Ferlið samanstendur af mörgum skrefum sem sjálf kynleiðréttingaraðgerðin er aðeins lokaskrefið á. Ferlinu er gjarnan skipt niður í þrjá meginhluta sem eru:
- Undirbúningsferlið – Til að getað byrjað í ferlinu þarf fyrst að hafa samband við tiltekinn geðlækni sem sér um málefni transfólks. Í samráði við hann fer einstaklingurinn að lifa í því kynhlutverki sem hann eða hún telur sig eiga að vera, klæða sig eins og einstaklingur af því kyni, ganga undir öðru nafni, o.s.frv. Einnig þarf einstaklingur að taka nokkur sálfræði- og geðpróf áður en haldið er á næsta stig. Undirbúningsferlið tekur að jafnaði eitt ár en getur verið mismunandi langt eftir einstaklingum.
- Hormónaferlið – Á þessu stigi hefur einstaklingur gengið í gegnum próf hjá geðlækni og getur byrjað hormónagjöf. Inntaka kven- eða karlhormóna breytir t.d. fitumyndun, vöðvamassa og hárvexti líkamans. Einnig fær einstaklingurinn svokölluð stopphormón, sem stöðva ríkjandi kynhormón og auka virkni karl eða kvenhormónanna sem gefin eru. Eftir að minnsta kosti eitt ár má einstaklingur undirgangast kynleiðréttingaraðgerð og þarf einstaklingur alltaf að vera á hormónum, líka eftir aðgerð. Eftir ákveðin tíma í ferlinu getur einstaklingur líka fengið lagalega nafnbreytingu hjá Þjóðskrá en fram að því verður viðkomandi að hafa gamla nafnið á sinni kennitölu.
- Aðgerðin – Margir sem gengið hafa í gegnum þessi tvö skref ákveða að fara í aðgerð. Aðgerðin sjálf er talsvert flókin og er líffræðilegt kyn einstaklings leiðrétt til að samsvara því kyni sem einstaklingurinn upplifir sig. Einnig undirgangast einstaklingar ýmsar aðrar aðgerðir, svo sem brjóstastækkun, fjarlægingu brjósta, hárrótareyðingu, legnám og fleira. Einnig má nefna að sumir einstaklingar kjósa ekki að fara í sjálfa kynleiðréttingaraðgerðina. Ferlið tekur mislangan tíma og getur spannað frá alveg þremur árum upp í tíu ár. Núna er hægt að undirgangast aðgerðina hér á landi og geta einstaklingar fengið að ljúka ferlinu innan um fjölskyldu sína í stað þess að þurfa að ferðast til útlanda í aðgerð eins og tíðkaðist áður fyrr.
Hvert er hægt að leita?
Það eru ýmsir staðir sem einstaklingar geta leitað til ef þá vantar meiri upplýsingar, stuðning eða einfaldlega spjall.
- Fyrst má nefna Trans-Ísland sem er félag transfólks á Íslandi. Hópurinn hittist fyrsta miðvikudag hvers mánaðar í Regnbogasal Samtakanna ‘78 kl. 20:00. Hægt er að hafa samband í gegnum facebook-síðuna, í tölvupósti (transiceland@gmail.com) eða hringja í síma 824-2615. Á Norðurlandi eru hinsegin baráttusamtökin Hin – Hinsegin.
- Norðurland sem geta veitt frekari upplýsingar og stuðning ef þörf er á (facebook: Hin – Hinsegin Norðurland).
Frekari upplýsingar og heimildir
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?