Svo þú ert búinn að dusta rykið af hjólinu, smyrja, strekkja og stilla, festa hjálminn og tilbúin/n að leggja af stað? Ef þú ert ekki viss þá mælum við með þessari grein. En þó hjólið sé í toppstandi þá er bara hálfur sigur unninn, við þurfum að vera með umferðarreglurnar á hreinu ef við ætlum að huga vel að eigin öryggi og annarra.
Samkvæmt lögum eru reiðhjól skilgreind sem ökutæki og í megindráttum gilda sömu reglur um notkun þeirra í umferðinni en athugið að reiðhjólafólk má nota gangstíga og gangstéttar hér á landi. Vert er að nefna að flestir árekstrar bifreiða og hjóla eru tilkomnir vegna símanotkunar, gefum símanum bara smá pásu á meðan við hjólum og keyrum.
Að hjóla á akbrautum
Yfirleitt er öruggara að hjóla á akbrautum, sé þar ekki þung og hröð umferð. Að hjóla á akbrautum krefst fullrar athygli hjólreiðamannsins sem verður að fylgja eftirfarandi reglum:
- Börn yngri en 7 ára mega ekki hjóla á akbrautum nema þau séu í fylgd 15 ára eða eldri.
- Hjólreiðafólk skal taka sér stöðu á þeirri akrein sem lengst er til hægri.
- Jafnframt skal hjólreiðamaður taka sér víkjandi stöðu (hjóla hægra megin á akreininni) nema hann telji að það sé hættuminna að hjóla sem næst miðri akrein (í ríkjandi stöðu).
- Ríkjandi staða getur verið öruggari þegar hjólað er um hringtorg og í þröngum götum þar sem hjólað er með fram kyrrstæðum bílum.
- Hjólreiðafólk á að gefa stefnubreytingar til kynna með því að rétta út beina hönd, tímanlega. Ágætt er að hugsa sem svo að handabending hjólreiðafólks sé notuð í sömu tilfellum og stefnuljós á bílum.
- Einnig á að gefa merki með því að beina vinstri hendi upp þegar hægja á ferð eða stöðva. Áður en merkið er gefið ætti að líta aftur og gæta að umferð.
- Öruggara er að fara í röð á gatnamótum fremur en að taka fram úr ökutækjum.
Að hjóla í hringtorgum
- Hjólreiðafólk ætti að koma að hringtorgi í ríkjandi stöðu og hjóla ríkjandi áfram þar til farið er úr hringtorginu. Þá ætti að leitast til þess að taka víkjandi stöðu á akreininni.
- Hringtorg með 2 akreinum geta verið erfiðari viðureignar og þar getur verið gagnlegt fyrir vant hjólreiðafólk að hjóla hraðar svo hægist ekki á umferðinni. Skiljanlega geta tvöföld hringtorg verið stressandi og því gæti jafnvel verið betra að hinkra á gangstéttinni þar til tækifæri gefst á að fara yfir samhliða gangandi vegfarendum.
Að hjóla á gangstígum
Hjólreiðafólk má nota göngustíga og gangstéttar með því skilyrði að það valdi ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Gangandi vegfarendur vita sjaldnast af hjólreiðafólki fyrir aftan sig, því er á ábyrgð hjólreiðamannsins að láta vita af sér og nota bjölluna. Mundu að:
Gangandi vegfarendur eiga alltaf forgang.
- Hjólreiðafólki og gangandi vegfarendum ber að virða merkingar sem tilgreina hvort stígurinn sé gangstígur eða hjólreiðastígur, sjá hér.
- Líkt og á akbrautum gildir hægri umferð á gangstígum og tekið er fram úr vinstra megin komi sú aðstaða upp.
- Hjólreiðafólki ber að hægja á sér og nota bjöllu áður en komið er blint að gangandi vegfarendum, blindhorni eða beygju.
- Þegar hjólreiðafólk þarf að fara yfir akbraut borgar sig að hægja vel á sér, jafnvel niður á gönguhraða. Ef umferð er mikil er gott að stoppa alveg og teyma hjólið yfir akbraut þegar umferð hefur minnkað eða gangandi vegfarendur eiga réttinn.
- Talandi um að eiga réttinn, að sjálfsögðu ber að virða rauða og græna kallinn.
En ég er á bíl..
Ekki hafa áhyggjur, Áttavitinn hefur einnig tekið saman hvernig bílstjórar eiga að haga sínum akstri innan um hjólreiðafólk.
Tillitsemi skiptir miklu máli, bæði fyrir hjólreiðafólk og bílstjóra.
- Þegar ekið er fram úr hjólreiðafólki ber að víkja tímanlega út til hliðar, það gefur öðrum bílstjórum tækifæri á að sjá hjólreiðafólk sem fyrst. Bilið á milli bíls og hjólreiðafólks ætti ekki að vera minni en einn meter þegar tekið er fram úr.
- Sérstaklega skal hafa varan á þegar tekið er fram úr hjólreiðafólki í beygju.
- Þegar beygt er til hægri innan um hjólreiðafólk þarf ökumaður að vera viss um að hann sé ekki að beygja í veg fyrir viðkomandi og fylgjast grannt með.
- Ökumenn stærri bifreiða þurfa að vera sérstaklega á varðbergi þegar ekið er samhliða hjólreiðafólki á sömu akrein. Afturendi ökutækisins getur tekið ansi stórt pláss þegar beygt er og getur stórskaðað þann sem fyrir honum verður. Vert er að hafa í huga að hjólreiðafólk ætti að forðast að hjóla samhliða stórum ökutækjum.
- Í hringtorgum þarf að sýna sérstaka varúð, hægja á sér ef svo ber við og gefa hjólreiðafólki pláss. Sömu reglur gilda um hjólreiðafólk í hringtorgum og ökumenn bifreiða varðandi hver á réttinn.
- Mundu að líta í hliðarspegilinn áður en þú opnar hurðina á kyrrstæðum bíl.
Heimildir:
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?