Þegar talað er um gervigreind kemur fyrst upp i hugann vélmenni í mannslíki, distópískar kvikmyndir eins og Matrix og Terminator eða sjálfkeyrandi bílar. Gervigreind spilar margar ólíkar rullur í lífi okkar í dag og er líkleg til að verða fyrirferðameiri eftir því sem fram líða stundir.  

Hvað er gervigreind?

Einfaldast er að skilgreina gervigreind sem algrím (e. algorithm) eða, röð af skýrum reglum sem leysa ákveðið verkefni sem venjulega er leyst af lifandi einstaklingum. Gervigreind er þannig persónugert algrím eða algrímur sem vinna saman, nýta sér reynslu sína og draga af þeim ályktanir.

Birtingarmyndir gervigreindar eru ólíkar en til útskýringar er gott að skoða Internetið og nýtingu okkar á því.  Flestir notendur Internetsins styðjast við Google Chrome (eða rúmlega 60% þeirra sem nota Internetið) eða álíka vafra. Inn í það er byggt kerfi sem leyfir vafranum að vista upplýsingar og breyta viðmóti sínu eftir hegðun þinni og notkun, ekki svo ólíkt því hvernig við sem manneskjur eigum í samræðum við hvort annað. Sama á við um flestar vefsíður og samfélagsmiðla, þeir lesa hegðun þína, vista efni sem þér líkar og senda þér efni sem reiknað er út að einstaklingar eins og þú kunnir að meta. Með öðrum orðum þá taka þeir inn upplýsingar og bregðast við, rétt eins og einstaklingar í hinum margvíslegustu kringumstæðum.

Gróflega byggir gervigreind þannig á þverfaglegu samtali nútímavísinda. Meðal annars tölvuvísindum, úrlausnar hæfni tölva til þess að leysa þau verkefni sem manneskjan setur fyrir hana, þeim félagsvísindum sem lýsa hegðun, hugsun og atferli mannsins og þeim margvíslegu heilbrigðisvísindum sem leitast við að mæla hegðun mannsins.

Áhrif á líf mitt

Þegar tölvuvísindi þróast og gervigreind verður skilvirkari og ódýrari kostur en að fá fólk til að leysa ákveðin verkefni mun það óhjákvæmilega hafa áhrif á mannlegt samfélag. Menntunarkerfi, heilbrigðiskerfi og almenningssamgöngur munu þá í auknum mæli reiða sig á gervigreind. Þannig verður hún afl til góðs á mörgum sviðum og líkleg til að auka velmegun en mun að sama skapi leysa mörg störf af hólmi sem nú eru unnin af manneskjum. Þessi þróun hefur oft verið kölluð fjórða iðnbyltingin, þar sem tækniframförum nútímans eins og gervigreind, Interneti hlutanna og róbotum er lýst og reynt er að gera grein fyrir áhrifum þeirra á samfélagið.

Gervigreind er forrituð af fólki

Ekki má gleyma að í grunninn er það fólk sem forritar algrím. Þeir eru því bundnir inn í sama grunn siðferðislögmála og við mannfólkið. Þannig getur gott fólk stuðst við gervigreind til þess að gera góða hluti og öfugt. Þetta gerir meðvitund um gervigreind mikilvæga í samfélaginu. Hvaða upplýsingar ert þú að veita ókunnugum á netinu í gegnum daglega notkun þína? Hvert fara þær upplýsingar? Að öllum líkindum er ekkert illmenni á bakvið vafrann sem þú notar til þess að skoða netheima í gegnum en það er mikilvægt að minna sig á að á bakvið hann eru samt einstaklingar sem hafa skoðanir, vilja og langanir.

Gagnrýnin hugsun

Í þessu samhengi má líta til umræðu um djúpfölsun (e. deepfakes) þar sem stuðst er við algrím til þess að breyta manneskju í aðra. Í röngum höndum getur slík tækni verið hættulegt vopn, einstaklingur algjörlega ómeðvitaður um kraft þeirrar tækni getur mjög auðveldlega látið plata sig. Til dæmis gæti pólítíkus látið útbúa umdeildar myndir af andstæðing sínum sem gæti tryggt honum forskot í kosningum. Það að fræða sig um tilvist og kraft slíkrar tækni getur virkað sem forvörn gegn krafti hennar yfir þér. Að móttaka upplýsingar með upplýstri og gagnrýnni hugsun er líklegra til þess að verða þér og heiminum til framdráttar.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar