Í þessari grein munum við fara yfir góð ráð til að hafa í huga þegar kemur að því að semja um laun.

Að semja um laun í nýju starfi sem þú sóttir um

Til hamingju, atvinnurekandi hefur sýnt áhuga á að fá þig til starfa! En áður en þú hefur störf þarf að ganga frá kaupum og kjörum.

Hvenær áttu að tala um laun?

Í ráðningarferlinu er yfirleitt betra að minnast ekki á laun að fyrra bragði fyrr en það er búið að bjóða þér starfið. Ráðningaraðilar minnast samt oft á það í viðtali þannig að það er nauðsynlegt að hafa undirbúið sig fyrir það samtal.

Hvernig get ég undirbúið mig?

Það eru nokkrir hlutir sem hægt er að gera áður en þú ræðir laun í starfsviðtal. Í fyrsta lagi skaltu hugsa hvað þú hefur áhuga á að fá í laun (á raunsæjum nótum auðvitað), hvað ertu tilbúin/n að sætta þig við og hvort það sé einhver algjör lágmarks upphæð sem þú getur ekki farið undir (t.d. hvað þarftu mikið til að greiða leigu og önnur útgjöld).

Hérna getur verið gott að ræða við fólk í kringum þig (eða í þessum tiltekna bransa) til að fá tilfinningu fyrir hvaða launatölur séu við hæfi og sporna gegn því að þú sért að undirselja sig. Þú getur leitað þér upplýsinga hjá VR og séð hvaða launataxtar þú átt rétt á sem passa við þitt starf . Í öðru lagi skaltu undirbúa rökstuðning fyrir öllum þínum kröfum og leggja áherslu á hvað þú kemur með þér inn í starfið og fyrirtækið.

Segjum sem svo að þér voru boðin laun undir því sem þú hafðir í huga. Þá er hægt að leggja dæmið upp einhvern veginn svona: „Algeng laun í þessu starfi fyrir starfsmann með mína reynslu er X kr. Svo hef ég einnig menntun/reynslu/eitthvað annað umfram það sem er krafist í starfi sem myndi skila sér í ávinningi fyrir fyrirtækið“ (myndir að sjálfsögðu segja hvernig). Það er auðvitað mikilvægt að vera kurteis og ekki setja þetta upp sem einhverja afarkosti, en ef þér finnst launin ekki sanngjörn og þú getur rökstutt það skaltu ekki hika við að koma því á framfæri.

Í þriðja lagi skaltu skoða hvað eru sanngjörn eða eðlileg laun fyrir þetta tiltekna starf. Hægt er að nálgast upplýsingar um lágmarkslaun og meðallaun hjá stéttarfélögum og Hagstofu (sjá tengla að neðan). Athugið að fyrir sum störf þarf að taka með í reikninginn reynslu, menntun o.fl. þegar svona samanburður er gerður. T.d. er í sumum störfum eðlilegt að vera eitthvað undir meðaltali ef þú hefur enga starfsreynslu, á meðan í öðru skiptir það minna mál.

Á ég að nefna ákveðna upphæð ef þau biðja mig um það?

Það eru skiptar skoðanir um hvort það sé betra að fyrsta tilboðið komi frá atvinnurekandanum eða þér. Hins vegar er algengara hjá yngra eða reynsluminna fólki að undirselja sig og nefna of lága upphæð í byrjun, svo sum fyrirtæki reyna að nýta sér það með því að biðja þig um að koma með fyrsta tilboðið. Í þeim aðstæðum er gott að leggja áherslu á að þú hafir mikinn áhuga á starfinu og launin eru ekki það eina sem þú ert að pæla í. Ef það er áfram þrýst á þig er gott að hafa í huga að atvinnurekandinn veit í flestum tilvikum betur en þú hvað er eðlileg laun fyrir þetta starf og veit ALLTAF betur hvað fyrirtækið getur boðið. Það er því alveg rökrétt að biðja þau um að koma með tilboð (sem er þá hægt að semja um líkt og er sýnt að ofan). Oftast er þetta nóg til að fá tillögu frá þeim, en ef það er ennþá þrýst á þig að koma með svar er hægt að koma með rökstudda tölu byggða á undirbúningsvinnunni sem þú hafðir gert fyrir viðtalið.

Samræðan gæti þá t.d. litið svona út:

Atvinnurekandi: „Hvaða laun varstu svo með í huga?“

Þú: „Mér finnst mikilvægast að starfið sé áhugavert, að ég geti passað vel í það og hafi möguleika að vaxa í starfi. Ef það er til staðar er ég tilbúinn/n að skoða öll sanngjörn tilboð“.

Atvinnurekandi: „Og hvað telur þú vera sanngjarnt tilboð?“

Þú: „Mér finnst líklegast að þið vitið betur en ég hvað eru algeng og sanngjörn laun fyrir þetta starf. Hvað voruð þið með í huga?“

Atvinnurekandi: „Ég er ennþá forvitinn hvað þér finnst um þetta. Hvaða laun ertu með í huga?“

Þú: „Eins og ég sagði að þá veist þú það líklega betur en ég, en mér sýnist að algeng laun í þessu starfi fyrir starfsmann með mína reynslu er X kr. Þannig að eitthvað í kringum það gæti verið ágætur staður til að byrja samræðurnar á. Hvað finnst þér?“

Get ég beðið um eitthvað annað en bara hærri laun?

Já það er klárlega hægt að biðja um önnur fríðindi í launasamræðum og í mörgum tilvikum hentar það jafnvel betur fyrir báða aðila. T.d er hægt að biðja um ákveðin hlunnindi eins og fleiri frídaga, niðurgreiðslu á hádegismat (ef það er mötuneyti), niðurgreiðsla á námi sem nýtist í starfi, þægilegra vaktaplan og önnur fríðindi sem eiga við.

Hversu sveigjanleg/ur á ég að vera?

Þó að þú viljir ekki láta svindla á þér er samt mikilvægt að sýna skilning og vera tilbúin/n að koma til móts við atvinnurekandann ef það á við. Ef atvinnurekandinn getur ekki boðið þér mikið á þessum tímapunkti er líka hægt að semja (og jafnvel setja í samninginn) um að launin verði endurskoðuð eftir ákveðinn tíma. Á þeim tímapunkti er síðan auðveldara að færa rök fyrir hærri launum ef þú hefur staðið þig vel og þau vilja halda þér.

Er einhvern tímann sem er ekki hægt að semja um laun?

Það er mismunandi hversu mikinn sveigjanleika fyrirtæki hafa í kjaramálum. Í flestum tilvikum er þó oftast eitthvað svigrúm til breytinga, að því gefnu að þú getir rökstutt mál þitt vel. Í störfum hjá hinu opinbera er þó erfiðara að semja um slíkt þar sem laun eru oft bundin við launaflokka samkvæmt kjarasamningum. Svo er gott að hafa í huga að það er oftast auðveldara að biðja um hlunnindi eða „soft benefits“ frekar en hreina launahækkun.

Get ég misst atvinnutilboðið ef ég bið um hærri laun?

Margir hræðast það að semja um laun af ótta við að vera ólíklegri til að fá starfið. Ef þú hefur neðangreind atriði eftirfarandi hluti að neðan í huga er hins vegar nánast undantekningarlaust það versta sem gerist að þú færð bara hreint nei og að þau geti ekki boðið betur.

  • Þú ert alltaf kurteis og heldur jákvæðum tón. Þú ert að skipuleggja sem besta framtíð fyrir þig og fyrirtækið SAMAN.
  • Þú sýnir meiri áhuga á starfinu sjálfu heldur en laununum og ert spennt/ur að hefja störf.
  • Rökstyður allar þínar kröfur eins og hægt er. Ef þú getur ekki rökstutt hærri laun að þá skaltu hugleiða hvort það séu yfir höfuð forsendur að biðja um hærri laun.
  • Setur þessar launaumræður ekki upp sem einhverja afarkosti (nema þú sért í raun og veru tilbúin/n að hafna starfinu ef þau bjóði ekki betur).

Hvernig á ég að tryggja að það sé staðið við allt sem við sömdum um?

Þegar þið hafið náð samkomulagi um öll atriði er mikilvægt að fá það skriflegt í samningi. Endilega passaðu sérstaklega að öll hlunnindi ofan á föst laun séu rétt í samningnum.

Að óska eftir launahækkun í núverandi starfi

Í vel reknum fyrirtækjum eru regluleg starfsmannasamtöl þar sem frammistaða starfsmannsins er skoðuð og svo athugað hvernig viðkomandi starfsmaður getur vaxið í starfi. Þetta er hins vegar ekki alltaf gert og því er það góður vani sem starfsmaður að óska reglulega eftir starfsmannasamtali. Í þessum starfsmannasamtölum er síðan oft grundvöllur að ræða laun og ræða hvort launahækkun sé möguleiki.

Hvenær er viðeigandi að ræða hærri laun?

Í flestum tilvikum er gott að minnsta kosti 6-12 mánuðir séu síðan síðasta launahækkun/launasamræður áttu sér stað (nema að annað hafi verið rætt). Ef atvinnurekandi segir að þetta sé ekki heppilegur tímapunktur til að ræða launamál skaltu endilega ákveða einhverja tímasetningu í framtíðinni (t.d. eftir 3-6 mánuði) til að taka aftur upp þráðinn. 

Hvernig get ég undirbúið mig?

Það eru nokkrir hlutir sem hægt er að gera áður en þú verð í launatengt starfsmannasamtal. Í fyrsta lagi skaltu skoða upplýsingar um lágmarkslaun og meðallaun hjá stéttarfélögum og Hagstofu (sjá tengla að neðan) fyrir þitt starf. Auðvitað þarf að taka með í reikninginn reynslu, menntun o.fl. þegar svona samanburður er gerður en þetta getur gefið þér hugmynd um hvar þú stendur. Í öðru lagi skaltu skoða hvernig þú hefur vaxið í starfi síðan síðasta launasamtal átti sér stað og hvað þú gefur til fyrirtækisins. Ertu búin/n að standa þig vel í starfi? Ertu búin/n að axla meiri ábyrgð í starfi? Ertu búin/n að bæta við þig menntun/fara á námskeið/læra sérstaklega eitthvað í starfi? Hefur starf þitt breyst (ertu t.d. að fást við sambærileg verkefni og í öðrum betur borguðum stöðum)?

Alla þessa þætti er hægt að nýta sem rökstuðning fyrir launahækkun.

Hvað á ég að gera ef það er ekki séns að hækka launin?

Þá er gott að meta hversu ósátt/ur þú ert með núverandi laun og hvort þetta sé grundvöllur til að byrja að líta í kringum sig. Ef þú ert ánægð/ur í starfi og kannt vel við þig að öðru leyti er það kannski óþarfi, en það er auðvitað ekki gaman að vera í starfi þar sem þér finnst þú vera mjög undirlaunuð/aður. Það er líka mjög gott að spyrja atvinnurekandann hvað þú getur gert til þess að verðskulda hærri laun. Þarftu að axla meiri ábyrgð? Er einhver hlutur sem þú þarft að bæta þig í? Er eitthvað vinnutengt markmið sem myndi sanna fyrir þeim að þú átt skilið hærri laun?

Passaðu að svörin frá þeim séu skýr og helst mælanleg. Þannig að í staðinn fyrir „þú verður bara að standa þig aðeins betur“ skaltu fá nákvæmari skilaboð eins og „ef þú selur 20% meira á næstu 3 mánuðum, mætir aldrei seint (sem var kannski vandamál) og tekur að þér að þjálfa þennan yngri starfsmann (meiri ábyrgð) að þá getum við rætt um hærri laun“. Svona er hægt að byggja upp rökstuðning sjálfur fyrir launahækkun og stíga skref að því að gera sig ómissandi.

Mundu að það er nánast undantekningalaust ódýrara að halda góðum starfsmanni og gefa þeim hærri laun heldur en að finna nýjan starfsmann, þjálfa viðkomandi og svo lenda jafnvel í svipaðri stöðu eftir nokkra mánuði.

Önnur góð ráð?

  • Vertu alltaf kurteis og fagmannleg/ur.
  • Legðu áherslu á að þú vilt vera áfram hjá fyrirtækinu og viljir standa þig í starfi, þér finnist bara núverandi laun ekki sanngjörn.
  • Rökstyður allar þínar kröfur eins og hægt er. Ef þú getur ekki rökstutt launahækkun, þá skaltu hugleiða hvort það séu yfir höfuð forsendur að biðja um hærri laun.
  • Setur þessar launaumræður ekki upp sem einhverja afarkosti (nema að þú sért í raun og veru tilbúin/nn að fara annað ef þau bjóða ekki betur).

Höfundur:
Breki Bjarnason
Atvinnuráðgjafi Hins Hússins

Meðallaun eftir atvinnugrein
Launatafla VR
Launatafla Eflingar
Launareiknivél VR
Launareiknivél Hagstofunnar

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar