Af hverju eru haldnar kosningar?
Lýðræði er stjórnskipulag þar sem valdið liggur hjá almenningi. Fulltrúalýðræði felst í því að þjóðin velur sér fulltrúa til þess að fara með ríkisvaldið fyrir sína hönd yfir tiltekið tímabil. Forsenda þess að lýðræði virki er að almenningur láti sig kosningar varða og taki þátt í þeim.
Lýðræði = lýðurinn ræður
Barátta fyrir lýðræði hefur kostað margar þjóðir mótmæli, uppreisnir og mikil átök. Að búa í lýðræðisríki er langt frá því að vera sjálfsagður hlutur. Áður fyrr bjuggu hvorki Íslendingar né aðrar þjóðir við lýðræði, heldur réðu konungar, trúarleiðtogar og hershöfðingjar öllum málefnum samfélagsins. Unga kynslóðin á Íslandi í dag fæddist með þann rétt að kjósa en það gerðu ekki allir. Enn þann dag í dag búa ekki allir við lýðræði í heiminum.
Þátttaka í kosningum er það sem réttlætir lögmæti ríkisins til starfa fyrir þjóðina. Ef kosningaþátttaka fer lækkandi (ef færri taka þátt í kosningum), þá getur það haft skaðleg áhrif á lýðræðið á Íslandi. Góð þátttaka í kosningum segir okkur að fyrirkomulagið okkar, lýðræðið, sé að virka.
Af hverju á ég að kjósa?
Á kjördag sitja allir þjóðfélagsþegnar við sama borð, ungir sem aldnir. Samfélagið er eitthvað sem við eigum öll þátt í að móta og byggja upp. Með þínu atkvæði ert þú að móta framtíðarhorfur landsins. Þú velur þann flokk sem þér líst best á og telur að þjóni hagsmunum þínum og þjóðar.
Ef að ákveðinn hópur í samfélaginu velur að kjósa ekki, er hætta á því að hagsmunir hópsins fái minni athygli en annarra. Sem dæmi um þetta má nefna að ef að aldraðir kjósa í minna mæli en aðrir, þá er áhersla á málefni aldraðra kannski ekki hátt uppi í samfélaginu eftir kosningar.
Þess vegna er mikilvægt að kjósa, kjóstu svo að rödd þín fái áheyrn!
Hvernig veit ég hvað ég ætti að kjósa?
Miklilvægt er að kynna sér þá flokka sem bjóða sig fram. Flestir þeirra ættu að vera með heimasíður sem auðvelt er að finna. Þá eru alltaf málþing og pallborðsumræður fyrir kosningar þar sem frambjóðendur svara spurningum um helstu áherslumál. Auk þess má taka könnun eins og kosningavitann til þess að komast nær sinni niðurstöðu. Kosningavitinn segir þér til um það hvaða flokkum í framboði þú átt mest sameiginlegt með.
Mundu að það á alltaf að vera þín eigin ákvörðun hvað þú kýst.
En ef mér líst ekki á stefnumál neinna flokka?
Það verður að þykja afar ólíklegt að einstaklingur sé sammála öllum hugsjónum og hagsmunamálum (stefnumálum) einstakra flokka. Því velur hver og einn það sem þeim þykir endurspegla sem best, þeirra skoðanir á málunum. Ef það kemur síðan fyrir að enginn flokkur endurspeglar skoðanir einstaklings, þá þarf jafnvel að spyrja sig:
-
- Er kominn tími á það að ég taki virkan þátt í starfi flokkanna? Með því að taka þátt í starfinu, getur þú mótað stefnumál og breytt því sem þér þykir til miður fara. Ef það eru ákveðnir flokkar sem þig líkar betur við en aðra, er kannski sniðugt að velta þessu upp. Flestir ef ekki allir flokkar taka vel á móti nýju kröftugu liðsfólki.
-
- Ætti ég að stofna minn eigin flokk? Á Íslandi getur hver sem er stofnað sinn eigin flokk. Ef að enginn stjórnmálaflokkur höfðar til þín þá er þetta mögulega lausnin. Til þess að flokkur geti boðið sig fram þarf þó visst margar undirskriftir. Nánar um það hér.
- Á ég að skila auðu? Það er mikill munur á því að sleppa því að mæta á kjörstað og að mæta en skila inn auðum kjörseðil. Ef þú sleppir því að mæta á kjörstað má túlka niðurstöðu þína þannig að þú viljir ekki að stjórnskipulagið (kosningarnar, lýðræðið, reglurnar) sé eins og það er á Íslandi. Ef að þú hins vegar skilar auðu, þá viðurkennir þú kerfið eins og það er en vilt ekki styðja þau framboð sem bjóða sig fram það kjörtímabil.
Fróðlegir tenglar:
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?