Þegar sumarið nálgast fer okkur að langa til að eyða meiri tíma utandyra og þá kemur gamla reiðhjólið upp í hugan. Þó það sé grafið aftarlega í geymslunni þá er engin ástæða til að afskrifa það. Gömlu fjallahjólin sem nánast allir eiga geta öðlast framhaldslíf ef rétt er farið að. Ef þú ert ekki svo heppinn eiga slíkt þá má heyra í vinum og ættingjum og sjá hvort ekki leynist gamlar gersemar í geymslunni hjá þeim. Með þvotti og örlitlum lagfæringum má koma þreytulegum hjólum á götuna á ný.
Byrjaðu á því að þrífa hjólið
Heitt vatn og smá uppþvottalögur í fötu ásamt tusku og uppþvottabursta geta gert góða hluti. Mikilvægast er að þurka af öllum snertiflötum og svo af enduskinsmerkjunum sem eru mikilvæg um leið og dimma tekur. Með smá sandpappírsbút er lítið mál að hressa upp á ryðgaða hluta hjólsins.
Keðjan slök eða jafnvel dottin af
Þá er um að gera að smella henni á að nýju, smyrja hana og hjóla af stað. Gott er að hafa einnota hanska til að fá ekki smurolíu á hendurnar. Ef keðjan er gjörn á að detta af gæti þurft að strekkja á henni, athuga tannhjólin eða athuga hvort keðjan sjálf sé orðin léleg.
Þegar þú smyrð keðjuna á hjólinu þínu er fínt að nota þunna olíu fyrst á vorin en hún hjálpar þér að liðka til stífa keðju. Þykkari olía tollir þó betur á keðjunni og verndar hana lengur. Athugið að ekki er mælt með hinu vinsæla WD – 40 til að smyrja hjólakeðjur.
Bremsur
Það getur verið freistandi að hjóla af stað en fyrst skaltu athuga bremsurnar. Það er alveg lágmark að geta stoppað ef maður er kominn á fleygiferð niður næstu brekku. Oftast þarf bara aðeins að smyrja bremsurnar og kannski stilla þær upp á nýtt en eins og áður segir þá er betra að hafa þær í lagi. Ef bremsupúðarnir eða diskarnir eru eyddir og slitnir, þarftu að kaupa nýja og skipta um.
Loftlaus dekk
Ef þú átt ekki pumpu, þá er málið að reiða hjólið á næstu bensístöð og sjá hvort þú komir ekki lofti í dekkin svo þú getir í það minnst hjólað til baka. Flestar bensínstöðvar eru með öflugar loftdælur sem passa á bílventla en flest fjallareiðhjól og mörg götureiðhjól eru einmitt með svoleiðis ventla. Ef hjólið þitt er með gamlan góðan hjólaventil, þá gæti bensínsjoppan átt svoleiðis til í afgreiðslunni.
Ef í ljós kemur að dekkið er sprungið, þá þarftu að finna gatið og skella á það bót. Bætur má kaupa í útivistar- og íþróttaverslunum, bensínstöðvum og reiðhjólaverkstæðum. Þær eru ódýrar og einfaldar í notkun og yfirleitt fylgir lím og góðar leiðbeingar með þeim. Ef þú treystir þér ekki til að bæta dekkið sjálf(ur) þá getur þú farið með dekkið í viðgerð á næsta hjólaverkstæði. Það kostar um 1500 til 4000 krónur. Notaðu tækfærið og fáðu viðgerðarmanninn til að athuga teinana, hvort á þeim þurfi að herða og hvort þeir séu i lagi. Í sumum tilfellum gæti verið betra að kaupa nýtt dekk. Það kostar á bilinu 5000 til 10.000 krónur
Ljós
Það er gott að þurrka af ljósunum reglulega og athuga hvort þau virki ekki örugglega. Lítil og blikkandi LED ljós eru að leysa gömlu rafaldrifnu luktirnar af hólmi. Þó það sé bjart nánast allan sólarhringinn á sumrin þá er vissara að vera klár með góð fram- og afturljós þegar hausta fer.
Hjólalás
Það getur freistað að grípa með sér ólæst hjól og því er mikivægt að vera með góðan hjólalás strax frá upphafi. Ef þú ert týpan sem týnir lyklum þá er hæt að fá góða talnalása víða. Þeir kosta á bilinu 700 – 2000 krónur.
Hjálmur
Allir ættu að hjóla með hjálm. Munið að gamall hjálmur er lélegur hjálmur, og passið að það vanti ekki púðana í hjálminn.
Ertu búin/n að sjá greinina okkar um Hvernig á að hjóla innan um aðra?
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?