Að deila því að þú sért trans, eða koma út sem karl/kona/kynsegin fyrir öðrum, getur verið flókið, sérstaklega þegar þú ert óviss um viðbrögðin. Hér eru leiðbeiningar sem hægt er að hafa í huga.

Hvað er að vera trans?

Það eru til margar leiðir til að vera trans en þær snúast fyrst og fremst um að vera með kynvitund (persónulega upplifun af kyni) sem passar ekki við það kyn sem viðkomandi fékk úthlutað við fæðingu. Trans fólk er alls konar. Sumt trans fólk hefur áhuga á að fara í kynleiðréttingarferli til að samræma þeirra líkama og félagslegt líf við sína kynvitund en það er mismunandi hvað hentar einstaklingum. Allt trans fólk á rétt á því að tjá kyn sitt á þann máta sem hentar því best.

Trans kona:  kona sem fékk karlkyni úthlutað við fæðingu en upplifir sig sem konu og er því kona.

Trans karl: er karl sem fékk kvenkyni úthlutað við fæðingu en upplifir sig sem karl og er þar af leiðandi karl.

Kynsegin manneskja: manneskja sem upplifir sig ekki einungis sem karl eða sem konu

Hefur þú séð Hinsegin orðabókina okkar? Þar eru nánari upplýsingar um alls kyns hinsegin hugtök!

Hvers vegna vil ég að fólk viti að ég er trans?

Það er auðvitað engin ein rétt leið til þess að koma út sem trans. Þér ber engin skylda til þess að segja frá því frekar en þú vilt. Undir sumum kringumstæðum getur þó verið gott að fólk viti af því. Hér eru nokkur dæmi:

  • Viltu breyta nafninu þínu?
  • Viltu að fólk noti annað fornafn þegar það vísar til þín? (hann/hán/hún)
  • Viltu gera stórtækar breytingar á útlitinu þínu?

HUGSAÐU UM ÞAÐ HVERNIG ÞÚ MYNDIR VILJA AÐ HLUTIRNIR BREYTIST VIÐ AÐ KOMA ÚT?

Er ég viss?

Það getur enginn sagt til um hvenær er rétti tíminn til að segja þínum nánustu og umhverfinu frá því að þú sért trans nema þú sjálf/t/ur. Sumt fólk tekur sér langan tíma í að velta þessu fyrir sér en annað fólk fer hraðar í hlutina. Það er ekkert eitt rétt í þessari stöðu, það fer eftir þér og þínum aðstæðum.

Hverjum segi ég fyrst frá?

Það er algjörlega undir þér komið hverjum þú segir fyrst. Veltu því fyrir þér hverjum þú treystir best fyrir upplýsingunum. Er sá aðili traustur? Virðir hann að þú ákveður sjálf/t/ur hvenær þú opnar þig með þetta fyrir fleirum? Viltu að það sé einhver mjög náinn þér? Eða viltu frekar segja kennara? Námsráðgjafa? Sálfræðing?

VALIÐ ER ÞITT

Hvernig segi ég fólki frá?

Það getur verið áskorun að byrja samræðurnar. Stundum þarf einfaldlega að þora að nefna þetta. Biðja fólk um að taka sér tíma í að hlusta og segja þeim frá því sem liggur þér á hjarta. Fólk gæti spurt þig nánar út í þetta og það er algjörlega undir þér komið hvernig og hverju þú svarar. Þú ræður hversu nákvæm svör þú gefur.

Ýmsar leiðir eru færar þegar kemur að því að segja fólki frá. Þú getur til dæmis valið að segja þeim það frá augliti til auglits, í gegnum skilaboð, bréf eða tölvupóst.

Mundu að þó svo að einhver taki þessum upplýsingum ekki vel, þá er það þeirra en ekki þitt. Það getur auðvitað verið særandi en sumir þurfa smá tíma til þess að melta það sem þú sagðir þeim. Upplýsingarnar gætu komið flatt upp á þann sem þú ert að tala við og því miður eru ekki allir vanir að vera í þeirri stöðu. Mundu bara að þetta er þitt val og umkringdu þig af fólki sem styður þig.

Samtökin 78 aðstoða trans fólk

Samtökin 78, félag hinsegin fólks á Íslandi, bjóða upp á ráðgjöf og fræðslu, meðal annars til trans fólks. Það er hægt að hitta ráðgjafa í einstaklingsviðtal og taka þátt í stuðningshópum. Fullum trúnaði er heitið. Ráðgjafar samtakanna hafa mikla reynslu af að ræða við trans fólk í öllum aldurshópum, bæði fólk sem er farið að lifa eftir sinni kynvitund og þau sem eru bara að velta þessu fyrir sér og eru ekki viss um hver er besta leiðin fyrir þau. Nú er hægt að panta ráðgjöf á heimasíðunni þeirra: www.samtokin78.is.

Hvernig styð ég vin minn sem er að koma út sem trans?

Það besta sem þú getur gert fyrir vin sem er að koma út er einfaldlega að vera til staðar. Sýndu þeim stuðning með því að:

  • Spjalla reglulega við vin þinn og spyrja hann hvernig honum líður.
  • Leiðréttu fólk ef það notar rangt nafn.
  • Stattu upp fyrir vini þínum ef einhver er að leggja hann í einelti.
  • Vertu óhrædd/ur við að eiga samræður við aðra um trans.

Heimildir

Þýtt og staðfært af TheMix 

Þá fengum við aðstoð sérfræðinga samtakanna 78 til að yfirfæra greinina og kunnum þeim bestu þakkir fyrir.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar