Hvaða breytingar eiga sér stað hjá móðurinni á fyrstu stigum meðgöngu?
Móðirin verður vör við miklar breytingar á fyrstu þremur mánuðunum og byrja þær strax á fyrstu vikunum. Brjóstin stækka og verða viðkvæm, mjólkurkirtlarnir þroskast og broddurinn myndast. Hægt og rólega stækkar maginn og buxnastrengurinn þrengist. Þetta gerist aðallega vegna þess að legvatn er að myndast. Líffærin fara að minnka svo að pláss verði fyrir barnið: t.a.m. minnkar þvagblaðran og því verða þvaglát tíðari. Vegna hormónaáhrifa getur konan fundið fyrir mikilli ógleði, uppköstum og ofsaþreytu. Lyktarskyn og bragðskyn eykst oft og konur geta fengið blóðnasir og munnangur af litlu tilefni. Líðan konunnar þessa þrjá mánuði er auðvitað misjöfn eftir einstaklingum, en þessi tími getur reynst mörgum konum erfiður.
Hvernig þroskast fóstrið?
Á þessu fyrsta tímabili þroskast fóstrið hratt og tekur örum breytingum. Á aðeins tólf vikum þroskast það úr því að vera einfaldur frumuklasi yfir í fullmótað fóstur. Öll líffæri myndast á þessum tólf vikum, t.a.m. er hjartað byrjað að slá á fjórðu viku meðgöngu.
- Á síðunni Doktor.is má sjá hvernig fóstrið þroskast og dafnar frá viku til viku.
Hverju þarf að huga að á fyrsta hluta meðgöngu?
Margt þarf að hafa í huga á fyrsta hluta meðgöngu. Hér að neðan má nálgast gátlista og hlekki sem ættu að auðvelda tilvonandi foreldrum að hafa sýn yfir það sem þarf að gera áður en barnið kemur í heiminn.
Á 1. mánuði . . .
- Þá þarf að fá óléttuna staðfesta með læknisskoðun. Það gerir konan hjá kvensjúkdómalækninum sínum.
- Það er best er að segja makanum fréttirnar sem fyrst. Þannig getur parið stutt hvort annað í gegnum ferlið og búið í haginn fyrir næstu mánuði.
- Þá er gott að verða sér úti um upplýsingar um það sem gerist á næstu viku og mánuðum. Á síðunni Doktor.is má sjá þroska barnsins og þær breytingar sem verða á konunni viku fyrir viku.
- Á síðunni Ljósmóðir.is má finna gagnlega grein um einkenni á fyrstu vikum meðgöngu.
- Það æskilegt að móðir byrji að taka Fólín-sýru (e. folic acid) eins fljótt og auðið er sem og önnur bætiefni ef þess þarf (s.s. omega 3, járn og d-vítamín). Í apótekum má nálgast fjölvítamín sérstaklega ætluð barnshafandi konum.
- Tilvonandi mæður þurfa að hætta að reykja, hætta allri áfengisdrykkju og helst minnka kaffidrykkju eins fljótt og auðið er. Á heimasíðu heilsugæslunnar má finna ýmsa gagnlega bæklinga, s.s. um koffín, notkun lyfja, reykingar og neyslu áfengis á meðgöngu.
- Fyrsta skoðun hjá ljósmóður (Mæðravernd) fer fram á 12. viku meðgöngunnar.
- Eins þarf að huga að mataræðinu. Fjölbreytt og hollt mataræði er nauðsynlegt, bæði fyrir þroska fóstursins og almenna vellíðan hjá móður.
- Á meðgöngu er æskilegt að konur sneyði hjá öllum hráum mat, s.s. sushi og öðrum hráum eða gröfnum fisk, óelduðu kjöti og hráum eggjum (en slíkt er stundum notað í krem á kökum).
- Sniðugt er að skrá sig á póstlista BabyCenter. Síðan heldur úti stórum og góðum gagnagrunni á ensku um allt sem viðkemur meðgöngunni. Vikulega er sent út upplýsingabréf þar sem farið er yfir þroska fóstursins, breytingar hjá móður og ýmis góð ráð gefin.
Á 2. mánuði . . .
- Þá þarf að huga vel að mataræði: borða fjölbreytta, holla og næringarríka fæðu. Á heimasíðu heilsugæslunnar má nálgast bækling um mataræði á meðgöngu.
- Það er gott að byrja að gera Kegel-æfingar, eða grindarbotnsæfingar, fljótlega á meðgöngunni til að styrkja grindarbotninn. Þetta kemur sér vel í fæðingunni – sem og eftir hana.
- Hægt er að gera ákveðnar ráðstafanir til að minnka morgunógleði, ef hún er til staðar. Á heimasíðu heilsugæslunnar má finna góð ráð.
- Fólk getur farið í snemmasónar, kjósi það að gera svo. Slíkar ómskoðanir eru framkvæmdar á 6 til 12 viku. Hægt er að panta snemmsónar í gegnum kvennadeild Landspítalans í síma 543-3256.
Á 3. mánuði . . .
- Þá fer móðirin í fyrstu heimsókn til ljósmóður, en það er gert á 12. viku. Gott er að spyrja hvaða prufur og rannsóknir þarf að gera á næstu vikum og mánuðum. Frekari upplýsingar má nálgast í greininni „Mæðravernd“ hér á Áttavitanum.
- Á þessu tímabili gæti reynst nauðsynlegt að kaupa nýja og stærri brjóstahaldara.
- Fyrsta eiginlega ómskoðun er framkvæmd á 3. mánuði, en hún er oft kölluð 11 til 14 vikna sónar. Frekari upplýsingar má nálgast í greininni „Sónar“ hér á Áttavitanum.
- Einnig er gott að kynna sér við hverju megi búast í þessum ómskoðunum og rannsóknum, s.s. litningagöllum eða fréttum af tvíburum. Þannig getur fólk auðveldar brugðist við erfiðum og óvæntum fréttum.
- Gott er að hreyfa sig reglulega. Það getur aukið á vellíðan móður. Frekari upplýsingar um líkamsrækt á meðgöngu má nálgast á heimasíðu heilsugæslunnar.
- Snjallræði er að kaupa sér rakakrem eða olíu til að bera á húðina sem nú er farin að teygjast. Mögulega kemur það í veg fyrir slit – en einnig minnkar það kláða og önnur óþægindi í húðinni.
Á kynfræðsluvef Námsgagnastofnunar má sjá myndband um frjóvgun og meðgöngu.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?