Hvað er faðernispróf?

Faðernispróf er DNA rannsókn sem staðfestir hvort einstaklingar séu líffræðilega skyldir eða ekki.   Niðurstaðan er yfirleitt 0% eða 99% líkur á að einstaklingarnir tveir séu náskyldir, það er faðir og barn.

Hvernig fer faðernispróf fram?

Í faðernisprófi er tekið DNA-sýni, blóð eða munnvatnssýni, úr barni og föður og DNA-ið borið saman.  Algengast er að blóð sé tekið úr naflastreng barns við fæðingu ef að prófið fer fram á Íslandi.  Einnig er hægt að taka fósturpróf frá og með 9. viku meðgöngu, en það er mikið dýrara og ekki hægt á Íslandi.  Að auki er hægt að taka heilsystkinapróf, hálfsystkinapróf, tvíburapróf og próf til að kanna hvort viðkomandi sé afi eða amma barns.

Hvað kostar erfðapróf?

Stutta svarið er: Erfðapróf framkvæmt á Íslandi kostar 200 þúsund og erlendis á bilinu 25 – 40 þúsund.  Talsverður munur er því á því  að láta faðernispróf fara fram á Íslandi eða senda sýni út.

Ef að prófið er framkvæmt á Íslandi kostar það um 200.000 krónur.  Það getur verið nauðsynlegt að framkvæma prófið á Íslandi í þeim tilfellum þar sem karlmaður neitar að fara í faðernispróf og móðir barnsins þarf að krefjast þess hjá sýslumanni.  Reynist viðkomandi faðirinn þarf hann að borga brúsann, en ef ekki þá borgar ríkið.  Þetta ferli getur tekið marga mánuði.

Hins vegar er einnig hægt að kaupa erfðapróf frá erlendum rannsóknarfyrirtækjum, en þá þurfa hlutaðeigandi aðilar að vera sátt um að nýta sér það.  Slík rannsókn kostar aðeins brot af íslenskri rannsókn, eða um 25-40.000 kr.  Þá kaupir viðkomandi prófið á netinu, fær senda bómullarpinna til að taka munnvatnssýni úr barni og meintum föður.  Niðurstöður berast svo innan 8 daga frá því að fyrirtækið fær sýnið í hendurnar. Forstöðumaður faðernisrannsókna á Landspítalanum staðfestir að óhætt sé að treysta slíkum erfðaprófum ef fyrirtækin sem selja þau eru með gæðavottun.

Athugið að faðernispróf á meðgöngu er mun dýrara og það er ekki hægt að gera á Íslandi (en t.d. hægt á Norðurlöndunum).

Hvað gerist ef meintur faðir vill ekki gangast við barninu?

Það er réttur barnsins að vita faðerni sitt (nema í ákveðnum tilfellum gjafasæðinga og ættleiðingu).  Meintur faðir getur því ekki neitað að mæta í sýnatöku, þó það dragi ferlið óneitanlega á langinn.  Ef að faðirinn neitar að mæta þarf móðirin að fara til sýslumanns og sækja um að barnið sé feðrað og í kjölfarið til lögfræðings og höfðar faðernismál.  Faðirinn er þá kvaðinn í sýnatöku.  Ef hann neitar kemur löggan einfaldlega og sækir hann.  Ef hann er í raun faðirinn og það staðfestist með erfðaprófi þarf hann að greiða prófið og gangast við barninu, sem þýðir að hann þarf að taka þátt í uppeldi þess, í það minnsta fjárhagslega með því að greiða meðlag.

Hver er réttur foreldranna og barnsins?

Samkvæmt barnalögum hefur barnið rétt á því að þekkja báða foreldra sína.

  • Eiginmaður móður barns telst faðir þess ef það er alið í hjúskap þeirra.
  • Feðra þarf barn innan 6 mánaða frá fæðingu þess.
  • Ef að barnið hefur ekki verið feðrað getur hugsanlegur faðir barnsins farið fram á erfðapróf.

Hvar fæ ég nánari upplýsingar um faðernismál?

Það er erfitt að standa í faðernismálum og hafa félagsráðgjafar kvennadeildar Landspítala sérhæft sig í stuðningi við þær konur sem eiga í vanda vegna faðernismála, t.d. varðandi snemmsónar (til að sjá áætlaða tímasetningu getnaðar sem fyrst)og beiðnium faðrenispróf hjá sýslumanni.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar