Að fara í fóstureyðingu (þungunarrof)

Konur og kvár geta af ýmsum ástæðum ákveðið að fara í þungunarrof og má þar nefna:

  • Líkamlegri eða andlegri heilsu er stefnt í voða vegna þungunarinnar.
  • Hætta er á alvarlegum erfðagöllum eða fósturskaða.
  • Félagslegar aðstæður eru þannig að foreldrar/foreldri sér ekki fyrir sér að geta sinnt barninu nægilega vel.
  • Að kona/kvár geti ekki hugsað sér að eiga barn.
  • Tímasetning þungunarinnar er ekki heppileg.
  • Nauðgun.

Augljóslega er besta leiðin til þess að koma í veg fyrir þungun getnaðarvarnir (s.s. smokkur, pillan, hringurinn, stautinn, sprauta eða lykkja). Hins vegar geta getnaðarvarnirnar gleymst í hita leiksins, eða klikkað og sumar konur/kvár einfaldlega verið svo ofurfrjó að ekkert má út af bera. Það getur því verið nauðsynlegt að rjúfa þungunina með þungunarrofi.

Það er engin skömm að því að fara í þungunarrof

Orðið fóstureyðing er mjög gildishlaðið orð og því fylgir oft neikvæð umræða. Því kjósum við orðið þungunarrof sem lýsir því betur sem á sér stað.  Það er engin skömm í því að gangast undir þungunarrof, heldur ber það vott um ábyrgðarkennd.

Að taka ákvörðun um að gangast undir þungunarrof

Stundum getur þetta verið erfið ákvörðun en stundum liggur þungunarrof beint við. Mikilvægt er að hafa í huga að ákvörðunin liggur alfarið hjá þeim sem ber barnið. Aðstæður geta verið þannig að foreldrar eða aðrir nákomnir séu mjög andvígir þungunarrofi eða þrýsti á einstaklinginn að láta rjúfa þungunina. Mikilvægt er að ákvörðunin sé tekin á eigin forsendum. Það er hægt er að hafa samband við félagsráðgjafa kvennadeildar Landspítalans og bóka viðtalstíma (val ekki skylda). Þar er hægt að fá upplýsingar um ferlið og góð ráð um ákvörðunartökuna. Þó svo að viðtalstími sé bókaður þýðir það ekki að ákvörðun hafi verið tekin um að gangast undir þungunarrof. Hinsvegar er ekki hægt að taka sér mjög langan tíma til umhugsunar því best og öruggast er að framkvæma þungunarrofið þegar sem skemmst er liðið á meðgöngu.

Síminn hjá kvennadeild Landspítalans er 543-3600.

Hvar er gengist undir þungunarrof?

Meg­inþorri allra fóst­ur­eyðinga á land­inu er fram­kvæmd­ur á kvenna­deild Land­spít­al­ans. Til að panta tíma eða fá frekari upplýsingar er best að hringja í kvennadeild Landspítalans í síma 543-3600.  Einnig er hægt að gangast undir þungunarrof á Akureyri og á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.  Heilsugæslan þín hefur vafalaust upplýsingar um þann stað sem er þér næstur.

Hvernig eru þungunarrof framkvæmt?

Í nú­gild­andi lög­um um þungunarrof nr. 43/2019 er kveðið á um að þungunarrof skuli fram­kvæmt sem fyrst á meðgöngu­tím­an­um, helst inn­an 12 vikna meðgöngu. Einnig að sjálfsforræði kvenna/kvára sé tryggt sem óska eftir því að binda enda á þungun fram að lokun 22. viku óháð því hvaða ástæður liggja að baki. Eftir lok 22. viku þungunar er einungis heimilt að framkvæma þungunarrof ef lífi þungaðrar konu/kvárs er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar.

Mikil breyting hefur orðið á greiningu þungunar með almennri notkun ómskoðana. Tímasetning í þungun er örugg. Í stað skurðaðgerða (útsogs/útskafs) eru í meirihluta þungunarrofa notuð lyf til að koma af stað ferli sem líkist náttúrulegu fósturláti.

Þungunarrof með lyfjagjöf

Teknar eru inn sértilgerðar töflur, sem framkalla fæðingu. Tveimur dögum síðar þarf að fara á kvennadeildina þar sem sömu lyf eru sett upp í leggöng. Þetta framkallar fósturlát. Þessi aðferð hefur þá kosti að það þarf ekki að fara í svæfingu. Gallarnir eru hinsvegar þeir að þessu fylgja töluverðir líkamlegir verkir og aðferðin er ekki eins áreiðanleg.

Útskaf

Aðgerðin er framkvæmd í svæfingu og fóstrið fjarlægt með svokölluðu útskafi. Aðgerðin er gerð að morgni og er farið heim eftir hádegi. Í flestum tilfellum fylgja þessu litlir sem engir líkamlegir verkir.

Hvað kostar að gangast undir þungunarrof?

Ekki þarf að greiða fyrir meðferðina samkvæmt lögum.

Þarf samþykki annarra til að gangast undir þungunarrof?

Stúlkur/stálp sem eru 16 ára geta gengist undir þungunarrof án vitneskju foreldra eða forráðamanna. Stúlkur/stálp undir 16 ára aldri verða að hafa foreldra eða forráðamenn með í ráðum nema aðstæður mæli sérstaklega gegn því.

Er hættulegt að gangast undir þungunarrof?

Það felst alltaf ákveðin áhætta að fara í aðgerð sem krefst svæfingar. Hinsvegar er lítil áhætta fólgin í þessari aðgerð þar sem hún telst ekki mjög áhættusöm og er hættuminni ef hún er framkvæmd snemma. Helstu hætturnar eru sýking eftir aðgerðina (kemur fyrir í 1% tilfella) og ófrjósemi (gerist í 0,1% tilfella).

Heimildir og ítarefni:

Læknablaðið
Mbl.is
Stjórnarráð Íslands

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar