Hvað er skattframtal?

Skattframtal er staðfesting á öllum þeim tekjum, eignum og skuldum sem þú áttir á skattárinu sem leið. Réttar upplýsingar þurfa að berast skattstjóra svo hægt sé að reikna út skatta og bætur.

Hvernig skila ég skattframtali?

Framtalið er fyllt út á netinu, þú skráir þig inn á síðu skattsins með aðgangi sem þú færð sendan í heimabanka eða með rafrænum skilríkjum. Hér má finna ítarlegar leiðbeiningar um hvernig telja skuli telja fram.
Ef þú hafðir aðeins launatekjur á árinu er þetta einfalt mál því stærstur hluti upplýsinganna er fyrirfram útfylltur á framtalinu.

Hvar skila ég skattframtal?

Skattframtali er skilað inn á skattur.is. Einnig er hægt að skila framtalinu skriflega til skattstjóra í því umdæmi sem þú áttir lögheimili í 31. desember á árinu sem leið. Langtum einfaldara og fljótlegra er að skila framtalinu á netinu.

Hvenær?

Árið 2023 er skiladagur skattframtals 14. mars. Hægt er að sækja um skilafrest inn á skattur.is. Yfirleitt er skiladagur skattframtals um miðjan eða seinnipart mars á hverju ári.

Get ég fengið aðstoð við skil á skattframtali?

Orator, félag laganema við Háskóla Íslands býður árlega upp á framtals aðstoð á háskólasvæðinu.

Hvað gerist ef skattframtali er ekki skilað?

Ef framtali er ekki skilað hefur skattstjóri ekki upplýsingar til að reikna út rétta skatta. Skattar eru því lagðir á samkvæmt áætluðum tekjum og eignum. Ef framtali er ekki skilað á réttum tíma og ekki hefur verið sótt um frest þá hefur skattstjóri heimild til að beita álagi, sem verður til þess að skattgreiðslur hækka.

Hvað gerist svo?

Niðurstaða álagningar liggur fyrir í síðasta lagi þann 31. maí og birtist á þjónustuvef Skattsins. Þeir sem greiddu of mikla staðgreiðslu fá endurgreiðslu en hinir sem ekki greiddu nóg þurfa að greiða það sem upp á vantar. Það er greitt með jöfnum greiðslum á tímabilinu 1. júní til 1. desember. Ef í ljós kemur að gjöldin eru ekki réttilega ákvörðuð er rétt að kæra álagninguna til skattstjóra og þá þarf að gæta þess að kæran berist til skattstjóra fyrir 31. ágúst og er hægt að gera það rafrænt hér.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar