Hvaða náttúrulegu aðferðum getur fólk beitt til að koma í veg fyrir þungun?
Stundum bregður fólk á það ráð að fylgjast með frjósemi konunnar til að koma í veg fyrir þungun. Það er hægt að gera með því að mæla líkamshita konunnar, telja dagana ef tíðarhringur er reglulegur og fylgjast með slími í leggöngum.
Hversu örugg getnaðarvörn eru þessar náttúrulegu aðferðir?
Ef konan er með mjög reglulegan tíðahring getur öryggi þessara aðferða verið allt að 98%, séu þær allar notaðar saman. Ef ekki er töluverð hætta á þungun. Sama gildir ef konan er með óreglulegar blæðingar, þá eru talsvert miklar líkur á þungun.
Hvernig virka náttúrulegu aðferðirnar?
Reynt er að áætla frjósemistíma konunnar og meta hvenær þörf er á að nota getnaðarvarnir.
Hverjir eru helstu kostir náttúrulegu aðferðanna?
- Þær hafa engin auka áhrif á líkamann.
- Báðir aðilar bera sameiginlega ábyrgð á því að koma í veg fyrir þungun.
- Kynlífið getur verið ánægjulegra, þar sem sleppa má notkun öruggra getnaðarvarna á ákveðnum tímum.
- Aðferðirnar eru góð leið til að kynnast frjósemistímabili konunnar.
Hverjir eru helstu ókostir náttúrulegu aðferðanna?
- Þær krefjast mikillar nákvæmni. Konan þarf að skrá vandlega tíðablæðingar, hitamælingar og breytingar á slímmyndun.
- Á frjósemistímabili konunnar er ekki hægt að hafa samfarir, nema með því að nota aðrar getnaðarvarnir.
- Aðferðirnar virka illa ef konan er með óreglulegan tíðahring.
- Aðferðirnar geta einnig gagnast illa eftir barnsburð, fósturlát, veikindi eða lyfjameðferð og á breytingaskeiði, því þá geta hitabreytingar á líkama og slímhúð verið vegna annarra þátta en stöðu frjóseminnar.
Nánari upplýsingar um náttúrulegar aðferðir til að koma í veg fyrir þungun:
- Þessar aðferðir krefjast vandvirkni.
- Mæla þarf líkamshita að morgni hvers dags og halda skrá yfir blæðingar.
- Athuga þarf breytingar á slími frá leghálsi og finna þannig líklegan tíma eggloss.
- Til eru sérstakir frjósemismælar (t.d. Persona.is), sem mæla hormónamagn í þvagi konunnar.
- Rofnar samfarir eru stundum flokkaðar með náttúrulegum aðferðum til að koma í veg fyrir þungun, en þær eru mjög óáreiðanleg getnaðarvörn.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?