Í daglegu máli hefur orðið fordómar frekar neikvæða merkingu. Að dæma eitthvað áður en þú hefur kynnt þér fleiri hliðar málsins, að móta þér skoðun án reynslu og nægilegrar þekkingar. Í orðabók er orðið fordómar skilgreint sem: „harður dómur með óvild, t.d. gagnvart ákveðnum hópi manna, eða málefni“ og orðið fordómur sem „afstaða, sem er fast skorðuð, óhagganleg og verður ekki frjálslega rædd með rökum“. Á þessi skilningur á orðinu margt skylt við hið nokkuð gagnsæja orð í íslensku, heimskur; sá sem fer aldrei að heiman, hvorki til þess að leita sér reynslu í heiminum með skilningarvitum sinum, né inn á lendur ólíkrar hugmyndafræði en hann hefur alist upp við.

Þrátt fyrir aðgengi fólks að upplýsingum, lesefni og fróðleik virðast vera mikið af fordómum enn til staðar ef tekið er mið af leituðum setningum og orðum Google leitarvélarinnar. Þar koma fram fordómar um kynferði, kynþætti, fegurð, menntun, trúarbrögð, fatlanir og í raun flest allt sem getur einkennt persónu af tegundinni Homo Sapiens. Er því spurt, eru fordómar í einhverjum skilningi óhjákvæmilegir?

Óhjákvæmilegir fordómar?

Margt í samfélagi manna felur í sér að leggja dóm á hvað er rétt og rangt. Margt af því sem fólk telur að sé rétt eða rangt lærir það í gegnum uppeldi sitt og það samfélag sem það býr í. Þannig fer það eftir því hvaða fólk þú ert umkringdur hvers konar hugmyndir um sjálfa/n þig og heiminn þú hefur. Segjum sem svo að við þekkjum einkum dyggðugan einstakling sem heitið hefur því að kynnast sem flestum hliðum mannlegs lífs. Hann eyðir næstu fimmtíu árum lífs síns í að lesa bækur og að ferðast um heiminn. Væri hann loks laus undan oki fordóma? Hér getum við leitað til heimspekinnar og skilgreiningu hennar á hluthyggju og hughyggju.

Hluthyggja – Til er ytri veruleiki sem er óháður hugsunum okkar. Við getum öðlast skilning á þessum veruleika með skilningarvitum okkar.

Hughyggja – Ytri veruleiki er háður upplifunum hvers og eins.

Litlir kassar – góðir eða slæmir?

Af þessu má draga að ef við ætluðum að gangast við því að vel lesni heimshornaflakkarinn væri mögulega laus við alla fordóma þyrftum við að trúa á skilgreiningu hluthyggju og að hann hefði í krafti skilningarvita sinna nægileg tól til þess að kanna heiminn að fullnustu. Samkvæmt nútíma vísindum virðist það þó ekki vera raunin. Skilningarvit okkar virðast vera háð ýmsum ytri skilyrðum eins og næringu, skjóli og tækifæri til menntunar. Hér má líka nefna allar þær tegundir lifs sem fyrirfinnast á jörðinni og hvernig þær túlka umhverfi sitt, hvað segir að þeirra túlkun sé rétt eða röng? Hvað vitum við um þeirra túlkun? Manneskjan býr við ákveðna mannmiðjuhyggju (e. anthropocentrism) sem honum er erfitt að yfirstíga.

Fordómar á leiðinni til lífs

Maðurinn er þannig skilyrtur þegar hann kemur inn í heiminn, fordómar hans eru honum leið til lífs og hafa komið honum á topp fæðukeðjunnar en um leið valdið öðrum lífverum og meðlimum eigin tegundar ómældrar þjáningar. Hvað er að því? Það fer auðvitað eftir hvert viðmiðið er. Rétt og rangt eru loðin hugtök og fyrirfinnast hvergi nema í hugum og hjörtum mannanna. Áskorunin er falin í því  að komast að því hvað sé rétt og rangt, og út frá því uppræta fordóma. Er það hægt? Er hægt að segja; þetta er rétt, þetta er rangt? Á hvaða grundvelli? Er ekki það eitt að ég get verið í þeirri forréttindastöðu að eyða tíma mínum í að velta þessum hlutum fyrir mér merki um misskiptingu efnislegra forréttinda? Velmegun vesturlanda er að mörgu leyti byggð á þjáningu fólks annarsstaðar á hnettinum, sem voru undirokuð í krafti tækninnar. Þar er því möguleg útskýring á fordómum á vesturlöndum í garð minnihlutahópa, mismunandi kynþátta og fólks af ólíkri kynhneigð.

Fordómar eiga rætur sínar í hræðslu við að tapa forréttindum sínum.

Hræðslan við að deila auðlindum jarðarinnar kemur í veg fyrir að fordómar verði úreltir. Mætti því segja að fordómar séu að einhverju leyti nauðsynlegir til þess að halda uppi samfélagi manna eins og við þekkjum það? Í leið okkar til þess að finna okkur stað og forsendur til tilvistar þá leitum við að leið til þess að skilgreina okkur og þar með tryggja okkur hlutverk í samfélagi mannanna. Í þessu samfélagi er stigveldi sem veldur ójafnvægi milli áðurnefndra hluta sem geta einkennt persónur svo sem kyn, kynþættir o.s.frv. Til þess að uppræta fordóma þurfum við því að breyta samfélagsgerð okkar, þangað til verða fordómar óhjákvæmlegur fylgifiskur þess.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar