Aðsóknar persónuleikaröskun eða paranoid personality disorder getur verið flókin og erfið viðureignar. Talið er að allt frá 0,4% – 1,8% einstaklinga séu með aðsóknar persónuleikaröskun á heimsvísu en á Íslandi er hlutfallið hærra eða um 4.8%. Persónuleikaröskunin gerir yfirleitt vart við sig um og eftir táningsárin.
Aðsóknar persónuleikaröskun einkennist af tilhneigingunni til að líta svo á að hegðun annara sé ógnandi eða lítillækkandi. Einstaklingurinn er tortrygginn og á í erfiðleikum með að viðurkenna neikvæðar tilfinningar sínar gagnvart öðrum. Hann gæti jafnframt misskilið samskipti sín við aðra og verið óeðlilega langrækinn.
Eftirfarandi einkenni eru þau helstu sem þurfa að vera til staðar fyrir greiningu á aðsóknar persónuleikaröskun.
- Grunur um að aðrir vilji blekkja, nota sig eða vilji sér illt.
- Efi um heiðarleika og tryggð þeirra sem einstaklingurinn er í samskiptum við.
- Félagsleg einangrun.
- Að trúa ekki öðrum fyrir hugmyndum sínum af af ótta við að hægt sé að nota þær gegn sér.
- Gremja og langrækni gagnvart öðrum.
- Rangtúlkanir á hegðun og orðum annarra sem geta leitt til þess að einstaklingurinn bregst við með gagnárás og reiði.
- Stöðugur ótti um að maki haldi framhjá sér án þess að hafa eitthvað fyrir sér í því.
Orsakir
Það er ekki hægt að benda á eitthvað einn orsakavald. Gen gætu spilað hlutverk þar sem aðsóknar persónulekaröskun virðist vera algengari í fjölskyldum sem hafa sögu af andlegum sjúkdómum. Uppeldisaðstæður gætu einnig haft áhrif, sér í lagi ef einstaklingurinn hefur alist upp í ógnandi heimilisaðstæðum.
Meðferð
Meðferð er oft erfið viðureignar, m.a vegna þess að einstaklingurinn gæti orðið tortrygginn gagnvart lækni. Gott meðferðarsamband og að meðferðin sé sérsniðin að þörfum einstaklingsins er lykilatriði í bættu lífi hans. Díalektísk atferlismeðferð (DBT) og skema meðferð (schema-therapy) hafa sýnt árangur í meðhöndlun á aðsóknar persónuleikaröskun. Einstaklingnum gæti einnig verið ráðlagt að fara á lyf en það er mat læknis hverju sinni.
Athugið að í þessari grein er stiklað á stóru um aðsóknar persónuleikaröskun. Mikilvægt er að hafa í huga að enginn á að þurfa að standa einn í bataferlinu. Fyrsta skrefið gæti verið að tala um vandamál sín við náinn vin eða fjölskyldumeðlim. á sal.is er hægt að fá lista yfir starfandi sálfræðinga á Íslandi þó listinn sé ekki tæmandi. Ef vandamálið er áríðandi er hægt að leita til bráðaþjónustu geðsviðs Landspítalans án þess að eiga pantaðan tíma, eða hringja í 112.
Heimildir:
DSM-IV personality disorders in the National Comorbidity Survey Replication
Læknablaðið
Psychology Today
Doktor.is
https://skemman.is/handle/1946/21957
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?