Hvað kostar að reka bíl?

Þessari spurningu getur verið erfitt að svara. Bílar kosta mismikið, eru misdýrir í rekstri og eigendurnir nota þá misjafnlega mikið. Félag Íslenskra bifreiðaeigenda hefur árlega tekið saman meðalkostnað við rekstur á bíl og þar má finna þessar tölur frá árinu 2018. Eins getur fólk uppfært hvern kostnaðarlið hér að neðan og útbúið þannig sína eigin kostnaðaráætlun.

Bensínkostnaður

Hér er miðað við að fólk keyri 15.000 kílómetra á ári.

  • Lítill fólksbíll: 215.000 krónur.
  • Meðalstór fólksbíll: 246.000 krónur.
  • Stór fólksbíll: 307.000 krónur.

Viðhald og viðgerðir

Hér er miðað við að fólk keyri 15.000 kílómetra á ári. Vert er að hafa í huga að tölurnar eru meðaltal; þær geta bæði verið hærri og lægri.

  • Lítill fólksbíll: 147.000 krónur.
  • Meðalstór fólksbíll: 156.000 krónur.
  • Stór fólksbíll: 187.000 krónur.

Hjólbarðar

Hjólabarða þarf að endurnýja reglulega. Auk þess þurfa Íslendingar helst að eiga bæði sumar- og vetrardekk, en einnig eru fáanleg svokölluð heilsársdekk. FÍB áætlar að meðalkostnaður við þetta á ári sé frá 46.500 kr. og upp í 86.000 kr. eftir notkun og tegund bíls.

Tryggingar

Tryggingar eru að sjálfsögðu misdýrar og fer það eftir tryggingafélögum og tilboðum hversu dýrar þær eru. Eins veltur upphæð tryggingagjalda á aldri og tegund bílsins. Tölurnar frá FÍB miðast við nýja bíla í kaskó-tryggingu.

  • Lítill fólksbíll: 223.000 krónur.
  • Meðalstór fólksbíll: 243.000 krónur.
  • Stór fólksbíll: 256.000 krónur.

Skattar og skoðun

Bifreiðagjald er mishátt en það veltur á þyngd bílsins og losun koltvísýrings. Því þyngri sem bíllinn er, því hærri eru bifreiðagjöldin. Kostnaður við skoðun á bíl er á bilinu 5.000 til 10.000 krónur. Því má ætla að þetta kosti fyrir…

  • lítinn fólksbíl: 15.000 – 20.000 krónur,
  • meðalstóran fólksbíl: 20.000 – 25.000 krónur,
  • stóran fólksbíl: 25.000 – 30.000 krónur.

Bílastæði og þrif

FÍB gerir ráð fyrir að kostnaður við bílastæði og þrif á bifreiðinni sé í kringum 45.000 á ári. Að sjálfsögðu getur upphæðin verið hærri eða lægri.

Verðrýrnun

Á hverju ári rýrnar verð bílsins um einhverjar prósentur. Í fyrstu gerist það hratt, en síðan hægir á verðrýrnuninni. Oft er sagt að það eitt kosti nokkur hundruð þúsund að keyra bílinn út af bílasölunni. Ætla má að nýr bíll rýrni um 13% af verðmæti fyrsta árið. Ef bílinn kostar 1.000.000 króna eru þetta 130.000 krónur fyrsta árið.

Lántökukostnaður

Ef bílar eru keyptir á lánum leggst svo kostnaður við lánið ofan á þetta allt saman. Kostnaðurinn við lánið veltur auðvitað á þeim kjörum sem lánið er tekið á. Þó má gera ráð fyrir að upphæðin hlaupi á tugum eða hundruðum þúsunda, sem fara í lántökukostnað og vexti.

Á síðunni Bensínverð.is má ávallt finna nýjustu upplýsingar um bensínverð á Íslandi.

Heimild:

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar