Hvað eru hugvísindi?

Hugvísindi eru akademískar greinar, sem þýðir að þær beita ekki raunvísindalegum aðferðum. Allt tungumálanám telst til hugvísinda sem og greinar eins og heimspeki, sagnfræði, bókmenntafræði og guðfræði.

Hvar eru hugvísindi kennd?

  • Háskóli Íslands býður upp á fjölbreytt nám í hugvísindum í fjórum deildum. Nálgast má upplýsingar um námsleiðir á heimasíðu hugvísindasviðs.
  • Í Háskólanum á Akureyri er kennd þverfagleg grein á sviði hugvísinda sem nefnist nútímafræði. Upplýsingar um námið má nálgast á heimasíðu skólans.
  • Í Háskólanum á Bifröst er kennt sameiginlegt nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Upplýsingar má finna á heimasíðu skólans.

Við hvaða starfar fólk með nám af hugvísindasviði?

Hugvísindagreinarnar eru jafn ólíkar og þær eru margar. Eins starfar hugvísindamenntað fólk á ýmsum ólíkum vettvangi: í fjölmiðlum, skólum, auglýsingastofum, skrifstofum, kirkjum, bókasöfnum, fyrirtækjum og svo mætti lengi telja. Hér fyrir neðan verður fjallað stuttlega um helstu greinar hugvísinda.

Bókmenntafræði

Almenn bókmenntafræði er hagnýtt nám sem eykur skilning á mannlegum samskiptum og listrænni tjáningu og veitir þjálfun í fræðilegum vinnubrögðum. Margir bókmenntafræðingar starfa við bókaútgáfu, á sviði fjölmiðla, auglýsinga og almannatengsla og við ýmsa menningarstarfsemi og listir.

Íslenska

Nám í íslensku er góður grunnur fyrir mörg og fjölbreytt störf. Íslenskumenntað fólk vinnur við kennslu á ólíkum sviðum, fræðastörf og rannsóknir. Margir leggja fyrir sig ritstörf eða annað á sviði menningar og lista, fjölmiðlun, útgáfu og fleira. Fólk sem er íslenskumenntað starfar gjarnan sem fréttamenn, blaðamenn, ritstjórar, málfarsráðgjafar, bókmenntagagnrýnendur og margt fleira.

Samfélagstúlkun

Nám á sviði samfélagstúlkunar og fjölmenningar er gagnlegt fyrir þá sem vilja verða sérfræðingar í miðlun á milli ólíkra menningarheima og vinna að aðlögun samfélags og einstaklinga í fjölmenningarsamfélagi. Námið nýtist í heilbrigðisgeiranum, skólakerfinu, dómskerfinu og í félagsþjónustu.

Þýðingarfræði

Menntun á sviði þýðingarfræða er gagnleg í mörgum og ólíkum störfum. Má þar nefna þýðingar á ýmsu menningarefni, verkefnum sem snúa að miðlun upplýsinga milli menningarheima á margvíslegu formi og störf á sviði alþjóðasamskipta og viðskipta. Auk þess starfa margir með menntun i þýðingarfræðum við ýmislegt í tengslum við textahönnun, útgáfu, markaðssetningu og fjölmiðlun.

Heimspeki

Menntunin eflir almennt greinandi og skapandi hugsun og veitir þjálfun í að ræða og útskýra hugmyndir og koma þeim frá sér í rituðu og töluðu máli. Heimspekinám veitir góðan grunn undir ólík störf innan samfélagsins, til dæmis ritstörf, blaðamennsku, störf hjá mennta- og menningarstofnunum og á sviði lista og stjórnmála.

Sagnfræði

Sagnfræðingar sinna fjölbreyttum og ólíkum störfum, til að mynda stjórnun, störfum hjá hinu opinbera, kennslu, útgáfu og fjölmiðlun.

Guðfræði og trúarbragðafræði

Þeir sem mennta sig á þessu sviði starfa innan ólíkra geira. Margir starfa sem prestar, eða við önnur störf innan kirkjunnar, en guðfræðimenntað fólk starfar einnig á sviði mennta-, mannúðar-, menningar- og félagsmála svo og viðskipta og samskipta. Einnig við kennslu og rannsóknir á öllum skólastigum, stjórnsýslustörf, söguritun og ýmis konar söguskýringar, auk bóka- og skjalavörslu.

Djáknanám

Djáknaembættið er sérstakt embætti innan kirkjunnar og eru djáknar vígðir af biskupi. Starf þeirra felst í líknar- og fræðslustörfum innan safnaða, að heimsækja aldraða og sjúka og sjá um fræðslu, t.d. barna- og unglingastarf. Einnig sinna þeir sálgæslu bæði í söfnuðinum og innan stofnana í samvinnu við presta.

Fornleifafræði

Fornleifafræðingar vinna oft á söfnum, við sýningar og fornleifauppgröft, rannsóknir og fræðastörf. Margir þeirra vinna sjálfstætt. Eins geta fornleifafræðingar unnið við fjölbreytt störf, til að mynda á sviði fjölmiðla.

Tungumálanám

Þeir sem mennta sig í tungumálum geta unnið við mörg og ólík störf. Til dæmis innan ferðaþjónustunnar við kynningar, leiðsögn og störf í menningartengdri ferðaþjónustu. Margir starfa einnig innan fjölmiðla, við blaðamennsku eða aðra miðlun. Einnig vinna margir við störf tengd viðskiptum og markaðssetningu, ritstörf, kennslu og þýðingar. Tungumálanámið stóreykur einnig atvinnumöguleika erlendis. Einnig er boðið upp á asísk fræði og Norðurlandafræði sem fela í sér ýmsa ólíka starfsmöguleika, til að mynda hvað varðar milliríkjasamstarf, milli einkaaðila sem og í hinum opinbera geira.

Táknmálsfræði

Þeir sem læra táknmálsfræði starfa oftast sem táknmálstúlkar, við rannsóknir og kennslu í táknmáli og ýmsu sem lítur að málefnum heyrnarlausra. Nám í táknmálsfræði er einnig góð viðbót við ýmsa aðra menntun og getur stóraukið starfsmöguleika á sviði kennslu, lög-, félags- og sálfræða svo fátt eitt sé nefnt.

Kvikmyndafræði og listfræði

Námið gagnast þeim sem vilja starfa innan listageirans, hafa áhuga á menningarumfjöllun, dagskrárgerð og fjölmiðlun eða sækjast eftir störfum í tengslum við söfn og listasýningar. Námið er góður grunnur fyrir þá sem vilja vinna við rannsóknir á sviði lista, fræðimennsku eða kennslu.

Almenn málvísindi

Námið veitir góða undirstöðu fyrir þá sem vilja starfa við rannsóknir og fræðastörf á sviði málvísinda, t.d. við háskólastofnanir. Námið er góð undirstaða fyrir hverskyns tungumála- og bókmenntanám og er einnig gott fyrir þá sem vilja leggja fyrir sig talmeinafræði og táknmálsfræði svo og nýtist við störf við tölvutækni og margmiðlun.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar