Hvar finn ég ökukennara?
Hjá ökukennarafélaginu er hægt að leita að ökukennara eftir landshlutum. Verð getur verið mismunandi og því er gott að hafa samband við fleiri en einn kennara og bera saman verð. Einnig er sniðugt að ræða við vini og kunningja og fá ábendingar hjá þeim.
Hvernig gengur ökunám fyrir sig?
- Námið hefst á verklegum tímum hjá ökukennara. Í gegnum allt námið tekur nemandi reglulega verklega tíma.
- Eftir nokkra verklega tíma fer nemandinn í Ökuskóla 1, sem er bókleg kennsla um umferðarreglur og fleira.
- Eftir Ökuskóla 1 og nokkra verklega tíma til viðbótar getur nemandi farið í æfingaakstur. Það felst í því að þá má nemandinn keyra bíl með ábyrgðarmanni (yfirleitt foreldrum). Ökukennari metur hversu marga tíma nemandi þarf að taka áður en farið er í æfingaakstur.
- Að æfingaakstri loknum eru venjulega teknir nokkrir tímar hjá ökukennara til viðbótar, en það veltur á færni nemandans hve margir tímar það eru.
- Nemandi klárar síðan Ökuskóla 2 og 3, sem eru seinni hlutar bóknámsins.
- Að loknu námi, en áður en prófið er tekið, þarf að sækja um ökuskírteini hjá næsta sýslumanni.
- Loks má taka sjálft prófið, fyrst bóklegt próf og síðan munnlegt og verklegt próf.
Hversu marga tíma þarf að taka hjá ökukennara?
Samkvæmt námsskrá þarf að taka 17-25 tíma til að fá bílpróf. Algengt er að fólk taki 19-25 tíma í náminu.
Hvaða skólar kenna bóklega hluta ökunámsins?
Á gulu síðunum má sjá alla ökuskóla landsins sem kenna Ökuskóla 1, 2 og 3.
Hvar skrái ég mig í bílpróf?
Frumherji sér um að halda bókleg og verkleg bílpróf alls staðar á landinu. Hafið samband við Frumherja til að panta tíma í próf.
Hvað kostar að taka bílpróf?
Það má gera ráð fyrir að kostnaður sé að lágmarki nálægt 300.000 kr. Misjafnt er hversu marga ökutíma nemendur þurfa að taka og getur upphæðin því bæði lækkað töluvert og hækkað. Gott er að láta ekki langan tíma líða á milli ökutíma, því þá nær maður fyrr tökum á akstrinum og þarf ekki að kaupa jafnmarga tíma.
Á vef Umferðastofu má finna greinagóðar upplýsingar um allt sem snýr að bílprófinu og ökunáminu.
Hve lengi gildir ökuskírteinið?
- Í fyrstu fær nemandi ökuskírteini sem gildir í tvö ár.
- Eftir eitt ár getur nemandi farið í ökumat hjá ökukennara og ef hann stenst það fær hann fullnaðarskírteini sem gildir til 70 ára aldurs.
- Ef ökumaður fær refsipunkta á þessum fyrstu tveim árum fær hann ekki fullnaðarskírteini eftir ökumatið, heldur annað skírteini sem gildir í tvö ár.
- Refsipunktar fyrnast þremur árum eftir að brot er framið.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?