Til hvers ætti ég að læra nýtt tungumál?
Á ferðalögum getur maður oft komist upp með að tjá sig á ensku eða með handapati, enda yfirleitt um einföld samskipti að ræða. Ef þú ætlar þér hins vegar að búa í öðru landi borgar sig yfirleitt að læra tungumálið, því þá aukast atvinnumöguleikar þínir talsvert og þú skilur samfélagið betur. Það munar miklu að geta spjallað við heimamenn, lesið blöðin og skilið málefni líðandi stundar. Jafnvel þó þú hyggir ekki á að búa erlendis er mjög gott að læra ný tungumál, því að þá aukast atvinnumöguleikar þínir, þú getur leitað þér heimilda víðar og átt í samskiptum við fólk með ólíkan menningarlegan bakgrunn og sýn á lífið. Fyrir utan að það að læra nýtt tungumál hægir á öldrun heilans, hjálpar þér að “múltí-taska” og gerir þig betri í þínu eigin móðurmáli.
Hvernig er best að læra tungumál?
Fólk lærir tungumál á mismunandi máta. Sumum finnst ekkert mál að stökkva í djúpu laugina og blaðra bara, á meðan öðrum finnst óyfirstíganlegt að láta frá sér setningu sem þeir vita að er málfræðilega röng. Það er því alls ekki víst að allar aðferðirnar hér að neðan henti öllum, en þær gefa þér samt einhverja hugmynd um hvernig þú getur lært tungumálin. Hafðu í huga að um leið og þú ert búin(n) að læra eitt tungumál er auðveldara að læra næsta, sér í lagi ef að málin eru skyld. Til dæmis, ef þú ert búin(n) að læra ítölsku er einfaldara fyrir þig að læra frönsku. Þetta á reyndar líka við um óskyld mál, því þú opnar hugann fyrir nýjum málfræðifyrirbrigðum, setningarfræði og þroskar máltilfinninguna þína.
Sökktu þér í málið með því að lifa og hrærast í því
Ein besta leiðin til að læra tungumál er að búa í samfélagi þar sem það er talað og umkringja sig fólki sem talar málið sem móðurmál. Það getur þú gert með því að flytja til lengri eða skemmri tíma. Margir fara í skiptinám þar sem þeir búa hjá fjölskyldu sem talar aðeins við þá á tungumálinu og sækja skóla sem kenndur er á þjóðartungunni. Svo getur þú einfaldlega flutt til annars lands og fundið þér vinnu eða sest á skólabekk. Athugaðu að það getur verið erfitt að fá vinnu ef þú talar ekki stakt orð í tungumálinu. Þó er oft hægt að finna vinnu þar sem tungumálakunnáttu er ekki krafist, til dæmis við ræstingarstörf.
Farðu í tungumálaskóla
Þú getur lært tungumál í tungumálaskólum bæði á Íslandi og erlendis. Það er auðvitað kostur að læra tungumálið í því landi sem það er talað, þá ertu í meiri snertingu við málið heldur en ef þú værir bara 2 kvöld í viku á íslenskum skólabekk. Þú getur lært tungumál á námskeiðum og í skólum.
Skólar á Íslandi:
- Allir framhaldsskólar á Íslandi kenna erlend tungumál. Sumir kenna bara ensku, dönsku og þriðja erlenda tungumálið (þýsku, spænsku og/eða frönsku) en aðrir kenna fleiri tungumál, t.d. rússnesku, latínu, esperantó, kínversku, forn-grísku, ítölsku og japönsku. Upplýsingar um námsframboð er á síðum skólanna.
- Háskóli Íslands kennir dönsku, ensku, frönsku, grísku, ítölsku, japönsku, kínversku, latínu, rússnesku, spænsku, sænsku, þýsku og grunn í arabísku.
- Mímir símenntun kennir fjölmörg tungumál. Þetta eru tungumálin sem boðið var upp á 2019: enska, norska, sænska, þýska, ítalska, spænska, finnska, pólska, japanska og arabíska.
- The Tin Can Factory í Borgartúni kennir aðallega íslensku, en líka ensku og býður upp á spjalltíma með kvöldverði þar sem fólki gefst kostur á að spjalla á öðrum tungumálum.
- Alliance Française Reykjavík kennir börnum og fullorðnum frönsku.
Ef þú veist um fleiri tungumálaskóla á Íslandi, láttu okkur þá vita í kommentakerfinu hér að neðan!
Skólar í útlöndum:
Áttavitinn hefur fjallað um tungumálanám erlendis í sérstakri grein um tungumálaskóla.
Lærðu tungumál á netinu
Fjölmargar síður bjóða upp á tungumálanám. Hér verður stiklað á stóru:
- Duolingo er mjög góður vefur þar sem þú getur lært nokkur tungumál. Vefurinn notar stigakerfi til að hvetja þig áfram og kennir þér málið í litlum köflum. Talsverð áhersla er á málfræði, sem og orðaforða. Þú getur séð hversu vel vinir þínir hafa staðið sig í að æfa sig og færð áminningu um að æfa þig sjálf(ur). Þú þarft ekki að byrja frá grunni ef þú kannt eitthvað í tungumálinu því þú getur tekið stöðupróf.
- Memrise er góð síða til að læra orðaforða og leturtákn. Þar eru orðin útskýrð myndrænt, en þannig er auðveldara að muna þau. Myndirnar eru yfirleitt þannig úr garði gerðar að þær tengja saman orðið á tungumálinu og mynd af einhverju sem hljómar svipað á ensku eða öðru velþekktu tungumáli. Þannig býr memrise til hugræna tengingu sem er sterkari en páfagaukalærdómur. Eins eru framandi leturtákn, eins og japanskt Katakana, kínversk tákn eða hindverskt tengilegur útskýrt með því að tengja saman hljóðið og svo mynd af einhverju sem lítur út eins og táknið og er af einhverju sem hljómar eins og hljóðið sem táknið túlkar.
Lestu barnabækur
Lestu bækur sem eru nógu auðveldar til að þú skiljir meginatriðin en nógu erfiðar til þess að vera krefjandi þannig að þú lærir nýjan orðaforða. Til að byrja með geta einfaldar barnabækur verið bestar og svo má færa sig í bækur fyrir stálpaða krakka. Það er sniðugt að lesa bækur sem þú hefur lesið áður og eru aðgengilegar á mörgum tungumálum, svo sem Le Petit Prince (Litli prinsinn) eða Lína Langsokkur. Þá getur þú borið saman þitt eigið tungumál og það sem þú ert að læra, eða þekkir í það minnsta söguna sem hjálpar þér að skilja orðin og samhengið. Svo getur þú fært þig í unglingabækur, því það er náttúrulega ekkert skemmtilegra en að lesa um sleik.
Umvefðu þig orðum og frösum
Ef þetta er alveg nýtt tungumál fyrir þér þá getur þú gjarnan sett miða á innanstokksmuni og hluti heima hjá þér með orðunum. Þetta kennir þér náttúrulega lítið nema að halda uppi samræðum um innanhúsarkitektúr en þetta er þó gott til þess að koma sér aðeins inn í ritháttinn og hljómfallið. Sér í lagi er þetta gott ef þú ert að taka fyrstu skref í nýrri stafagerð, því þá eru fyrstu skrefin óneitanlega þyngri en ella.
Horfðu á bíómyndir og hlustaðu á tónlist
Það eru til bíómyndir á flestöllum tungumálum. Vertu dugleg(ur) að horfa á bíómyndir á því tungumáli sem þú ert að læra. Þú getur byrjað á því að vera með texta á ensku eða íslensku, því þú græðir samt alveg fullt á því að heyra málið og tengja saman orðin á máli sem þú skilur, en seinna meir getur þú skipt yfir í texta á því tungumáli sem myndin er á, enda er oft auðveldara að skilja skrifuð orð heldur en sögð. Svo getur þú hlustað á tónlist til þess að æfa þig í framburði og orðanotkun.
Láttu þig hafa það -talaðu bara!
Ekki hafa of miklar áhyggjur af því að þú segir ekki alveg allt alveg rétt. Það skiptir ekki höfuðmáli. Víða eru hópar þar sem þú getur komist í kynni við heimamenn sem vilja æfa sig í ensku í skiptum fyrir að hjálpa þér að læra tungumálið þeirra. Þar sem Íslendingar eru almennt góðir í ensku þá geta slík skipti komið sér mjög vel (og þar að auki eru alveg dæmi um að slíkt hafi orðið að ástarsambandi!). Slíka umræðuhópa er best að gúgla, en til að mynda er stundum boðið á slíka viðburði á CouchSurfing eða í menningarhúsum.
Svo er líka sniðugt ráð að tala við börn, því að ung börn eru á svipuðu kunnáttustigi og þú. Þú getur reynt að fá vinnu á leikskóla eða frístundaheimili, ráðið þig sem Au Pair eða tekið þátt í æskulýðsstarfi, svo sem skátum eða íþróttastarfi til þess að komast í nálægð við börn.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?