Það eru gömul vísindi og ný að reiðhjólið er besta farartækið sem hugsast getur í þéttbýli. Kostirnir eru óteljandi; þægilegur ferðahraði, hættulítill, vænn fyrir umhverfi og pyngju, heilsueflandi, skemmtilegur, fallegur og spennandi – upptalningin er óendanleg.
Af ýmsum ástæðum hvarf þessi þekking úr hugum Íslendinga um árabil. Það er alls kyns undarlegar sögur til úr okkar samfélagi. Ein segir frá móður sem gaf burtu hjól dóttur sinnar þegar hún varð 17 ára. Hvers vegna? – jú, ekki af því að hjólið var of lítið – nei, dóttirin hlyti að vera hætt að leika sér. Önnur saga segir frá konunni með hnéeymslin. Læknirinn á Íslandi sagði henni að hún mætti ekki hjóla en læknirinn í Kaupmannahöfn hvatti hana eindregið til þess að vera dugleg að hjóla – það væri gott fyrir hnén.
Einhver menningartengsl endurspeglast í þessum stuttu sögum sem líklega eiga ákveðnar pólitískar rætur, sem nú eru að koma okkur í koll í Reykjavík a.m.k. Árið 1963 var sett inn í aðalskipulag að hver borgarbúi skyldi eiga þess kost að geta lagt bílnum fyrir utan heimili sitt og sömuleiðis framan við vinnustaðinn sinn. Þetta varð geysilega vinsæl hugsun og þótti sérlega metnaðarfull skipulagsáætlun. Við uppskárum borg sem liggur um ótrúlega stórt landsvæði og mannlíf þar sem borgararnir hættu nánast að sjást nema í gegnum bílrúðu á rauðu ljósi.
Svo féll krónan og olían hækkaði og loks fór að örla á skynsemi borgaranna. Á síðustu árum hefur hjólandi fjölgað langt umfram það sem nokkur yfirvöld gátu óskað sér og nú er markvisst unnið að því víða um land að gera hjólavænar aðstæður og setja sem opinber markmið að efla hjólreiðar í hvívetna.
Hvað kostar að hjóla?
Venjulegur hjólreiðamaður, þessi sem er ekki í spandexinu, og fer flestra sinna ferða á reiðhjóli, hjólar í kringum 3.000 km á ári. Það eru bensínútgjöld upp á u.þ.b. 100.000 kr. Á heimasíðu FÍB eru sannfærandi útreikningar birtir um rekstur einkabílsins. Minnstu bílarnir kosta 1.000.000 á ári. Það er eins og gott skiptinemaár í útlöndum.
Fyrir bensínpeninginn sem sparast árlega er hægt kaupa sér fínt reiðhjól og kaupa síðan skemmtilegar og praktískar græjur á hjólið. Bretti, standari, bjalla, bögglaberi, hjólatöskur, lás og ljós – margt af þessu er skyldubúnaður en annað hreinlega ómissandi þáttur til þess að gera hjólið að því sem maður þarf í þéttbýli. T.d. verða öll innkaup til heimilisins mun gáfulegri á hjóli. Í stað þess að fylla bílinn af alls kyns óskapnaði úr búðinni, þá er það reynsla þess sem hjólar að hann kaupir inn á einkar hagkvæman hátt.
Hvernig hjól á ég að fá mér?
Fyrir samgönguhjólreiðar er gott að vera á svokölluðum hibridge hjólum, það eru fyrirtaks borgarhjól. Þau eru á mjórri dekkjum en fjallahjólin og á stærri gjörðum en með gíraskiptingar eins og fjallahjólin. Á mjórri og sléttari dekkjum fer hjólið hraðar yfir á malbikinu og með stærri gjörðum verður fjöðrunin á hjólinu mýkri. Gírarnir eru til þess að nota þá og þó að flest þéttbýli á Íslandi séu frekar flöt, þá leynast hæðir víða og þá notum við gírana. Þeir hjálpa til við að vernda átakið á hnjánum og þegar farið er upp halla, skiptum við í léttari gír. Á leið niður halla förum við í þyngri gír og gætum þess vel á miklum hraða að lenda ekki í óvæntum aðstæðum. Hér eins og í annarri umferð er það fyrst og fremst hraðinn sem ógnar einstaklingnum. ´
Möguleikarnir eru óendanlegir hér sem annarsstaðar og fjölbreytileikinn í hjólheimum kemur flestum á óvart. Það eru til hjól fyrir fótalausa, fjölskylduhjól, flutningahjól, liggjandi hjól – úrvalið er endalaust! Og það sem er þokkalega að slá í gegn á Íslandi eru rafhjólin.
Á heimasíðu Íslenska fjallahjólaklúbbsins og á www.hjolreidar.is eru úrvalsefni að finna um alls konar hjól og val á hjólum.
Er öruggt að hjóla?
Á heimasíðu Landssamtaka hjólreiðamanna eru heillaráð til hjólreiðamanna. Það er ótal margt sem hver hjólreiðamaður getur gert til þess að tryggja eigið öryggi. Pældu í þessu:
- Vertu sýnileg/ur í umferðinni. Það gerum við best með að gera okkur sýnileg í sjónsviði bílstjóra þegar við hjólum í blandaðri umferð. Kynntu þér tækni Hjólafærni og vertu klók/ur að finna þær götur sem lítið eru eknar en henta þeim mun betur til að hjóla í.
- Gefðu merki tímanlega. Ef það er einhver í umferðinni í kringum þig skaltu láta tímanlega vita ef þú ætlar að breyta stefnu þinni. Um leið og þú lítur aftur fyrir þig, þá er viðbúið að bílstjórar verða meira á varðbergi í samvinnu við þig á götunni.
- Vertu í augnsambandi við aðra vegfarendur. Þannig ertu töluvert öruggari um að þeir viti af þér og séu tilbúnir til samvinnu.
- Hlustaðu á umhverfið. Gættu þess að ipodinn sé ekki á þeim styrk að þú verðir ekki var við umhverfishljóðin.
- Hinkraðu eftir grænu ljósi. Það eru umferðareglur og þeim ber að hlíta. Það getur ógnað öryggi annarra vegfarenda, einkum gangandi og hjólandi, ef þú rýkur framhjá þeim og yfir á rauðu ljósi.
- Virtu forgang gangandi vegfarenda á gangstéttum. Mundu ævinlega að hjólandi eru gestir á gangstéttum og okkur ber að sýna ítrustu varfærni þegar við förum fram úr hægari umferð. Láttu vita af þér með bjöllunni og ef þeir víkja – þá skaltu líka þakka fyrir samvinnuna.
- Notaðu ljós í myrkri og nagladekk í hálku. Þá ertu líka kominn með samgöngutæki allt árið.
- Notaðu hjálminn rétt. Illa stilltur hjálmur er varasamur.
Öflugasta öryggisvörn hjólandi umferðar virðist vera fólgin í fjölda þeirra sem hjóla. Því fleiri sem hjóla, þeim mun færri slasast. Það er eins og umferðin læri að snúast saman og ef allir ökumenn eru vanir umferð hjólandi, er hún betur tryggð. Hjálm eða hjálmlaus, neon eða svart rúskinn, spandex eða gallabuxur en í fyrir alla muni HJÓLAÐU og vertu með LJÓS!
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?