Þriðja tungumál til stúdentsprófs
Til þess að ljúka stúdentsprófi af bóknámsbraut þurfa nemendur að leggja stund á þrjú erlend mál, auk móðurmáls. Allir nemendur þurfa að læra ensku og dönsku, en geta svo yfirleitt valið á milli spænsku, þýsku og frönsku. Í eldri aðalnámskrá frá 1999, sem sumir skólar fara eftir fram til hausts 2015, er gert ráð fyrir að nemendur ljúki a.m.k. 12 einingum í þriðja máli til að ljúka félagsfræða- eða náttúrufræðibraut. Á málabraut eru hins vegar gerð krafa um a.m.k. 15 einingar í þriðja máli og 9 einingar í fjórða máli.
Framsetning á kröfum í nýrri aðalnámskrá er öðruvísi. Þar er vísað í þá hæfni sem nemandi skuli búa yfir en ekki fjölda eininga. Hæfnin er tengd við hæfniþrep þar sem mest hæfni er á þriðja hæfniþrepi. Þar segir að bóknámsbrautir til stúdentsprófs skuli gera lágmarkskröfu um norrænt tungumál að hæfniþrepi þrjú og lágmarkskröfu um þriðja tungumál að hæfniþrepi tvö. Sama krafa gildir um norrænt tungumál á öðrum brautum til stúdentsprófs en á þeim brautum skal að auki valið um kröfur að hæfniþrepi tvö í þriðja tungumáli, samfélagsgreinum eða raungreinum. Þessi síðasta setning þýðir að ef stúdentspróf er tekið af til dæmis starfsnámsbraut þarf ekki endilega að taka þriðja tungumálið heldur má velja milli þess, samfélagsgreina og raungreina.
Til hvers þarf ég að læra þrjú erlend tungumál?
Að læra mörg tungumál veitir innsýn í menningu annarra þjóða og stuðlar að því að einstaklingurinn geti átt farsæl samskipti og samvinnu við fólk af öðru þjóðerni. Því fleiri tungumál sem einstaklingurinn lærir, því auðveldara er fyrir hann að læra ný tungumál. Ferðaþjónusta hefur færst mjög í aukana á Íslandi, svo þetta veitir nemendum aukin tækifæri í framtíðinni og oft eru góðir skólar í öðrum löndum sem bjóða ekki endilega upp á nám á ensku. Þetta eykur því tækifæri einstaklingsins, bæði til atvinnu, menntunar og upplýsingar.
Hvaða tungumál er best að velja?
Það fer alveg eftir þínu áhugasviði og því sem þig langar að gera í framtíðinni. Best væri náttúrulega að læra öll þrjú, en það er nú kannski aðeins of mikið, svona til að byrja með. Hér skulum við fara aðeins yfir kosti hvers tungumáls:
Franska
Franska hefur oft verið kölluð tungumál ástarinnar, enda þykir hún einstaklega kynþokkafull. Franska er næstútbreiddasta tungumál heims á eftir ensku, en enska og franska eru einu tungumálin sem eru opinber mál í öllum heimsálfum.
Hvar er franska töluð?
Töluð sem móðurmál, m.a. í Frakklandi, hluta af Belgíu, hluta af Sviss, Lúxemborg, Mónakó og hluta af Kanada. Opinbert tungumál í mörgum löndum í vestur Afríku, hluta Bandaríkjanna, ýmsum eyjum um alla jörð og fleiri ríkjum.
Franska er opinbert tungumál í 29 löndum og 17 sjálfstjórnarsvæðum í öllum heimsálfum.
Hversu margir tala frönsku?
74 milljónir (móðurmál)
340 milljónir (fyrsta og annað tungumál)
Af hverju á ég að læra frönsku?
- Franska er ekkert sérstaklega erfitt tungumál, -málfræðin einföld og framburðurinn ekki flókinn þegar maður er búinn að læra grundvallaratriðin. Hinsvegar er stafsetningin mjög erfið, enda heldur franskan í forna stafsetningu, þó að framburðurinn hafi breyst í gegnum aldirnar.
- Franska er vinnumál í mörgum stofnunum, svo sem hjá Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, Evrópuráðinu, NATÓ, Alþjóða ólympíusambandinu, Geimferðarstofnun Evrópu og síðast en ekki síst; Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva -douze points!
- Eins og fyrr segir er franska mjög útbreidd og að auki tala mjög margir hana sem annað eða þriðja tungumál og því líklegt að þú getir átt tjáskipti við stóran hluta jarðarbúa.
- Franska er mjög listrænt tungumál og var aðal samskiptatungumálið frá sautjándu öld og fram á miðja tuttugustu öldina. Það er því mikið af bókmenntaverkum og tónlist sem upphaflega eru samin á frönsku.
- Ef þú kannt frönsku er mun auðveldara fyrir þig að læra og skilja spænsku, ítölsku, portúgölsku og önnur rómönsk tungumál. Franskur orðaforði ætti að duga til að skilja a.m.k. skilti og auðvelda texta á hinum rómönsku tungumálunum.
- Frönskumælandi fólk er oft slakara í ensku en t.d. fólk frá öðrum Evrópulöndum (http://www.slate.fr/story/68577/francais-nuls-anglais) og því nauðsynlegra að kunna móðurmálið þeirra til að geta átt samskipti við þau.
Hvernig segi ég “Ég ætla að fá eitt langbrauð og vínglas með”?
“Je voudrais une baguette et un verre de vin.” –Hlusta á framburð.
Ekki sannfærð(ur)?
Skoðaðu málið betur með því að…
…horfa á Amélie, sem er krúttleg stelpa sem uppgötvar ástina.
…hlusta á Edit Piaff, söngkonuna knáu.
Spænska
Tungumál tapasrétta og myndarlegra mariachi-söngvara. Að læra spænsku opnar fyrir þér nýjan heim! Spænska er næststærsta móðurmálið sem talað er á jörðinni, á eftir mandarín kínversku. Spænska er hröð og skemmtileg og þróaðist úr latínu, líkt og franska.
Hvar er spænska töluð?
Töluð sem móðurmál, m.a. á Spáni, Bandaríkjunum, Mexíkó og Suður-Ameríku.
Spænska er opinbert tungumál í 22 löndum og 2 sjálfstjórnarsvæðum.
Hversu margir tala spænsku?
470 milljónir (móðurmál)
530 milljónir (samtals, sem tala spænsku).
Af hverju á ég að læra spænsku?
- Spænska er tiltölulega einfalt tungumál, oft talið það auðveldasta af þessum þremur.
- Spænska er eitt af vinnumálum Sameinuðu þjóðanna, en er þar að auki vinnumál fjölda alþjóðastofnanna.
- Jafnmargir tala spænsku á Spáni og í Bandaríkjunum, og er því spænskukunnátta ótvíræður kostur ef þú hyggur á að sækja um atvinnu í BNA, eins og svo margir Íslendingar, auk þess sem það eykur augljóslega atvinnumöguleika þína á Spáni og í Suður-Ameríku.
- Hópurinn sem hefur spænsku að móðurmáli er gríðarlega stór, svo að mikið er til af kvikmyndum, bókmenntaverkum, tónlist og fleiri listrænum verkum á spænsku.
- Áhrifum frá spænskumælandi löndum gætir víða í menningu og afþreyingu, aðallega vegna áhrifa spænskra innflytjenda á bandaríska menningu sem við komumst í snertingu við í gegnum vinsælar kvikmyndir, auglýsingar og tónlistarmyndbönd. Með því að læra spænsku öðlastu dýpri skilning á þessum áhrifum.
- Ef þú kannt spænsku er mun auðveldara fyrir þig að læra og skilja frönsku, ítölsku, portúgölsku og önnur rómönsk tungumál. Spænskur orðaforði ætti að duga til að skilja a.m.k. skilti og auðvelda texta á hinum rómönsku tungumálunum.
Hvernig segi ég: “Saltfiskurinn minn er úldinn, ég vil nýjan skammt!”?
Mi pescado bacalao esta dañado y quiero una porcion nueva. Hlusta á framburð.
Ekki sannfærð(ur)?
Skoðaðu málið betur með því að…
…sjá ótrúlegu ævintýramyndina Pan’s Labyrinth.
…læra að dansa tangó, sem er rosalega heitur dans.
Þýska
Mörgum þykir þýska helst til stirð og sumir tengja þýsku jafnvel aðallega við karlkyns klámmyndaleikara með hnausþykkan hreim. En þetta er auðvitað hinn mesti misskilningur, -þýska hefur haug af mójói og nýtist þér líka mjög vel.
Hvar er þýska töluð?
Töluð sem móðurmál í Þýskalandi, Austurríki og Lichtenstein og í hluta Sviss, Belgíu og Luxembourg.
Hversu margir?
120 milljónir (móðurmál)
200 milljónir (fyrsta og annað tungumál).
Af hverju á ég að læra þýsku?
- Þýska hefur dálítið flókna málfræði, en orðaforðinn kemur af sömu rótum og íslenska og enska svo maður kannast við mörg orðanna þótt maður hafi ekki lært þýsku áður.
- Þýska er útbreiddasta tungumál Evrópu og notað í mörgum stofnunum innan hennar. Þar sem málið er mjög nákvæmt og ýtarlegt er það mikilsmetið sem mennta- og vísindamál.
- Um 20% ferðamanna á Íslandi eru þýskumælandi og tækifærin í ferðamannabransanum því ótvíræð. Sem viðmið má nefna að frönskumælandi ferðamenn eru um 10% og spænskumælandi enn færri.
- Þýskaland er þriðja stærsta einstaka hagkerfið í heiminum og heimsmeistari í útflutningi. Það er því ekki vitlaust að læra þýsku ef þú hyggur á að verða viðskiptajöfur.
- Þýska er mikið internettungumál og .de er sú ending sem flestar vefsíður skarta, fyrir utan .com. Þú færð því aðgengi að ógrynni af upplýsingum ef þú lærir þýsku.
- Þýska er það tungumál sem Göthe, Marx, Nietzsche, Kafka, Mozart, Bach, Beethoven, Schubert, Brahms, Freud og Einstein hugsuðu á. Það hlýtur að segja eitthvað!
- Ef þú lærir þýsku er ekkert mál að læra hollensku og þú getur oft bjargað þér í Austur-Evrópu; betur heldur en á ensku.
Hvernig segi ég “Nautakjötsmerkimiðaeftirlitsverkefnaregluútsending”?
“Rindfleischetikettierungsüberwachungsaufgabenübertragungsgesetz”. Hlusta á framburð.
Ekki sannfærð(ur)?
Skoðaðu málið með því að…
…horfa á myndina Der Untergang, sem fjallar um Hitler á stríðsárunum.
…læra að jóðla. Í alvöru. Þú átt eftir að vinna Ísland got talent!
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?