Hvað er fósturlát?
Fósturlát nefnist það þegar fóstur deyr á meðgöngu. Algengast er að fósturlát verði á fyrstu 12 vikum meðgöngu – oft kallað snemmbúið fósturlát. Fósturlát geta þó einnig komið fram síðar, á 12.-22. viku meðgöngu. Gerist það á 23. viku eða síðar er hinsvegar talað um andvana fæðingu.
Hvað veldur fósturláti?
Fósturlát verða yfirleitt vegna galla í fóstri eða fylgjuvef. Þau geta komið til vegna sjúkdóma móður. Fjöldinn allur af upplýsingum liggur fyrir um hvernig best sé að haga lífsstíl sínum á meðgöngu og mikilvægt að fara eftir slíkum leiðbeiningum. Flest fósturlát er þó ekki hægt að rekja beint til einhvers sem móðirin gerði eða gerði ekki á meðan á meðgöngu stóð.
Hversu algeng eru fósturlát?
Fósturlát eru nokkuð algeng. Talið er að á bilinu 10-20% allra staðfestra þungana endi með fósturláti. Talan er þó í raun hærri, því stundum verður fósturlát það snemma á meðgöngunni að konan gerði sér ekki grein fyrir því að hún hafi verið ófrísk. Talið er að þriðja hver kona lendi í því að missa fóstur að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni. Áhættan eykst eftir því sem konur eldast.
Hver eru einkenni fósturláts?
Stundum eru einkennin augljós, eins og blæðing og samdráttarverkir. Stundum eru einkennin hinsvegar lítil eða engin og fósturlátið uppgötvast ekki fyrr en í ómskoðun hjá lækni. Það er oft kallað dulið fósturlát.
Hvað þarf að gera ef fóstur deyr?
Ef upp kemst að fóstur sé dáið þarf að leita til læknis. Yfirleitt eru konur sendar í útskaf, sem er samskonar aðgerð og þegar framkölluð er fóstureyðing. Stundum þegar meðganga er mjög stutt á veg komin er reynt að framkalla fósturlát með lyfjagjöf, en yfirleitt eru konur frekar sendar í aðgerðina þar sem hún hefur gefið betri raun.
Hvernig fer aðgerðin fram?
Konan er svæfð og legið er tæmt á meðan. Aðgerðin sjálf tekur stuttan tíma, aðeins um 10 mínútur. Konan fer síðan á vöknun og fær tíma til að jafna sig eftir svæfinguna. Aðgerðin á ekki að hafa í för með sér mikil líkamleg óþægindi.
Hvað þarf að hafa í huga fyrir aðgerðina?
Þar sem aðgerðin er framkvæmd í svæfingu er mikilvægt að hafa baðað sig kvöldið áður. Hvorki má borða né reykja frá miðnætti kvöldi fyrir aðgerðina. Hjá kvennadeild Landspítalans má nálgast frekari upplýsingar um aðgerðina og undirbúninginn í síma 543-3600.
Hvað þarf að hafa í huga eftir aðgerðina?
Gott er að biðja einhvern að sækja sig á spítalann þar sem ekki er ráðlegt að aka bíl daginn sem svæfing fer fram. Gangi allt vel er konan fljót að jafna sig líkamlega. Stundum geta konur þó fengið smávægilega verki. Sálrænu áhrifin eru oft erfiðari. Því er mikilvægt að hafa stuðning frá einhverjum sem maður treystir og getur talað við. Skynsamlegt er að taka sér veikindafrí frá vinnu í 1-2 daga eftir aðgerðina.
Hver eru andleg áhrif fósturláts?
Andlegu áhrifin geta verið mjög misjöfn og engin líðan er eitthvað réttari en önnur. Upplifunin fer ekki endilega eftir lengd meðgöngunnar eða því hvort konan eigi önnur börn fyrir. Sumar konur upplifa mikla sorg og missi, á meðan upplifunin snertir aðrar konur minna. Samviskubit og sjálfsásökun eru þó algengar tilfinningar. Oft koma áhrifin fram löngu eftir að fósturlátið á sér stað. Það geta jafnvel liðið mörg ár. Meðferð hjá sálfræðingi hefur gert mörgum konum gagn við að vinna úr reynslunni.
Hver eru áhrif fósturláts á verðandi feður?
Að upplifa lát tilvonandi barns síns getur haft alveg jafn mikil áhrif á feður og á mæður. Oft upplifa þeir mikla sorg, en hljóta minni skilning og stuðning frá umhverfinu. Umræðan um fósturlát hefur ekki verið mikil í samfélaginu og því eiga margir erfitt með að tjá sig um reynsluna og vinna úr tilfinningunum.
Hvar getur fólk leitað sér aðstoðar?
Á sama hátt og þegar fólk verður fyrir annarskonar tilfinningalega erfiðri lífsreynslu getur verið gott að ræða við fagaðila. Einnig hafa verið stofnuð samtökin Litlir englar sem ætluð eru til að styðja við foreldra sem misst hafa börn sín, annað hvort á meðgöngu eða stuttu eftir fæðingu.
Hversu langur tími þarf að líða þar til reynt er að verða ófrískur á ný?
Læknar ráðleggja konum oft að leyfa tveim til þremur tíðahringjum að líða, áður en gerðar eru tilraunir til að verða barnshafandi aftur, til að líkaminn nái fyllilega að jafna sig. Hvert par verður svo að meta hvenær það er andlega reiðubúið til að gera aðra tilraun. Að missa fóstur getur oft fært fólk nær hvort öðru, en í öðrum tilvikum getur það myndað tilfinningalega gjá parsins á milli og jafnvel leitt til sambandsslita.
- Á vef Landsspítalans má nálgast bækling um fósturlát sem gefinn var út af spítalanum.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?