Hvernig eru ófrjósemisaðgerðir gerðar á konum?

Ófrjósemisaðgerð er aðgerð sem framkvæmd er með kviðarholsspeglun í svæfingu. Eggjaleiðurum er lokað þannig að egg og sáðfruma mætast ekki.

Hversu örugg getnaðarvörn er ófrjósemisaðgerð á konu?

Öryggi ófrjósemisaðgerða er nánast 100%.

Hvernig virkar ófrjósemisaðgerðir á konum?

Eggjaleiðurum er lokað með því að setja á þá klemmur eða plasthringi. Stundum er notast við brennslu eða þeir eru klipptir í sundur og í einhverjum tilfellum fjarlægðir alveg. Egg kemst þá ekki niður eggjaleiðarana og sáðfrumur komast ekki upp til móts við eggið. Þannig er komið í veg fyrir að frjóvgun geti orðið.

Hverjir eru helstu kostir ófrjósemisaðgerða á konum?

 • Aðgerðin er mjög örugg getnaðarvörn.
 • Hún hefur ekki áhrif á líkama konunnar, hvorki á blæðingar né kynhvöt, enda hefur konan áfram egglos.
 • Getnaðarvörnin er varanleg.
 • Aðgerðin er konunni að kostnaðarlausu skv. lögum.

Hverjir eru helstu ókostir við ófrjósemisaðgerðir á konum?

 • Aðgerðin getur haft í för með sér aukaverkanir, en þær eru sjaldgæfar.
 • Aðgerðin getur krafist sjúkrahússvistar og það tekur nokkra daga að jafna sig eftir hana.
 • Yfirleitt þarf konan að fara í svæfingu.
 • Einstaka sinnum geta eggjaleiðararnir opnast aftur ef að klemmurnar detta af og þá getur konan orðið þunguð. Það er samt mjög ólíklegt og sjaldgæft.
 • Erfitt er að tengja eggjaleiðarana saman aftur og því er töluvert mikil hætta á að konan geti ekki orðið frjó á ný.

Nánar um ófrjósemisagðerðir á konum.

 • Umsókn um ófrjósemisaðgerð þarf að vera skrifleg.
 • Umsækjandi þarf að hafa náð 25 ára aldri til að fara í valkvæma ófrjósemisaðgerð.
 • Aðgerðin er varanleg.
 • Mikilvægt er að hafa hugleitt þessa ákvörðun mjög vel og vera þess fullviss að maður vilji ekki eignast börn í framtíðinni.
 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar