Börn eru mjög mismunandi einstaklingar. Sum eru róleg á meðan önnur eru mjög virk. Sum börn hlusta illa á líkamann sinn og eiga fyrir vikið erfitt með að tjá sig um hvað amar að. Síðan eru til börn sem eiga erfitt með beytingar og nýjungar. Öll börn eiga það þó sameiginlegt að þurfa góðan svefn og getur það verkefni reynst foreldrum mis auðvelt/erfitt.

Talað er um að raunveruleg þörf barna fyrir svefni endurspeglist í fríum fjölskyldunnar, þegar allir eru slakir, hvernig sefur barnið þá?

Hlutverk svefns

Svefn er okkur lífsnauðsynlegur og þegar við missum svefn má segja að veikleikar okkar ýkist upp. Ef við erum skapstór erum við til dæmis enn skapmeiri þegar við höfum lítið sofið. Það skiptir meira máli að sofa vel en að sofa lengi. Þó eru til ákveðin viðmið um það hvað börn þurfa að sofa lengi.

Foreldrar hugið að sínum eigin svefni líka!

Það á við um alla að lítill svefn geri mann pirraðri og ósammvinnuþýðari. Foreldrar eru engin undantekning þar og þurfa að muna að huga að sínum svefni jafnt sem svefni barnsins. Þá er almenn vellíðan líka mikilvæg, bæði fyrir foreldra og börnin. Foreldri sem líður illa, smitar út frá sér. Því er gott ráð að vera meðvitaður um eigin tilfinningar og beina reiðinni í aðra átt en að uppeldinu. Þegar barn vaknar um miðja nótt er í lagi að vera latur og þreyttur og það er í raun mikilvægt að barnið upplifi slíkar tilfinningar frá foreldrinu. Barnið þarf þó alltaf að finna fyrir ást og umhyggju.

Tafla yfir hversu mikinn svefn börn þurfa. flokkað eftir aldursbili

Hvenær er heppilegt að flytja barn í eigið svefnherbergi?

Æskilegt er að breytingin eigi sér stað frá 5-9 mánaða aldri – eða eftir 15 mánaða aldurinn.

Mælt er með því að börn sofi í sérherbergi eða í herbergi með systkini sínu frá 5-9 mánaða aldri. Sum börn eiga erfitt með að sjá foreldra sína á næturnar án þess að biðja um eitthvað. Það getur það bæði verið truflandi fyrir svefn barna og foreldra að sofa í sama herbergi. Sum börn eiga það til að vakna stuttu eftir að foreldri kemur inn í svefnherbergið að sofa. Sumir foreldrar eiga það til að vakna við minnsta brölt í barninu og þá stundum að sinna því of fljótt, jafnvel áður en það biður um það.

Rumsk í svefni

Það er eðlilegur hluti af svefni að rumska. Börn geta brugðist ólíkt við því að rumska í svefni; því þarf stundum að þjálfa það upp hjá þeim að venjast því að rumska og fara rólega aftur í dýpri svefn. Ef barn rumskar meira þegar það sefur annarsstaðar en heima hjá sér, þá er yfirleitt óöryggi sem skýrir það. Fólk rumskar almennt meira þegar það er stressað. Ef umhverfið er kvíðavaldandi þarf að bregðast við því og vinna í að hafa það afslappaðra.

Hvernig eru aðstæður í herberginu? Er mikill hávaði? óreiða? of mikil birta? allt þetta skiptir máli.

Rútína

Svefnrútína er afar mikilvæg fyrir börn. Mælst er til þess að foreldrar haldi uppi ákveðinni rútínu þegar barn er undirbúið fyrir svefninn. Rútínan getur falið í sér að setja nýja bleyju á barn, klæða það í náttföt, fá mjólkurgjöf fyrir nóttina, slökkva ljós, knúsa, syngja rólegt lag og bjóða góða nótt. Þegar barnið er orðið eldra getur verið gott að lesa fyrir það og svo má ekki gleyma tannburstuninni þegar fyrsta tönnin mætir á svæðið.

Daglúrinn

Eðlilegt er fyrir ung börn að taka sér lúr yfir daginn. Þó eru nokkrir hlutir sem ber að hafa í huga en þó sérstaklega einn. Mælt er með því að lengsta vaka barns sé fyrir nóttina.

Tafla yfir æskilega lengd daglúra barna, flokkað eftir aldursbili

Fer barnið ekki að sofa?

Hafið þið prófað að láta barnið skipta um umhverfi? Oft hjálpar það við að venja börn af slæmum svefnvenjum. Biðjið nákomna aðila um að passa barnið yfir nótt. Oft sofa börn betur í nýju umhverfi, ef það er raunin er kjörið að nýta sér það. Þegar barnið kemur heim úr næturpössun er gott að hafa breytt svefnumhverfi barnsins, jafnvel bara örlítið, það færa rúmið getur til dæmis borið árangur.

Veikindi barna

Veikindi geta skiljanlega truflað svefn. Ef að barn sefur skyndilega illa, gæti verið ágætt að athuga hvort að veikindi séu orsökin fyrir því. Meðal veikinda sem valda svefntruflunum má nefna njálg, ofnæmi, exem, hægðatregðu, bakflæði og öndunarsýkingar. Einnig getur ástæðan verið stórir nef- og hálskirtlar.

Virkar ekkert?

Hafið þið reynt allt og ekkert gengur? Barnið vaknar allt of oft og engin læknisfræðileg ástæða fyrir því? Hringurinn Barnaspítali býður uppá ráðgjöf fyrir foreldra sem eiga barn eða börn með svefnvanda. Hægt er að hafa samband við Barnaspítalann í síma 543-3700.

Heimildir: 

Arna Skúladóttir, fyrirlestur í Hinu Húsinu 23. október 2018.

Heilsuvera – Ung börn

Barnaspítali Hringsins – Börn með svefnvanda.

Hvað þurfa börn að sofa mikið? – National sleep foundation

Bókin Draumaland eftir Örnu Skúladóttur.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar