Hvaðan kemur kaffi?

Sagan segir að eþíópískur geitahirðir að nafni Kaldi hafi tekið eftir því að geiturnar hans hoppuðu og dönsuðu eftir að hafa borðað lítil, rauð ber.  Kaldi fór með berin til abbotta nokkurs sem uppgötvaði að hann gæti beðið bænirnar sínar miklu lengur ef hann neytti berjanna.  Það þarf ekki að vera að sagan sé sönn, en hitt er rétt að berjaræktunin barst frá Eþíópíu til Arabalandanna sem hófu ræktun og sölu á kaffibaunum.
Nú er kaffi aðallega ræktað í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.

Hvernig er framleiðsluferlið?

Kaffijurtin byrjar að blómstra eftir tvö til þrjú ár og fimm árum eftir gróðusetningu fara að myndast kaffiber.  Eftir 8 mánuði breytist liturinn á kaffiberjunum úr grænum í rauð.  Kaffiberin eru yfirleitt handtínd.  Fræin, sem yfirleitt eru kölluð kaffibaunir, eru losuð úr berinu með ýmsum aðferðum, sólþurrkun, vatnsbaði og fleiru, en í hverju beri eru tvær grænar baunir.  Baunirnar eru svo hreinsaðar enn frekar, flokkaðar eftir gæðum og svo að lokum ristaðar og malaðar.  Óristaðar baunir endast mun lengur en ristaðar og malaðar endast langverst.

Ýmsar leiðir til uppáhellingar

Kaffi er yfirleitt framreitt úr heitu vatni og möluðum kaffibaunum, en til eru ansi margar leiðir til þess að hella upp á góðan bolla.  Hér skoðum við nokkrar.

Filterkaffi

Hefðbundnasta leið í sögu Íslendinga til þess að hella upp á kaffi er vafalaust að nota kaffifilter, sem er einnota sía úr pappír sem síar heitt vatn í gegnum malað kaffi.  Til eru kaffivélar þar sem kaffiunnandi hellir köldu vatni í, kemur kaffinu fyrir og vélin sér svo um að hita vatnið, dæla því hægt og rólega yfir kaffið og heldur svo kaffinu heitu.  Einnig er hægt að nota kaffitrekt, hita sjálfur vatnið og hella því í smáum skömmtum yfir kaffið.

Kaffið sem fæst með þessari uppáhellingu er meðalsterkt, koffínmikið og heldur bragðeiginleikum kaffibaunanna mjög vel.

Pressukanna

Pressukönnur eru þægileg leið til að hella upp á kaffi og útkoman nokkuð góð.  Kaffiunnandinn setur kaffið einfaldlega í könnuna, ásamt heitu vatni, bíður í 4 mínútur og þrýstir svo lokinu niður sem síar kaffikorginn frá og skilur eftir funheitt kaffi.  Nota þarf grófmalaðar baunir, því ef þær eru fínmalaðar er erfiðara að sía þær og þrýstingurinn verður talsverður.  Pressukönnur eru líka handhægar og hentugar á ferðalögum.  Best er að nota um 30 gr af kaffi á hvern hálfan lítra af vatni.

Kaffið sem fæst úr pressukönnu er meðalsterkt, koffínmikið og heldur bragðeiginleikum kaffibaunanna vel.

Tyrkneskt kaffi

Tyrkneskt kaffi er óalgengt á Íslandi, en mjög vinsælt í Arabaheiminum, á Balkanskaganum og á Kákasussvæðinu.  Notast er við fínmalað kaffi, sem er soðið í sérstökum potti, oft ásamt sykri og stundum er kaffið blandað með kardamommum.  Í grunninn er kaffið sett í kalt vatn og soðið um stund, en hvert svæði á sína eigin aðferð að einhverju leyti.  Sumir lyfta koparpottinum ákveðið oft þegar suðan er komin upp, aðrir hræra ákveðið marga hringi rangsælis og ákveðið marga réttsælis og svo framvegis.  Kaffinu er hellt í bolla og látið standa um stund, svo að kaffikorgurinn setjist í botninn.  Kaffikorgurinn er ekki síaður frá eins og með hinum aðferðunum.

Kaffið sem fæst með tyrknesku aðferðinni er sætt og bragðgott, en ekki fyrir allra smekk, enda verður talsverður korgur eftir í kaffibollanum.

Mokkakanna

MokkakannaMokkakönnur eru könnur sem eru settar beint á helluna og úr því kemur sterkt, þykkt kaffi sem minnir töluvert á espressó. Vatnið er sett í neðri part könnunar og kaffið í millihólf.  Vatnið sýður undir talsverðum þrýstingi, þrýstir sér svo leið í gegnum kaffiduftið og endar í efsta hólfinu.  Best er að nota fremur grófmalað kaffi.

Kaffið sem fæst úr mokkakönnu er dökkt, sterkt og örlítið brennt á bragðið.

Espressóvél

Espressó er smáskammtur af kaffi sem er grunnurinn í mörgum kaffidrykhkjum, svo sem cappuccino, latte og macchiato, þar sem kaffinu er blandað saman við flóaða eða freydda mjólk.  Espressó er mjög lítið magn af þykku, sterku kaffi, eða um 25 ml.  Kaffið er búið til undir miklum þrýstingi, þar sem sérstök espressóvél þrýstir kaffinu í gegnum kaffigreip með málmsíu.  Talsverða færni þarf til að búa til espressó en til eru heimilisvélar, sem kosta svo sannarlega skildinginn.
Kaffið sem fæst úr espressóvél er þykkt, dökkt og sterkt og í mjög litlum skömmtum.

Til eru fleiri leiðir til að hella upp á kaffi, svo sem AeroPress, Chemex, Nespresso-vélar sem ekki er fjallað um hér.  Einnig er til svokallað instant-kaffi, en greinarhöfunum Áttavitans finnst það varla teljast vera kaffi (þó foreldrar þeirra haldi öðru fram) og því er ekki fjallað um það.

Hver kaffiunnandi verður svo bara finna þá aðferð sem hann er hrifnastur af, prófa sig áfram og leita þeirrar leiðar sem honum hentar best.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar