Blæðingar koma í hverjum mánuði, oftast á 28 daga fresti þegar stelpa er orðin kynþroska. Með blóðinu losnar egg og slímhúð út úr líkamanum.
Hvenær byrja stelpur á blæðingum?
Algengast er að stelpur fái sínar fyrstu blæðingar á aldrinum 11-13 ára. Sumar stelpur geta þó byrjað á blæðingum 8 ára en aðrar ekki fyrr en eftir 16 ára aldur. Fyrstu blæðingar eru yfirleitt mjög litlar, oftast er það brúnn blettur sem kemur í nærbuxurnar. Þegar stelpa byrjar að hafa blæðingar er það merki um að hún sé orðin kynþroska og að allir hlutar kynfæranna séu byrjaðir að starfa eðlilega. Hún getur því orðið ólétt ef hún hefur kynmök við strák.
Er eðlilegt að hafa óreglulegar blæðingar?
Mjög algengt er að blæðingar séu óreglulegar fyrstu 2 árin eftir að þær byrja. Stundum geta liðið allt að 2-3 mánuðir á milli blæðinga. Það getur tekið u.þ.b. 2 ár að fá reglulegan tíðahring; þangað til er líkaminn að aðlagast hormónum. Sumar konur hafa óreglulegar blæðingar lengur en það. Gott er að merkja blæðingar inn á dagatal til að fylgjast með tíðarhringnum. Einnig eru til ótal öpp sem hægt er að nota til að fylgjast með tíðarhringnum og fylgifiskum hans.
Hvað eru fyrirtíðaverkir og túrverkir?
Fyrirtíðaverkir kallast verkir sem sumar stelpur finna fyrir í kviðnum nokkrum dögum fyrir blæðingar og stundum meðan á þeim stendur. Það eru efni í líkamanum (prostaglandín) sem valda þessum verkjum með því að láta sléttu vöðvana í leginu dragast saman. Þessir verkir geta verið mismiklir hjá stelpum. Bólumyndun í húð, aum brjóst, þreyta og verkir í baki geta m.a. fylgt fyrirtíðaverkjum.
Gott ráð við tíðaverkjum er að setja hitapoka yfir neðri hluta kviðsins eða taka verkjatöflur. Hreyfing hefur líka góð áhrif á tíðaverki.
Hvað er eðlileg lengd blæðinga?
Í hverjum mánuði vara blæðingar í u.þ.b. 3-7 daga, en það er mismunandi eftir einstaklingum hvort blæðingarnar vara í 3 daga eða 7 daga. Konur eru á blæðingum einu sinni í mánuði meðan þær eru á barneignaraldri. Í kringum 45 ára aldurinn hætta margar konur að hafa blæðingar en sumar hætta þó ekki fyrr en um 50 ára aldur.
Hvað er eðlilegt að blæði mikið þegar maður hefur blæðingar?
Það er misjafnt hversu mikið blóð kemur í hverjum blæðingum en oftast er það ekki nema hálfur bolli. Þetta blóðtap hefur því sjaldan áhrif á líkamann. Gott getur þó verið að borða járnríka fæðu meðan á blæðingum stendur. Hægt er að nota dömubindi, túrtappa eða álfabikar til að taka við blóðinu meðan á blæðingum stendur.
Á heilsuvefnum 6h.is má lesa meira um blæðingar og kynþroska, notkun dömubinda, túrtappa og álfabikars og margt fleira.
Hvað er endómetríósa?
Endómetríósa er krónískur og sársaukafullur sjúkdómur sem orsakast af því að endómetríósufrumur setjast á yfirborðsþekju ýmissa líffæra, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum og valda þar bólgum. Undir venjulegum kringumstæðum fara þessar frumur út úr líkamanum við blæðingar. Blóðið kemst ekki í burtu og geta myndast bólgur, blöðrur og jafnvel samgróningar milli líffæra og innan kviðarholsins sem og annars staðar í líkamanum.
Endómetríósa hefur fundist í öllum helstu líffærum líkamans en algengast er að frumurnar finnist í æxlunarfærum (s.s. legi, eggjastokkum, eggjaleiðurum) og kviðarholi.
Hver eru einkenni endómetríósu?
Helstu einkenni endómetríósu eru mikill sársauki við og fyrir blæðingar, miklar og/eða óreglulegar blæðingar, verkir í kviðarholi milli blæðinga, sársauki við egglos, samfarir, þvaglát og hægðir. Endómetríósa getur valdið ófrjósemi.
Talið er að 5-10% þeirra sem fæðast með leg séu með endómetríósu.
Nánar má lesa um endómetríósu á vefnum endo.is.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?