Má stunda kynlíf á meðgöngu?

Kynlíf er allt of skemmtilegt til þess að sleppa því og engin ástæða til að hætta að stunda kynlíf á meðgöngu. Líkami konunnar verður næmari fyrir örvun og margar konur tala um að þær eigi auðveldara með að fá fullnægingu á meðgöngu. Ástæðan er aukið blóðflæði í líkama konunnar en á meðgöngu eykst blóðmagn líkamans.

Samdrættir eða blæðingar eftir kynlíf

Það er alveg eðlilegt að fá samdrætti eftir kynlíf, séu þeir ekki fleiri en 4 á klukkustund og verkjalausir. Sumar konur geta fengið örlitla blettablæðingu eftir samfarir og getur það valdið hræðslu hjá mörgum konum. Það er hinsvegar ekkert að óttast ef blóðið er ekki ferskt og ef blæðingar verða ekki miklar. Við miklar blæðingar eða samdrætti með verkjum ætti að hringja uppá kvennadeild Landspítalans s: 543-1000 og ræða við ljósmóður á vakt.

Getur typpið ekki rekist í hausinn á barninu?

Margir karlmenn eru hræddir við að stunda kynlíf á meðgöngu af ótta við að meiða konuna eða barnið. Margir ganga svo langt að halda að typpið potist í hausinn á barninu. Það eru algjörlega óþarfar áhyggjur! Það er ekki að ástæðulausu sem konur engjast um í marga klukkutíma til að fá 10 í útvíkkun. Leghálsinn er nefnilega harðlokaður og þangað fer enginn inn né út nema í nokkra klst í kringum egglos til að hleypa sæði inn og svo í fæðingu. Leghálsinn opnar sig ekki upp úr þurru fyrir typpum, bara ef það væri svo auðvelt.

Finnur barnið fyrir kynlífinu?

Annar algengur misskilningur er að barnið geti fundið fyrir kynlífinu og sé kannski bara. Hafið þið verið í kringum ungabörn eftir að þau fæðast? Þau sofa, borða og vilja ekkert meira en að vera í hossi og hnoði hvort sem það er í vagni, fangi, eða bíl. Ungabörn hafa ekkert vit á því hvort að fólk sé að gera það eða ekki. Að auki eru mörg ungabörn sem eiga erfitt með að sofa nema í hávaða frá ryksugum og vatnskrana. Ástæðan er einfaldlega sú að lætin í leginu og öðrum líffærum móðurinnar eru svo mikil fyrir barnið að þeim hefur verið líkt við og að vera inní þvottavél.

Margar konur tala um að börnin sofi þegar þær hreyfa sig sjálfar. Það finnst börnunum róandi og um leið og móðirin leggst útaf eða situr hreyfingarlaus í smá tíma þá fer allt á fullt í bumbunni. Það er því algjör óþarfi að hafa áhyggjur af að vekja eða trufla barnið það vill bara fá vesen og hreyfingu því eðlilega er það miklu meira kósí! Kynlíf ætti því bara að vera róandi fyrir barnið. Tölum nú ekki um öll gleðihormónin sem seitla um líkama móðurinnar og skila sér til barnsins. Eins og sagt er glöð og ánægð móðir skilar glöðu og ánægðu barni.

Stellingar í kynlífi á meðgöngu

Eflaust velta margir fyrir sér stellingum á meðgöngu. Það er svo mismunandi eftir konum og hversu langt þær eru komnar hvaða stelling hentar þeim. Mörgum konum finnst gott að vera ofan á og stjórna þannig þrýstingnum á bumbunni. Svo eru það auðvitað hliðarstellingarnar sem auka ekki þrýsting á bumbuna. Aðalmálið er að konunni líði vel og því um að gera að prófa sig áfram og umfram allt að tjá sig um óskir og langanir í kynlífi.

Verið alveg óhrædd við að stunda kynlíf á meðgöngu og góða skemmtun!

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar