Hvernig má draga úr orkunýtingu bílsins og spara bensínkostnað?
Hægt er að hámarka orkunýtingu bifreiða með því að gæta þess að allt sé eins og það á að vera. Ef stillingar bílsins eru réttar má hámarka getu hans og ná fram lágmarks eldsneytiseyðslu.
- Mikilvægt er að hafa ávallt réttan loftþrýsting í dekkjum. Of lítill loftþrýstingur eykur viðnám og getur aukið eldsneytiseyðsluna um allt að 6%. Ef loftþrýstingur er ójafn í dekkjum getur ending dekkja minnkað um allt að 10%. Ef aðeins eitt dekk hefur of lítinn þrýsting getur ending hjólbarðans minnkað um allt að 10.000 km auk þess sem hemlunarvegalengd eykst. Athuga skal því loftþrýsting a.m.k. mánaðarlega.
- Illa stillt vél eykur eyðslu. Vanstillt vél getur notað allt að 50% meira eldsneyti og mengað í samræmi við það.
- Hrein loftsía er mikilvæg. Óhrein eða stífluð loftsía getur aukið eyðslu um allt að 10%. Bifreiðar þurfa hreint og gott loft til brennslu ekki síður en við sjálf.
- Óþarfa farangur eða þyngd eykur eldsneytisnotkun. Það gildir sama um bifreiðar og okkur mannfólkið, aukin byrði veldur meiri áreynslu. Því er gott að losa farþega- og farangursrýmið við óþarfa dót. 50 kíló geta aukið eldsneytiseyðsluna um 2%.
- Toppgrindur og aukafarangursgeymsla á toppnum auka loftmótstöðu. Því er mikilvægt að fjarlæga slíkt eftir notkun. Tóm farangurgeymsla á toppi bílsins skilar engu nema auknum rekstrarkostnaði.
- Gott er að þvo og bóna bílinn. Smáatriðin skipta máli. Fuglaskítur á bifreið getur raunverulega aukið eyðslu um brotabrot. Bíllinn smýgur betur í gegnum loftið ef hann er hreinn og gljáandi. Skítugur bíll getur eytt allt að 7% meira eldsneyti.
- Mikilvægt er að taka hleðslutæki úr sambandi. Fleiri og fleiri aukabúnaður er að koma til sögunnar sem hægt er að tengja við sígarettukveikjarann. Ef slík tæki eru tengd þegar vélin er ræst eykst álag á „alternator“ bifreiðarinnar og það kallar á meiri orku.
Einnig má hármarka orkunýtingu með réttu aksturslagi
Það er vitað mál að akstur í borg er mun eldsneytisfrekari en beinn akstur utan bæjar. 50% af því bensíni sem bíll eyðir í borgarakstri eyðist þegar hann tekur af stað, t.d. á rauðu ljósi. Með réttu aksturslagi má því spara pening.
- Forðast skal öfgar í aksturslagi. Ef aksturslagið miðast við að taka hratt af stað og snögghemla þá getur eyðslan aukist um allt að 40%. Rannsóknir sýna að slíkt aksturslag í borgum styttir ferðina einungis um 4%. Hagkvæmast er að taka rólega af stað og koma bílnum í háan gír sem fyrst. Mjúkur akstur með góðu flæði gefur besta raun enda fer allt að 50% orkunnar í innanbæjarakstri í hröðun.
- Hraðakstur dregur úr orkunýtni. Með því að auka hraðann úr 90 km/klst. í 120 km/klst. getur eldsneytisnotkun aukist um allt að 20%. Hægt er að minnka eldsneytisnotkun um 10-15% með því að aka á 90 km/klst. frekar en 105 km/klst.
- Forðast skal lausagang. Bifreið í lausagangi skilar engu nema eyðslu og mengun. Ef bifreið er lagt í meira en 30 sekúndur borgar sig alltaf að drepa á vélinni.
- Mikilvægt er að keyra í hæsta mögulega gír. Því minna sem vélin þarf að reyna á sig þeim mun minna eldsneyti eyðir hún. Því er mikilvægt að komast í háan gír eins fljótt og mögulegt er.
- Gott er að nota hraðastillingu (e. cruise control) ef slíkt er til staðar. Hraðastilling sparar orku í lengri ferðum enda tryggir hún jafnan hratt og mjúkt aksturslag.
- Það sparar að hafa rúðurnar lokaðar. Opnir bílgluggar auka vindmótstöðu töluvert og þar með eldsneytiseyðslu. Á langferðum er frekar mælt með að hafa kveikt á loftkælingu eða kaldri miðstöð.
- Beinskiptir bílar er sparneytnari en sjálfskiptir bílar.
- Að lokum er gott að forðast álagstíma í umferðinni. Oft er mögulegt að sneiða hjá álagspunktum í umferðinni með því að velja annan ferðatíma eða aðra leið. Því lengri ferðatími og bið í umferð, því meiri eyðsla. Að leggja af stað örlítið fyrr eða seinna til og frá vinnu getur sparað talsverðar upphæðir.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?