Hvenær ferðu í aðgerðina?
Af hverju finnur fólk sig knúið til að spyrja um kynfærin á fólki? Jafnvel bláókunnugu fólki! Ekki spyrja hvort eða hvenær viðkomandi fari í aðgerð. Athugaðu líka að kynleiðréttingarferli snýst um meira en skurðaðgerðir og yfirleitt er ekki um eina aðgerð að ræða, heldur röð aðgerða. Sumt trans fólk kýs að fara í skurðaðgerðir, sumt trans fólk ekki, -það kemur þér bara ekkert við. Ef viðkomandi hefur áhuga á að deila með þér upplýsingum um klofið á sér, þá gerir hún það bara á sínum forsendum og á þeim tímapunkti sem henni finnst það rétt.
Það sem þú átt að gera: Kyngdu forvitninni. Ef til vill deilir manneskjan upplýsingum um kynleiðréttingarferlið með þér. Ef til vill ekki.
Hvað héstu áður? EÐA: Hvað heitirðu í alvörunni?
Það kemur þér ekki við. Margir trans einstaklingar vilja hefja nýtt líf þegar þeir hefja kynleiðréttingarferlið og loka þeim kafla þar sem þeir gengu undir öðru nafni. Íslensk mannanafnalög eru ennþá þannig að karlkyns einstaklingur skal heita karlkyns nafni og öfugt, sem þýðir að fólk fær ekki að breyta nafninu sínu lagalega séð fyrr en á ákveðnum punkti í kynleiðréttingarferlinu. Það getur verið býsna óþægilegt fyrir manneskju að upplifa sig sem konu, líta út sem kona, tjá sig sem kona en svo stendur Friðjón á debetkortinu.
Það sem þú skalt ekki segja við trans fólk: Notaðu nafnið sem manneskjan kynnir sig með. Punktur.
Ertu stelpa eða strákur?
Það getur alveg verið skiljanlegt að þú sért ekki viss um hvernig manneskja sem þú þekkir lítið upplifir sig og það er allt í lagi að viðurkenna þá óvissu. “Ertu stelpa eða strákur” er hins vegar ekki rétta leiðin.
Það sem þú átt að gera: Hlustaðu á hvernig manneskjan kynnir sig og hvaða persónufornafn hún notar. Ef þú ert í vafa, spyrðu frekar hvaða persónufornafn manneskjan kjósi. Athugaðu að það upplifa sig ekki allir transgender einstaklingar sem annað hvort karl eða konu. Sumir gætu hafa valið sér annað orð heldur en “hún” eða “hann”, eins og til að mynda “hán” eða “hín” sem eru kynfrjáls persónufornöfn. Viðkomandi gæti einnig viljað að lýsingarorð séu beygð í hvorugkyni, t.d. “Hán er fljótt að hlaupa og duglegt í að þjálfa sig”. Trans fólk vill frekar vera spurt heldur en að vitlaus fornöfn séu notuð. Það getur verið erfitt að breyta um talsmáta, en gerðu þitt allra besta og ef þú ruglast skaltu bara biðjast fljótt afsökunar og halda áfram með samtalið.
Hvenær ákvaðstu að þú værir karl?
Eh, hvenær ákvaðst þú að þú værir karl? Þetta er ekki ákvörðun, í flestum tilfellum hefur einstaklingurinn verið meðvitaður um þetta allt sitt líf. Hvers konar ákvörðun um að fara í kynleiðréttingu snýst ekki um val, heldur einfaldlega að gera það eina rétta í stöðunni; að lifa í samræmi við það kyn sem maður upplifir sig sem.
Það sem þú átt að gera: Almennt séð áttu bara ekkert að vera að spyrja um þetta, því þetta kemur þér ekki við. Ef að mikið traust er á milli þín og viðkomandi einstaklings gætir þú spurt hvenær einstaklingurinn hafi áttað sig á því að hann væri trans eða hvenær einstaklingurinn hafi ákveðið að segja sínum nánustu frá því.
Vá, þú hefðir getað platað mig! Þú ert ALVEG eins og kona!
Trans fólk er ekki að reyna að plata neinn. Það vill bara líta út í samræmi við það kyn sem það upplifir sig, hvaða kyn sem það er á kynjarófinu.
Ekki koma heldur með athugasemdir eins og “Veistu, ef þú myndir greiða þér aðeins öðruvísi þá værir þú miklu kvenlegri” eða “Hefurðu íhugað að fara í raddþjálfun?”.
Það sem þú átt að gera: Ef þú vilt hrósa útliti viðkomandi, hrósaðu þá bara hárinu, pilsinu eða hverju sem þú myndir hrósa hverjum sem er. Að auki vill Áttavitinn minna á að einlæg hrós um persónuleika eða framtak fólks eru miklu heppilegri en útlitshrós, sama hvort um trans fólk eða sís-fólk er að ræða, þó að þau megi vissulega fljóta með.
Hvernig ríðurðu?
Ja, hvernig ríður þú? Kynlíf er alls konar og snýst í fæstum tilfellum einvörðu um að stinga parti A inn í part B. Þessi spurning er óþörf og bara ekki viðeigandi, nema mögulega ef þið eruð bæði nakin og jafn spennt fyrir að hafa mök.
Það sem þú átt að gera: Ef þú ert svona rosalega forvitin(n) um þetta skaltu bara bjóða einstaklingnum á deit og sjá hvernig fer. (Mundu bara að deit er ekki sama og samþykki fyrir kynlífi).
Bíddu, ha, heillastu þá ekki af körlum fyrst þú ert núna kona?
Kynvitund hefur ekkert að gera með kynhneigð, -það eru einfaldlega frekar óskyld fyrirbrigði. Transgender einstaklingur getur verið samkynhneigður, gagnkynhneigður, pankynhneigður, fjölkynhneigður, ókynhneigður, tvíkynhneigður eða eitthvað annað.
Það sem þú átt að gera: Ekki öllum finnst þægilegt að láta spyrja sig um kynhneigð sína. Hver veit nema einstaklingurinn segi þér það bara sjálfur! Bara ekki draga neinar ályktanir vegna kynvitundar viðkomandi.
Heimildir:
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?