Í pólítískri orðræðu er þjóðernishyggja notað sem hugtak í hugmyndafræði sem undirstrikar sérstæði lands og þjóðar, menningu, sjálfstæði og hagmuni hennar.
Alþjóðahyggju er í því samhengi stillt upp sem andstæðu. Þar er áherslan lögð á mikilvægi þess að sjá land sitt sem hlutdeild í stærri samhangandi heild. Hvatinn til alþjóðlegrar samvinnu er mikill og að við berum ábyrgð gagnvart öðrum ríkjum heims.
Þá er þessi hugmyndafræði tengd sögulega annars vegar við rómantíkina, lofsöngvana og ljóðin um föðurlandið og hinsvegar tæknibyltingum eins og internetinu, hnattvæðingu, nú eða heildarhyggju trúarbragða eins og búddisma.
Mikilvægi þess að sjá það góða við náttúru heimahagana og vilja vernda tungumálið sitt og menningu er eitt. Að standa stuggur af öðrum menningarheimum er annað. Að hræðast breytingar, forðast óvissu, að óttast það að missa forréttindi sín og að sama skapi vilja vernda þau. Það má eflaust skilja þjóðernishyggju á fleiri en eina vegu og jafnvel gera greinamun á milli jákvæðrar og neikvæðrar þjóðernishyggju.
Síaukin tenging og hraði nútíma samfélags hefur gert það að verkum að sérstæði menningarheima og tungumála minnkar. Loftlagsvandamál og önnur sammannleg vandamál setja þannig aukna pressu á ríki til þess að taka ábyrgð á vandamálum mannkynsins.
Málamiðlanir
Hvernig er hægt að tryggja jafnvægi milli siðferðislegrar afstöðu til t.d. málefna flóttfólks en á sama tíma vilja tryggja forréttindi þeirra sem þegar tilheyra samfélaginu. Forréttindi eins og ódýrt rafmagn, aðgangur að heilbrigðisþjónustu, hreint drykkjarvatn og reglulegrar sólarlandaferðir?
Hugtakið málamiðlun getur mögulega komið að notum hér. Finna þarf milliveginn á milli þessara tveggja sjónarmiða því auðvitað viljum við öll hlúa vel að okkur sjálfum og þeim sem standa okkur næst. Leiðin þangað felst í skilning á rökum beggja hliða með hæfilegum skammti af uppbyggilegri gagnrýni.
Það má spurja sig, er hægt að standa vörð um forréttindi en að sama skapi berjast fyrir jafnrétti? Eru forréttindi mannréttindi? Kannski gagnlegra að líta á alþjóðahyggju og þjóðernishyggju ekki sem andstæður heldur sitthvora hliðina á sama peningi. Finna þarf leiðir til þess að brúa bilið.
Nú líður að kosningum, hvaða stjórnmálaflokkar geta stillt fram fólki sem getur rætt málin á yfirvegaðan og skiljanlegan máta? Þar sem borin er virðing fyrir mismunandi aðstæðum fólks? Kjósum okkur fulltrúa á Alþingi sem við teljum að hafi hugsmuni okkar allra að leiðarljósi!
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?