Stundum teljum við dagana. Hvenær byrja ég á túr? Er ég kannski ólétt? Yfirleitt er það þó lítið fagnaðarefni þegar að nærbuxurnar fyllast af blóði og oft fylgja því drullumiklir verkir, sem eru hreint ekki til að létta lundina.  Sumt fólk elskar að fara á túr,  það er frábært. Við hin óskum ykkur bara til hamingju og höldum áfram að væla yfir óréttlæti heimsins. Hér eru nokkur ráð til að draga úr verkjunum.

Hvað eru túrverkir?

Túrverkir eru verkir sem koma á undan eða samhliða blæðingum. Verkirnir eru oft krampakenndir og eiga sér stað í kvið og mjaðmagrind. Túrverkir geta verið mildir og til lítilla óþæginda en geta líka verið svo miklir að þeir trufla daglegt líf viðkomandi.

Það sem gerist þegar fólk fer á túr er að legslíman bólgnar í leginu, brotnar niður og fer út um leghálsinn (og er sumsé það sem við köllum tíðablóð). Til þess að brjóta niður legslímuna losna efnasambönd sem valda því að legveggirnir dragast saman, æðar þrenjast í legslímunni og hún deyr. Legið dregst saman til að þrýsta blóðinu út og það eru í raun túrverkirnir.

Túrverkir eru tvenns konar:

Fyrsta stigs túrverkir eru eðlilegir og stafa ekki af neinum undirliggjandi vandamálum. Þeir koma oft fram snemma eftir að manneskja byrjar á blæðingum í fyrsta sinn.

Annars stigs túrverkir stafa af öðrum kvillum eða sjúkdómum og koma oftast fram síðar á ævinni. Sjúkdómar sem geta valdið annars stigs túrverkjum eru til dæmis endómetríósa (legslímuflakk), góðkynja bandvefsæxli og bólgur í æxlunarfærum.

Hreyfðu þig!

Já. Ég veit þetta hljómar fáránlega. Þig langar ekkert frekar en að liggja í fósturstellingunni uppi í rúmi og í mesta lagi halda augum opnum til að horfa á þrjúhundraðasta þáttinn af Grey’s Anatomy.  En hreyfingin hjálpar, í alvöru! Farðu út að ganga, það er mjög gott. Eða í jóga, það virkar líka.

Verkjalyf

Óeðlileg inntaka af verkjalyfjum getur verið hættuleg; ávanabindandi eða farið illa með lifrina í þér. Það er hins vegar alveg eðlilegt að leyfa sér að taka eina og eina töflu þegar verstu verkirnir herja á. Íbúfen virkar best við túrverkjum, en það er bólgueyðandi. Parasetamól dugar líka við mildum túrverkjum. Athugaðu þó að fylgja ráðlögðum dagskammti lyfjanna.

Getnaðarvarnir með hormónum

Hormónagetnaðarvarnir svo sem pillan, hormónalykkjan og hringurinn, draga úr myndun prostaglandína sem eru efnasambandið sem lætur legið dragast saman. Þannig minnka oft túrverkirnir (og þú verður ekki barnshafandi og blæðingarnar verða reglulegri og allt það). Koparlykkjan getur hins vegar gert verkina verri.

Stundaðu kynlíf!

Jebbs. Það hjálpar að fá fullnægingu. Stundaðu sjálfsfróun eða kynlíf! Við fullnægingu dragast kviðvöðvarnir saman og heilinn framleiðir efni eins og oxýtósín sem er náttúrulegt verkjalyf. Ef þér finnst óþægilegt að stunda kynlíf með einhverjum öðrum þegar þú ert á túr geturðu notað Beppy túrtappana eða pantað þér Softdisc, sem er eiginlega eins og einnota álfabikarar, en mjúkir, þannig að þú getur stundað kynlíf án þess að það séu blóðslettur upp um alla veggi. Softcup eru ekki til sölu á Íslandi ennþá en Beppy fæst meðal annars í íslensku vefversluninni Meyja.is.

Notaðu hitapoka

Það getur hjálpað að setja hitapoka við kviðinn. Ef þú átt ekki hitapoka geturðu fyllt gosflösku með heitu vatni og vafið inn í handklæði eða þvottapoka. Þú getur líka farið í heitt bað. Hiti opnar æðarnar og eykur blóðflæði, sem dregur úr sársauka.

Ekki drekka koffín

Koffín dregur saman æðarnar, sem eykur krampa. Koffín er að finna í kaffi, sumum te-tegundum og í orkudrykkjum. Fáðu þér bara kamillute í staðinn, það á að geta hjálpað.

Hvenær á að leita læknis?

Ofangreindar tillögur gætu hjálpað þér að draga úr verkjunum en ef þeir eru virkilega slæmir og fara ekki þá gætir þú þurft að leita læknis.  

  • Verkurinn er lengur en þú átt að venjast.  Ef að verkurinn hverfur ekki eftir að blæðingum lýkur ættirðu að leita læknis.

  • Ef þú færð hita.

  • Ef þér verður mjög óglatt og kastar upp.

  • Þér blæðir meira en venjulega.

  • Þú heldur að þú gætir verið ólétt.

Kvensjúkdómalæknar svara spurningum um túrverki og geta hjálpað þér að finna bestu leiðirnar til að tækla þá. Kvensjúkdómalæknar geta líka kannað hvort einhverjar undirliggjandi ástæður séu fyrir miklum túrverkjum.

Heimildir:

Medical Daily 

Medical News Today 

Vísindavefurinn 

Organic Authority 

Everyday Health  

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar