Flest höfum við einhvern tíma pissað undir í svefni, það er vandamál sem einkennir yfirleitt yngri börn. Vandamálið einskorðast þó ekki við börn. Að pissa undir, einnig þekkt sem undirmiga eða næturvæta er talið hrjá u.þ.b. 3% unglinga og getur fylgt einstaklingum fram á þrítugsaldurinn.

Hvað veldur?

  • Hægðatregða: Ef þarmarnir eru yfirfullir geta þeir myndað þrýsting á þvagblöðruna og leitt til slysa.
  • Ofvirk þvagblaðra: Ef þú ert sífellt á klósettinu, jafnvel oftar en átta sinnum á dag og pissar reglulega undir í svefni gæti þetta verið orsökin.
  • Lágt vasopressin: Stutta útgáfan er sú að Vasopressin er hormón sem sendir merki til nýrnanna um að hægja á þvagframleiðslu á nóttunni. Það gæti verið þess virði að athuga það.
  • Þvagfærasýking: Eitt af mörgum einkennum þvagfærasýkingar eru að hafa ekki fullkomna stjórn á þvagláti.
  • Þú vaknar ekki þegar þú þarft á klósettið: Líkami þinn einfaldlega vaknar ekki þegar þér er orðið mál.

Hvað er hægt að gera?

Einhverjum gæti þótt vandræðalegt að leita sér aðstoðar vegna þessa en þá er gott að hafa í huga að þú ert alls ekki ein/n með þetta vandamál.

Fyrsta skref er að panta tíma hjá lækni, hann hjálpar þér að komast að því hvað veldur vandamálinu og hvernig er hægt að taka á því

Það gæti verið í formi lyfjagjafar enda geta hormónar og önnur líkamleg starfsemi haft áhrif. Þú gætir í millitíðinni prófað að stilla vekjaraklukku að nóttu til og farið á klósettið til þess að tæma þvagblöðruna.

Hvernig segi ég öðrum frá?

Að segja einhverjum frá því að þú pissar undir gæti hljómað eins og mjög vandræðalegt samtal en svo þarf ekki að vera, í raun getur það hjálpað verulega. Athugaðu að við erum ekki að ráðleggja þér að segja öllum frá.

þú verður að finna hjá þér hvort þú viljir tala um það og hverjum þú treystir til að hlusta á þig.

Hér eru nokkur atriði sem geta hjálpað þér, viljir þú segja einhverjum frá:

  • Hugsaðu um hverju þú vilt koma frá þér.
  • Skrifaðu það niður og virtu það fyrir þér.
  • Hugsaðu um hvenær, í hvaða aðstæðum þú vilt segja viðkomandi frá.
  • Vertu viðbúin/n að samtalið gæti komið flatt upp á viðkomandi og að hann gæti brugðist öðruvísi við í fyrstu en þú vonaðir. Það lagast með tímanum.
  • Það gæti hjálpað að vera búin/n að tala við lækni, þá getur þú útskýrt betur fyrir viðkomandi hvað er að hrjá þig.

Einnig er hægt að leita sér að umræðuvettvangi á internetinu, þar getur þú í nafnleysi spjallað við aðra í sömu sporum eða bara fylgst með líði þér betur með það. Hafðu í huga að hver sem er getur sagt hvað sem er á netinu og því ættir þú fyrst og fremst að hlusta á ráðleggingar læknis. Að lokum, mundu að þú ert alls ekki ein/n, að pissa undir á unglingsaldri er mun algengara en fólki grunar. Engin/n er fullkomin/n og það er óþarfi að láta vandamálin stjórna lífi okkar, svona er lífið.

Heimildir:

TheMix
TheMix
Persona.is

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar