Að vera trans eða transgender er þegar einstaklingur samsamar sig ekki því kyni sem hann/hún/hán fæðist í. Einstaklingurinn upplifir sig af öðru kyni en líffræðin segir til um, til að mynda getur einstaklingurinn verið kona en með karlkyns líffæri og hormóna.
Hvað er transgender?
Transgender er griðarlega stórt regnhlífarhugtak sem að nær yfir fjöldann allan af hópum sem eiga það sameiginlegt að þeirra kynvitund, kyntjáning eða upplifun er á skjön við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu. Þar undir falla meðal annars flokkar á borð við transsexual, transvestite, genderqueer, genderfluid, non-binary, bigender, þriðja kynið, drag, o.s.frv. og er listinn alls ekki tæmandi.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að upplifun einstaklinga er mismunandi og er engin algild skilgreining eða upplifun rétt eða röng. Ekki allt transfólk fer í kynleiðréttingarferli og það transfólk sem gerir það fer mismunandi leiðir og undirgengst jafnframt ekki endilega kynfæraaðgerð þrátt fyrir að undirgangast hormónameðferð.
Rétt orðanotkun
Transfólk
Eitt af því mikilvægasta er rétt orðanotkun, en talað er um transfólk, transkonur, transkarlar og kynleiðréttingu. Transkonur eru einstaklingar sem var úthlutað karlkyn við fæðingu en leiðrétta í kvenkyn og transkarlar einstaklingar sem fengu kvenkyn úthlutað við fæðingu en leiðrétta í karlkyn.
Persónufornöfn
Það er gríðarlega mikilvægt að tala um transfólk í réttu kyni og nota þau fornöfn sem að þau nota burtséð frá hvernig einstaklingur lítur út eða hvaða persónulegu skoðun þú hefur. Sumt transfólk kýs einnig að nota kynlaus fornöfn á borð við “hán”. Það er mjög dónalegt að vera kallaður “það”. Ef það er óljóst hvaða fornafn skal nota, endilega spurðu viðkomandi hvaða fornafn þau vilji nota.
“Kynskiptingur” er úrelt og óviðeigandi hugtak
Annar algengur misskilningur er að tala um transfólk sem kynskipting og tala um kynskiptiaðgerð. Þessi orð gefa ranga mynd af einstaklingum og aðgerðinni. Transfólki finnst rangt að tala sé um þau sem „kynskiptinga”, þar sem í rauninni eru einstaklingarnir ekki að skipta um kyn heldur láta leiðrétta það. Flest vilja láta tala um sig sem trans (transkona, transmaður, transfólk) en ekki kynskipting. Einnig má benda á að orðið kynskipti vísar til endurtekinnar sífellu sem á alls ekki við í þessu tilfelli. Eins er með orðið „kynskiptiaðgerð” sem ætti í raun að vera kynleiðréttingaraðgerð vegna þess að það er, jú, verið að leiðrétta kyn einstaklings með aðgerð.
Hugtök og útskýringar
Í hinsegin samfélaginu eru orðið trans (sem er stytting á orðinu transgender) er oftast notað sem regnhlífarhugtak yfir flókinn og fjölbreytilegan heim transfólks. Orð sem falla þar undir eru t.d. transsexual, klæðskiptingur (transvestite), androgyne, genderqueer og fleira. Í þessari grein er fyrst og fremst fjallað um það sem kallast transsexual, enda hefur það verið mest opinbert í umræðunni hér á Íslandi.
- Transsexual: Ýmsir rugla saman hugtökunum transsexual og klæðskiptingur. Að vera transsexual er að samsama sig ekki því kyni sem viðkomandi var úthlutað við fæðingu. Konur sem fæddust með dæmigerð kyneinkenni karla eru trans konur og karlar sem fæddust með dæmigerð kyneinkenni kvenna eru trans menn. Sumir trans einstaklingar skilgreina sig utan tvíhyggjunar og því hvorki sem karl né konu. Trans einstaklingar kjósa stundum að gangast undir hormónameðferð og kynleiðréttingaraðgerð.
- Klæðskiptingur: Sá/sú sem er klæðskiptingur klæðist fötum annars kyns.
- Dragdrottningar og draggkóngar: Að klæðast dragi er sú listgrein að koma fram í ákveðnu kynhlutverki, gjarnan í öðru kyni, í formi skemmtunar og listar.
Þess vegna…
- …er talað um transfólk, en ekki kynskiptinga.
- …er orðið kynskiptingur neikvætt þar sem það hefur fengið á sig neikvæða merkingu í gegnum tíðina og er mísvísandi, þar sem einstaklingur er ekki að skipta um kyn, heldur láta leiðrétta það.
- …er transkona einstaklingur sem fæðist líffræðilega karlkyns og lætur leiðrétta kyn sitt í kvenkyn.
- …er transmaður einstaklingur sem fæðist líffræðilega kvenkyns og lætur leiðrétta kyn sitt í karlkyn.
- …er talað er um kynleiðréttingaraðgerð eða kynleiðréttingu en ekki kynskiptiaðgerð (þar sem einstaklingur er að láta leiðrétta kyn sitt).
Það eru mörg hugtök í hinseginheiminum sem gott er að kynna sér vel. Greinin Hinsegin frá A-Ö fer yfir fjöldamörg hugtök.
Að upplifa sig sem trans
Þau sem upplifa sig sem trans eiga oft í erfiðleikum með að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að þau séu trans. Sumir transgender einstaklingar átta sig á því á barnsaldri og sýna merki frá 1,5 árs aldri. Aðrir átta sig ekki á því fyrr en seinna; um kynþroskaaldurinn eða á fullorðinsárunum. Það getur verið erfitt að takast á við þessar tilfinningar og víða fyrirfinnast fordómar í samfélaginu gagnvart transfólki. Það er mikilvægt að fjölskylda og vinir styðji viðkomandi og taki ákvörðun hans um hvers konar kynleiðréttingu, nafnabreytingu eða breytingu á persónufornöfnum með opnum örmum.
Það er ágætt að skoða greinina Það sem þú skalt ekki segja við transfólk til að átta þig á hvers konar framkoma er viðeigandi.
Hvert er hægt að leita?
Það eru ýmsir staðir sem einstaklingar geta leitað til ef þá vantar meiri upplýsingar, stuðning eða einfaldlega spjall.
- Fyrst má nefna Trans-Ísland sem er félag transfólks á Íslandi. Félagið heldur úti mánaðarlegum fundum fyrsta miðvikudag hvers mánaðar í húsnæði Samtakanna ’78 á Suðurgötu 3. kl. 20:00. Hægt er að hafa samband í gegnum facebook-síðuna, í tölvupósti trans@samtokin78.is eða hringja í síma 824-2615.
- Á Norðurlandi eru hinsegin baráttusamtökin Hin – Hinsegin Norðurland sem geta veitt frekari upplýsingar og stuðning ef þörf er á.
- Formlegt teymi innan Landspítala vinnur að málefnum transfólks og halda utan um ferlið til kynleiðrettingar og allt sem tengist því. Hægt er að komast í samband við teymið með því að panta tíma hjá Óttari Guðmundssyni á Læknastöðinni í Kringlunni í síma 568-6811 eða senda tölvupóst á ottarg@landspitali.is með erindi.
Frekari upplýsingar og heimildir
- Samtökin ’78
- Trans Ísland
- Mynd eftir Ólaf Kr. Ólafsson.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?