Hvað eru álfabikar og mánabikar?
Álfabikarar og mánabikarar eru margnota bikarar sem taka við tíðablóði á meðan blæðingum stendur og koma því í stað dömubinda eða túrtappa. Álfabikarinn er gerður úr 100% gúmmíi og mánabikarinn gerður úr glæru sílíkoni. Tíðabikararnir eru um 5 sm á lengd og taka 30 ml af blóði, en meðalkonan missir um 80-100ml við hverjar blæðingar. Bikararnir endast í 10 ár og til eru tvær stærðir; A -fyrir konur sem hafa fætt barn og B -fyrir konur sem ekki hafa fætt börn, eða hafa aðeins gengist undir keisaraskurð.
Hvernig á að nota tíðabikar?
Uppsetning álfabikarsins
- Taktu um bikarinn og brjóttu barmana í tvennt. Myndaðu U með börmunum, þannig að opið taki minna pláss en útþanið. Komdu bikarnum fyrir í leggöngunum, nógu hátt svo þú finnir ekki fyrir honum, en ekki of hátt. Bikarinn þarf ekki að sitja jafn hátt og túrtappi.
- Ofarlega á bikarnum eru lítil göt sem hleypa út lofti svo að bikarinn opnist almennilega. Það blæðir þó ekki út um þessi göt, svo að litlar líkur eru á að bikarinn leki.
- Tryggðu að bikaropið sé útþanið, því annars getur lekið meðfram. Það geturðu gert með því að taka um neðri hluta bikarsins og snúa honum í hálfhring.
- Stundum ertir litla typpið neðan á bikarnum leggöng konunnar. Þá má einfaldlega klippa helminginn af, eða jafnvel allt typpið.
Að fjarlægja álfabikarinn
- Bikarinn þarf að tæma á 4-12 tíma fresti.
- Til að taka bikarinn út geturðu einfaldlega togað í litla typpið neðan á bikarnum. Ef að þér gengur illa að ná taki er betra að taka bara utan um allan botninn á bikarnum og toga hann út. Þú getur þrýst á bikarinn innan frá með kvið- og grindarbotnsvöðvum til að auðvelda þér að fjarlægja bikarinn.
- Ef þér gengur ill að ná bikarnum út: Stundum, sérstaklega í fyrstu skiptin sem kona notar bikarinn, getur verið erfitt að ná honum út. Þá geturðu setið á hækjum þér, því að þá styttirðu leggöngin og hefur betra aðgengi að bikarnum. Taktu vel utan um botninn á bikarnum og dragðu hann út.
- Þú getur helt blóðinu beint í klósettið um leið og þú tekur bikarinn út. Athugaðu að ef að blóðið er mikið getur þurft að sturta tvisvar til að það fari allt, svona ef þér finnst eitthvað ógeðslegt að skilja eftir botnfylli af blóði í klósettinu. Þú getur líka helt því í vaskinn eða jafnvel safnað því ef þú vilt stunda svartagaldur eða vökva með því blómin, (ekki samt vökva kryddjurtir með tíðarblóði. Það er ógeðslegt).
- Ef þú hefur aðgang að vaski er gott að skola bikarinn með heitu vatni. Ekki nota sápu með ilmefnum og ef þú notar sápu skaltu skola hann vel á eftir.
- Bikarinn er svo geymdur í litlum taupoka sem fylgir með bikarnum.
Til að koma sér í rétta stuðið er góð hugmynd að hlusta á lagið Blóð með Hljómsveitinni Evu, sem einmitt er óður til tíðablóðs.
Að hreinsa tíðabikar
Álfabikar (gúmmí)
Til að sótthreinsa hann má nota edikslausn: 1 hluti af borðediki á móti 4-6 hlutum af vatni, látið hann liggja í ½ -1 klukkustund og skolið síðan vel í hreinu vatni. Þetta bæði sótthreinsar og tekur lykt ef einhver er.
Mánabikar (sílíkon)
Þú getur hreinsað bikarinn eins og álfabikarinn, en einnig má sjóða hann í 5-7 mínútur. Hægt er að nota sýklahreinsunartöflur sem yfirleitt eru ætlaðar til að hreinsa dót fyrir ungbörn. Þá skal fylgja leiðbeiningum um útþynningu töflunnar. Ekki má nota spritt.
Það eru til ýmsar gerðir tíðabikara og best er að fara eftir leiðbeiningum hvers fyrirtækis, sem lesa má í fylgiseðli eða á vefsíðu fyrirtækis.
Kostir og gallar tíðabikars
Yfirburðir tíðabikarsins eru ótvíræðir:
- Bikarinn endist í 10 ár og því líklegt að hver kona þurfi að kaupa sér 3-4 bikara. Á miðað við núverandi verðlag eru það útgjöld undir 25 þúsund krónum. Kjósi kona að nota túrtappa, þá eru það um 11.400 stykki á lífsleiðinni, sem kostar konuna um 250 þúsund. Notkun túrtappa er því tíu sinnum dýrari lausn.
- Bikarinn er umhverfisvænasta lausnin. Ímyndaðu þér 11.400 túrtappa í landfyllingu. Bættu um betur og ímyndaðu þér sama fjölda af dömubindum í haug. Oj! Fyrir utan hóflegar umbúðir skilur bikarinn ekkert eftir sig nema bikarinn sjálfan að sínum lífdaga loknum.
- Bikarinn er hentugur og fjölnota. Þú þarft aldrei að hlaupa út í búð til að kaupa fleiri tappa.
- Bikarinn geymir þrisvar sinnum meira blóð en túrtappi og af honum stafar engin sýkingarhætta. Þú þarft því að skipta sjaldnar.
Gallar bikarsins:
- Það er þægilegast að geta skolað bikarinn við losun, en til þess þarftu klósett með vaski sem helst er ekki í sameiginlegu rými. Í sumum evrópskum íbúðum og einstaka íslenskum er klósettið í sérherbergi og vaskur og sturta í öðru. Það getur verið leiðinlegt að þurfa hlaupa með bikarinn um sameiginleg rými. Á almenningsklósettum eru oft básar og svo vaskar fyrir öll klósettin. Þó eru klósett fyrir fatlaða á flestum stöðum og þar er yfirleitt aðgengi að vaski.
- Upphafskostnaðurinn er svolítill, en bikar kostar um 6000 krónur, sem er sama upphæð og meðalkonan notar í túrtappakaup á einu ári. Hann er þó fljótur að borga sig upp, enda endist hann í 10 ár.
Hér má sjá skemmtilegt rímnaflæðisbattl á milli tveggja gengja; túrtappagengisins og álfabikargengisins. Þú getur rétt ímyndað þér hvort gengið vinnur.
Heimildir
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?