Hvað stendur á launaseðlinum?

0
7546

Athugið! Myndband miðast við skatta eins og þeir voru 2012. aðrar tölur eru uppfærðar fyrir árið 2023.

Allir launþegar fá launaseðil frá vinnuveitandanum sínum, ýmist inn á heimabankann eða útprentaðan. Launaseðillinn geymir allar upplýsingar um laun, orlof og frádrátt; launatengd gjöld, skatta og annað.

Efst á launseðlinum eru yfirleitt að finna hagnýtar upplýsingar.

Þar kemur fram nafn launþega og vinnuveitenda, kennitölur, heimilisföng og reikningsnúmer sem launin er lögð inn á.

Þar fyrir neðan koma mánaðarlaunin.

 • Margir fá greidda fasta upphæð fyrir mánaðarvinnu og starfshlutfallið kemur þá fram í prósentum.
 • Aðrir fá greidda tímavinnu; þ.e. tímakaup margfaldað með tímafjölda á mánuði.
 • Auk þess fær fólk stundum greidda yfirvinnu en það er sú vinna sem er unnin utan dagvinnutíma. Þessar tölur eru saman mánaðarlaunin fyrir skatt.

Ofan á þessa upphæð geta þó lagst aðrar greiðslur, eins og matarpeningar, dagpeningar eða akstursgjald en það fer allt eftir kjarasamningum hverju sinni.

Athugið að þetta er ekki sú upphæð sem lögð er inn á bankareikninginn við hver mánaðarmót.

Af öllum launum þarf að greiða skatta og önnur gjöld.

 • Þar á meðal er útsvar og tekjuskattur. Útsvarið rennur til þess sveitarfélags sem launþeginn býr í.
 • Tekjuskatturinn rennur til íslenska ríkisins.
 • Saman heitir þetta á launseðlinum staðgreiðsla.

Skattþrepin eru þrjú:

Fólk greiðir mismikinn skatt í prósentum talið eftir því hversu mikið það þénar:

 1. Af tekjum milli 0 – 409.986 kr. (31,45% skattur).
 2. Af tekjum milli 409.987 – 1.151.012 kr. (37,95% skattur).
 3. Af tekjum yfir 1.151.012 kr. (46,25% skattur).

Persónuafsláttur veitir afslátt af staðgreiðslu.

Árið 2023 er persónuafslátturinn 59.665 krónur á mánuði og dregst hann frá þeirri upphæð sem launþegi á að greiða í skatta.

Allir greiða í stéttarfélag.

Félagsgjöld eru mishá eftir félögum, en yfirleitt eru þau eitthvað í kringum 0,3 – 0,7% af heildarlaunum. Einnig greiðir fólk oft í starfsmannafélög innan fyrirtækisins.

Þó er ekki skylda að vera í stéttarfélagi.

Þeir sem ekki vilja vera í stéttarfélagi verða samt að greiða þangað iðgjald sem er þá greiðsla til félagsins fyrir að sinna þeirri þjónustu sem félagið veitir, meðal annars með kjarasamningsgerðinni. Stundum er þetta gjald kallað vinnuréttargjald. Meira um félagsgjöld séttarfélaga á vef ASÍ 

Hinsvegar er skylda að greiða í lífeyrissjóð.

 • Öllum sem starfa á vinnumarkaði er hinsvegar skylt að greiða 4% af launum sínum í lífeyrissjóð hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Lífeyrissjóðsgreiðslur safnast ekki upp hjá einstaklingnum, heldur renna í sameiginlega hít samborgaranna.
 • Sumir kjósa að greiða 2 til 4 % í viðbótarlífeyrissparnað, en það er séreignarsparnaður sem launþeginn safnar sér.
 • Allar lífeyrissjóðsgreiðslur eiga að koma fram á launaseðlinum.

Útborguð laun.

Þegar búið að draga þetta frá laununum, þ.e. staðgreiðslu, lífeyrissjóðsgreiðslu og félagsgjöld í stéttar- og starfsmannafélög, stendur eftir summan; útborguð laun. Hún á einnig að koma fram á launaseðlinum. Það er upphæðin sem lögð er inn á bankareikninginn.

Nánari upplýsingar um persónuafslátt, lífeyrisgreiðslur, stéttarfélög og margt fleira er að finna hér á Áttavitanum.

Orlofsgreiðslur eiga einnig að koma fram á launaseðlinum.

Öllum vinnuveitendum er skylt að greiða starfsfólki sínu orlof. Orlofslaun eru yfirleitt 10,17% af heildarlaunum og eru þau ýmist greidd út mánaðarlega, lögð inn á orlofsreikning eða veita fólki rétt á launuðu sumarfríi. Upplýsingar um orlofsgreiðslur á fólk að geta fundið á launaseðlinum sínum.

Launaseðill hefur tvo dálka.

Annar þeirra inniheldur tölur þessarar útborgunar, en hinn inniheldur upphæðirnar frá áramótum, samanlagðar.

Launaseðlarnir líta ekki endilega allir eins út.

Þó svo að allir launaseðlar líti ekki nákvæmlega eins út eiga allar þessar upplýsingar að koma fram á þeim. Góð regla er að skoða launaseðilinn vandlega um hver mánaðarmót og ganga úr skugga um að allt sé eins og það eigi að vera.

Getur verið að gleymst hafi að færa inn skattkortið og maður sé ekki að nýta persónuafsláttinn?

Myndbandið er frá RSK.

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar