Orkudrykkir hafa orðið að einni visælustu neysluvöru í matarmenningu ungs fólks á Íslandi sem og víða um heim. Bæði úrval og aðgengi að orkudrykkjum hefur aukist mikið á undanförnum árum en sitt sýnist hverjum um hversu sniðug lausn orkudrykkir séu gegn þreytu og sleni.
Hvað eru orkudrykkir?
Orkudrykkir eru skilgreindir sem óáfengir drykkir sem innihalda koffín, vítamín og önnur innihaldsefni svo sem ginseng, sykur, tárín og guarana. Í flestum tilfellum eru þessir drykkir markaðssettir sem orkugefandi drykkir sem bæti líkamlegt og andlegt úthald þeirra sem velja að neyta þeirra.
Kostir og gallar þess að drekka orkudrykk
Ávinningurinn af því að drekka orkudrykki er ekki kostnaðarlaus og getur mikil neysla þeirra haft langvarandi og skaðleg áhrif á neytendur. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), sem hefur lagst yfir rannsóknir á áhrifum orkudrykkjum, þá er ástæða til að óttast auðvelt aðgengi og mikla neyslu orkudrykkja. Þar sem neysla og sala orkudrykkja er ekki undir neinu eftirliti, ólíkt vörum á borð við áfengi og tóbak, þá er auðvelt fyrir ungt fólk að nálgast þessar vörur.
Flóknar innihaldslýsingar
Eitt af vandamálunum í umræðunni um orkudrykki er að það reynist hinum hefðbundna neytanda oft erfitt fyrir að skilja nákvæmlega hvað þeir innihalda. Til dæmis innihalda flestir þeirra bæði koffín og guarana, en guarana-baunir innihalda tvöfallt meira koffín en kaffibaunir. Eitt gramm af guarana inniheldur um 40mg af koffíni, en þessi tvö innihaldsefni eru yfirleitt ekki tekin saman í innihaldslýsingu orkudrykkja og heildarmagns koffíns. Einnig innihalda orkudrykkir yfirleitt mikið magn af sykri í formi glúkósa, súkrósa og maíssýróps. Því má gera ráð fyrir að einstaklingur sem innbyrðir 2-3 orkudrykki á dag sé að innbyrða um 120-180 mg af sykri, sem er allt að sexfaldur ráðlagður dagskammtur af sykri. Getur slíkt leitt af sér lífsstílssjúkdóma á borð við sykursýki og offitu.
Innihaldsefni
Orkudrykkir, rétt eins og mörg innihaldsefni þeirra, hafa vissuelga ákveðna virkni sem getur aðstoðað okkur í daglegum athöfnum.
- Koffín getur hjálpað til við orkuleysi og einbeitingu.
- Einnig innihalda orkudrykkir oft efnið tárín, sem er aminosýra sem styður við þroska heilans og hjálpar líkamanum að stjórna magni vökva og steinefna í honum.
- Ginseng getur aukið líkamlega getu, sér í lagi í tengslum við íþróttir og hreyfingu, styrkir ofnæmiskerfið og getur haft jákvæð áhrif á vellíðan.
- Þá innihalda sumir orkudrykkir vítamín á borð við B-vítamín sem geta virkað sem forvörn gegn hjartasjúkdómum og krabbameini. Oftar en ekki er magn þessara vítamína hinsvegar af svo skornum skammti að ekki er hægt að fullyrða neitt um virkni þeirra af neyslu orkudrykkja einvörðungu.
Ekki gott að treysta á orkudrykki sem skyndilausn
Það getur verið hættulegt að sækja í orkudrykki sem “quick fix” á vandamálum sem hægt er að leysa með heilbrigðu matarræði og góðum svefnvenjum, sér í lagi þar sem orsök svefntruflana er oft hægt að rekja til mikillar neyslu á drykkjum sem innihalda mikið koffín. Innihaldslýsingar á orkudrykkjum eru flóknar og það getur reynst erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað það er sem við erum að innbyrða þegar við drekkum orkudrykki. Mikið magn sykurs og örvandi efna getur einnig verið heilsuspillandi og því verðum við að stíga varlega til jarðar og hugsa okkur tvisvar um áður en við gúffum í okkur næsta orkudrykk.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?