Ýmis vörugjöld
Fyrir 1. janúar 2015 voru vörugjöld á ýmsum vörum, en þau voru lögð af. Vörugjald var skattur sem lagðist á ákveðna vöru við innflutning eða framleiðslu hennar. Á Íslandi voru vörugjöld á sykri og sætindum, ökutækjum, gúmmívörum, ýmsum byggingarefnum og varahlutum, ljósum og lömpum, heimilistækjum og fleira. Gjöldin voru mishá eftir flokkum og vörum.
Áfengis- og tóbaksgjald
Sérstakt áfengis- og tóbaksgjald er lagt á áfengi og tóbak.
Álagning á áfengi fer eftir magni alkahóls af rúmmáli umfram 2,25%
Álagningin er mismunandi eftir því um hvers konar áfengi eða áfenga drykki er að ræða. Sérstakar reglur gilda um gjaldtöku á bjór, aðrar um vín og millisterkt áfengi og enn aðrar um brennda drykki. Áfengisgjald reiknast eftir lítrafjölda og áfengismagni.
Álagning á tóbak er sem hér segir:
- Sígarettur (vindlingar): 542,05 kr. á hvern pakka (20 stk.).
- Neftóbak: 30,15 kr. á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru.
- Annað tóbak: 30,15 kr. á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru.
- Af tóbaki sem selt er í tollfrjálsum verslunum er greitt 40% af tóbaksgjald.
Bifreiðagjöld
Bifreiðagjöld eru skattur sem leggst á öll vélknúin ökutæki sem skráð eru hér á landi. Ekki skiptir máli hvort um bensín-, dísil- eða rafmagnsknúin ökutæki er að ræða. Gjaldið er mishátt en það veltur á þyngd bílsins og losun koltvísýrings. Því þyngri sem bíllinn er, því hærri eru bifreiðagjöldin. Gjaldtímabil bifreiðagjalda eru tvö: 1. janúar til 30. júní og 1. júlí til 31. desember.
- Á heimasíðu Ríkisskattstjóra má finna reiknivél fyrir bifreiðagjöld.
- Á heimasíðu Umferðarstofu má fletta upp í ökutækjaskrá. Þar má sjá þyngd bílsins og skráða losun koltvísýrings (ef hún er til staðar).
Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra
Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra er nefskattur, en það þýðir að hann leggst jafnt á alla einstaklinga óháð tekjum eða eignum á aldrinum 16-70 ára. Árið 2022 er gjaldið 12.034 kr. á mann og er það greitt árlega. Þeir sem þéna að meðaltali 161.502 kr. eða minna á mánuði ( samtals 1.938.025 kr. á ári) þurfa ekki að greiða gjaldið.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?