðan frábæra einkunn. Það getur fengið hvern sem er til þess að efast um sjálfan sig en mundu að það hafa allir sína styrkleika og námsárangur er ekki allt. Það er ágætt að pæla bara í sjálfum sér, settu þér markmið sem henta sjálfum þér og kepptu við sjálfan þig.
Samfélagsmiðlar geta einnig gefið upp ranga mynd af árangri og dugnaði annarra. Það er skiljanlegt að maður efist um sjálfan sig þegar maður sér á samfélagsmiðlum hversu duglegir allir í kring um mann eru en það er mikilvægt að hafa í huga að ekki er allt sem sýnist. Ef þú finnur fyrir pressu vegna þess hvað vinir þínir virðast vera að gera getur hjálpað að:
- Taka smá pásu frá samfélagsmiðlum, sektarkennd mun ekki hjálpa neinum að standa sig betur í prófatíðinni.
- Hætta að bera sig saman við aðra, það hjálpar ekki heldur að vera í stöðugum samanburði. Notaðu orkuna frekar til þess að minna þig á það sem er gott í þínu fari.
- Fá hjálp frá vinum þínum. Það þarf enginn að skammast sín fyrir að þurfa smá aðstoð. Þar að auki eru góðar líkur að vinir þínir eru í sömu pælingum og séu til í að læra í sameiningu og hjálpast að.
Ég vil ekki bregðast foreldrum mínum
Sumir finna fyrir pressu frá foreldrum sínum til að standa sig í náminu. Það er ekkert óeðlilegt, foreldrar vilja börnum sínum allt hið besta og yfirleitt býr kærleikur að baki. Foreldrar átta sig einnig oft ekki á því hversu mikla pressu þeir eru að setja á börnin sín. Það þýðir þó ekki að þú þurfir að þegja þunnu hljóði. Það getur verið gott að hreinsa loftið og ræða við foreldra þína ef þér finnst þeir setja of mikla pressu á þig. Ef þér finnst að þú þurfir að eiga það samtal við foreldra þína er gott að hafa eftirfarandi í huga:
- Veldu tíma þegar það liggur vel á þér og foreldrum þínum og þið hafið tíma til að ræða málið. Forðastu að hefja umræðuna út frá rifrildi.
- Útskýrðu fyrir foreldrum þínum hvernig þér líður. Foreldrar þínir eru frekar til í að vita hvernig þér líður en að þú birgir það innra með þér.
- Segðu þeim hvað þú ert að hugsa. Ef þú telur að það sé betra fyrir þig að taka prófið síðar svo þú getir einbeitt þér betur að öðrum fögum, segðu þeim frá því.
Ég set of mikla pressu á sjálfa/n mig
Það eru margir námsmenn sem kannast við þetta. Það er ekkert að því að vera dugleg/ur en það er mikilvægt að berja sig ekki niður ef það fer ekki allt eftir áætlun. Ef þú ert að leggja of hart að þér er gott að hafa eftirfarandi í huga:
- Meiri vinna skilar ekki alltaf betri útkomu. Það að taka reglulega pásur skilar sér í því að heilinn vinnur betur, minni þreyta og betri afköst. Það getur verið gott að breyta um umhverfi, koma sér frá tölvunni og jafnvel anda að sér frísku lofti.
- Verðlaunaðu sjálfan þig. Ef þú hefur lagt mikið á þig, gefðu sjálfum þér verðlaun. Það þarf ekki að vera mikið, bara „gulrót“ sem hjálpar þér að halda dampi þegar reynir á.
- Vertu með vara plan. Ef það fer ekki allt eins og þú vildir þá er það ekki heimsendir. Endurtektarpróf eru oft í boði og í versta falli getur þú tekið áfangann síðar. Það geta einnig komið upp ófyrirséð vandamál. Forðastu að taka ábyrgð á einhverju sem þú hefur enga stjórn á, hvernig þú bregst við er það sem skiptir máli.
Ef þig grunar að prófkvíði hafi áhrif á líðan og námsframvindu þína eða þig langar til þess að bæta þig í námi er gott að kíkja til námsráðgjafa. Prófkvíðanámskeið eru reglulega haldin í stærri skólum og það borgar sig að athuga hjá námsráðgjafa með fyrirvara hvort það sé námskeið á næstunni. Í sumum tilfellum getur verið gott að tala við sálfræðing, sérstaklega ef kvíðinn er ekki einungis bundinn við próf heldur einnig aðra þætti lífsins.
Heimildir:
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?